15.7.13

Vertu sæll og góða nótt og ég elska þig

Kvöld eitt klifraði afi töggur upp reynitréð sem hallaði sér svo heppilega að húsveggnum hjá fallegustu stelpunni í Reykjavík – hann þurfti að fara mjög varlega.

Svo söng hann inn um gluggann hjá verðandi eiginkonu sinni:

Ég dansa á dauðum laufblöðum,
dreg ýsur út við sjó,
gef þér svo allt sem mér áskotnast,
ást mína og götótta skó ...

með tregablandinni barítónröddu sem hæfði svo vel tilefninu, þ.e. þeirri vonlausu ást sem hann hafði fellt til dóttur ríkasta kaupmanns Reykjavíkur. Hann kyrjaði nokkrar vísur á ákaflega tilfinningaþrunginn hátt og laumaði síðan litlum bréfmiða inn um rifuna á glugganum, beint í hendurnar á ömmu ljúfu sem lá þar inni undir rósóttri sæng með iðandi aulabros dansandi um freknótt andlitið og kreppti tærnar af galsa vegna þessarar spennuþrungnu, kitlandi tilfinningar sem slorlyktin af afa töggi vakti innra með henni.

Á bréfmiðanum stóð: Nú er komið að þér!

Ekki er að orðlengja það að strax næsta kvöld, þegar afi töggur lagði lúin bein á rúmbeddann sinn (og gætti þess að skilja eftir dálitla rifu á glugganum), læddist þar inn í skonsuna til hans hikandi og dálítið fölsk – eiginlega bara alveg rammfölsk – stelpurödd sem flutti feimnislega nokkrar frumsamdar hendingar:

Fíngerð er ég. Já, og feimin og rjóð,
fallega innréttuð, skynsöm og góð!

áður en afi töggur tók við keflinu og söng undir sænginni:

Ég er með stóra sál og strákslega barta,
sterkar hendur og viðkvæmt hjarta!

Amma ljúfa sótti í sig veðrið og var nú ekki alveg eins fölsk lengur:

Þegar árstíðin er svört verða auglit þín svo björt
að æðrulaus ég hlæ við hverri vá ...

Afi töggur:

Og ég uppgötva og skil ...

Amma ljúfa:

... hvernig ástin verður til ...

Afi töggur:

... og augun þín sem glitra himinblá ...

Amma ljúfa:

... ég ætla að horfa þangað uns ég hætti að ...

Bæði:

... sjááá!

Þegar laginu lauk var snyrtilega samanbrotnum pappírsmiða stungið leiftursnöggt inn um gluggann og síðan tifað hratt út eftir götunni undurléttum kvenmannsfótum á meðan afi töggur renndi brosandi yfir orðsendinguna í skímunni frá kertaljósinu:

Vertu sæll og góða nótt og ég elska þig.

Hann blés á logann og lagðist draumsæll til svefns, fann hvernig orðin hjúfruðu sig að honum í röku og næðingssömu herberginu sem hann vonaðist til að geta flutt út úr með vorinu.