Nokkrum árum síðar las ég A Moveable Feast svo í frumútgáfunni og fannst hún þá langtum síðri bók en mig minnti – rétt eins og þegar ég álpaðist einhvern tímann til að glugga í Candide Voltaires á ensku, sem er ekki hægt eftir að hafa lesið Birting H.K.L. (Auðvitað á maður samt helst að lesa þá bók á frönsku ef maður getur.) En ég ákvað sumsé að Hemingway væri stórlega ofmetinn lúsablesi og ekkert svo ýkja merkilegur.
En í gær endurlas ég Veislu í farangrinum í einnu setulotu, dáleiddur. Mikið er hún fín. Alltaf þegar ég sannfærist um að nú sé ekki lengur hægt að skrifa neitt merkilegt á íslensku þarf ég líka ekki annað en að glugga í bók eftir Laxness eða þýðingu, til dæmis útgáfu hans af Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar sem ég er líka með hér hjá mér í París og er önnur dásamlega hlý og einlæg bók, heldur þó lengri en Veisla í farangrinum og kannski full-löng – þessa dagana finnast mér bækur helst ekki eiga að vera neitt alltof langar, kannski einmitt vegna þess að ég hef strögglað við svo marga doðranta undanfarið, Infinite Jest, Fjallkirkjuna, Önnu Karenína, eitthvað svona dót, bækur til að rota fyllibyttur.
Allavega: ég beit það í mig fyrir dálítið löngu að hata Ernest Hemingway. Undanfarin ár hef ég brugðist við með orðunum: „Hann er nú bara ofmetinn miðjumoðsglópur!“ í hvert skipti sem einhver tekur að ausa verk hans lofi. Sjálfsagt stafar þessi þrákelki mín af hinum nöturlegu örlögum sem hann hlaut eftir að hann skaut sig í höfuðið með haglabyssu: nú talar fólk talar meira um manninn sem skrifaði bækurnar en bækurnar sjálfar. En bækurnar halda gildi sínu – það rifjaðist upp fyrir mér í gær.

Nú hefur Forlagið endurútgefið Veislu í farangrinum. Betri bók gefur Forlagið ekki út þetta árið, þótt vonandi gefi það líka út einhverja aðra góða bók þetta árið. Við sögu koma margar þekktar persónur, Ezra Pound, Gertrude Stein, James Joyce, og síðast en ekki síst F. Scott Fitzgerald og eiginkona hans, Zelda, sú alræmda kvensnift bókmenntanna; kaflinn þar sem Scott „veikist“ er einn af hápunktunum. Annars er yfir bókinni allri einhver angurvær og tregablandinn, en jafnframt svo ljúfur og vinalegur, tónn, og hún er skemmtileg, léttleikandi, fjörug, fyndin, einlæg, ég mæli með henni.
Þegar Hemingway fékk Nóbelinn árið 1954 segir sagan að hann hafi sent Kiljan símskeyti og beðist afsökunar á því að hirða af honum verðlaunin. Halldór þurfti því að bíða ári lengur eftir að röðin kæmi að honum. Þegar þessir tveir menn leiða saman hesta sína er annars ekki að spyrja að útkomunni – mér finnst að flestir ættu að lesa Veislu í farangrinum, helst bara strax í dag.