4.12.12

Bakarí úr framtíðinni

Í gær spurði gömul, virðuleg kona mig hvort ég gæti þegið víndreitil.

„Nei, takk, ég er geðveikur,“ sagði ég. (Ég ætlaði að segja að ég væri með höfuðverk.)

Áðan keypti ég mér svo eitt chausson aux pommes, sem er það sem ég lifi á þessa dagana.


Afgreiðslumaðurinn í bakaríinu harðneitaði að taka við klinkinu mínu. Ég þráaðist við og hélt áfram að rétta honum skiptimyntina, nokkuð önuglega, enda þráðu vanræktir bragðlaukar mínir að finna dísætt bragðið af eplunum og bökunardeiginu umhverfis. Afgreiðslumaðurinn benti áfram á eitthvert óskilgreint tæki sem stóð við afgreiðsludiskinn og að lokum rann upp fyrir mér að þar var um að ræða einhvers konar myntgleypi. Ég hvolfdi úr lófanum í myntgleypinn og hann kyngdi aurunum mínum og gaf mér til baka.

Við lifum í framtíðinni.