Ég hringdi áðan á hárgreiðslustofuna Eplið – en þangað fer pabbi jafnan til að láta snyrta sinn grásprengda hárskúf – og pantaði þar tíma hjá hinum fima Hlyni, sem fær ýtrustu meðmæli pabba. Fer þangað eftir hádegi; ekki er laust við að ég sé með dálítinn fiðring í maganum. Fiðrildi jafnvel.
Ég held að ég hafi ekki látið skerða hár mitt síðan seinasta sumar, svei mér þá.
Á Eplinu starfar einungis „metnaðarfullt fagfólk“ og er þar boðið upp á „fyrsta flokks hársnyrti- og förðunarþjónustu“. Það kitlar því dálítið að láta brydda eitthvað upp á fésið á mér, krydda það til dæmis með dálítið sumarlegum kinnalit. Einnig hef ég fyrir satt að þar sé „mikið úrval“ af „góðum hár- og snyrtivörum“ og þar með væri kannski líka hægt að vinna eitthvað gegn flösunni sem snjóar nú hamslaust yfir lyklaborðið hjá mér þar sem ég hamra þetta inn af mínum eðlislæga tryllingi.
„Á stofunni hafa verið haldnar fjölmargar sýningar með verkum íslenskra myndlistarmanna og ljósmyndara. Margir tónlistarmenn hafa auk þess troðið upp á [E]plinu við [ýmis] tækifæri.“ Hver veit nema við tökum lagið?
Það var annars Jón Guðmundsson, arkitekt, sem hannaði stofuna. Fyrir hönnunina hefur hann vakið „verðskuldaða athygli“, enda þykir hún „afar vel heppnuð“.
Á Eplinu er boðið upp á „besta kaffið í bænum“ og allir eru þar „hjartanlega velkomnir“.
Ég hlakka til!
*
Heimildir:
Eplid.is.
18.6.13
Ósannfærandi karlmaður á tuttugasta og eitthvað aldursári byrjar aftur að blogga
Ég hjó eftir því í Fréttablaðinu í dag – heitir það ekki Fréttablaðið? – að Friðrika Benónýsdóttir – heitir hún ekki Friðrika Benónýsdóttir? – skrifar í ritdómi sínum um e-a nýja, íslenska ástarsögu, Elskhuginn, (ég held alveg örugglega að bókin heiti Elskhuginn), ástarsögu sem gefin er út undir dulnefni (ég man ekki dulnefnið: Karl eitthvað?) – þar segir Benóný, ég meina Friðrika að persónulýsingar höfundarins séu afar ósannfærandi, til dæmis sé þarna aðalpersóna um þrítugt sem haldi ákaflega mikið upp á Madonnu og kunni alla texta Simon & Garfunkel utan að. Þetta þótti FB sumsé fráleitt, þ.e. að karlmaður um þrítugt haldi upp á Madonnu og geymi texta Paul Simon í minninu.
Nú er ég ekki enn orðinn þrítugur, ég held að ég sé tuttugu og sex ára, eða kannski er ég nýorðinn tuttugu og sjö ára, ég veit það ekki, en hitt veit ég fyrir víst, að fyrsta plata Madonnu, sem heitir auðvitað bara Madonna (og inniheldur GEÐVEIK lög á borð við „Holiday“, „Lucky Star“, „Borderline“, þetta er allt saman frekar skothelt þarna) er ein af mínum eftirlætis-plötum – og svo hugsaði ég einmitt nú um helgina, meðan ég söng hástöfum með einhverju popplaginu eftir Paul Simon þar sem ég ók langt yfir hámarkshraða um Munaðarnesið, að sennilega kynni ég ekki fleiri texta eftir nokkurn annan tónlistarmann en Paul Simon.
Það þyrfti ekki meira en þetta litla atvik til að fá mig til að byrja aftur að blogga.
Nú er ég ekki enn orðinn þrítugur, ég held að ég sé tuttugu og sex ára, eða kannski er ég nýorðinn tuttugu og sjö ára, ég veit það ekki, en hitt veit ég fyrir víst, að fyrsta plata Madonnu, sem heitir auðvitað bara Madonna (og inniheldur GEÐVEIK lög á borð við „Holiday“, „Lucky Star“, „Borderline“, þetta er allt saman frekar skothelt þarna) er ein af mínum eftirlætis-plötum – og svo hugsaði ég einmitt nú um helgina, meðan ég söng hástöfum með einhverju popplaginu eftir Paul Simon þar sem ég ók langt yfir hámarkshraða um Munaðarnesið, að sennilega kynni ég ekki fleiri texta eftir nokkurn annan tónlistarmann en Paul Simon.
Það þyrfti ekki meira en þetta litla atvik til að fá mig til að byrja aftur að blogga.
Subscribe to:
Posts (Atom)