Ég hjó eftir því í Fréttablaðinu í dag – heitir það ekki Fréttablaðið? – að Friðrika Benónýsdóttir – heitir hún ekki Friðrika Benónýsdóttir? – skrifar í ritdómi sínum um e-a nýja, íslenska ástarsögu, Elskhuginn, (ég held alveg örugglega að bókin heiti Elskhuginn), ástarsögu sem gefin er út undir dulnefni (ég man ekki dulnefnið: Karl eitthvað?) – þar segir Benóný, ég meina Friðrika að persónulýsingar höfundarins séu afar ósannfærandi, til dæmis sé þarna aðalpersóna um þrítugt sem haldi ákaflega mikið upp á Madonnu og kunni alla texta Simon & Garfunkel utan að. Þetta þótti FB sumsé fráleitt, þ.e. að karlmaður um þrítugt haldi upp á Madonnu og geymi texta Paul Simon í minninu.
Nú er ég ekki enn orðinn þrítugur, ég held að ég sé tuttugu og sex ára, eða kannski er ég nýorðinn tuttugu og sjö ára, ég veit það ekki, en hitt veit ég fyrir víst, að fyrsta plata Madonnu, sem heitir auðvitað bara Madonna (og inniheldur GEÐVEIK lög á borð við „Holiday“, „Lucky Star“, „Borderline“, þetta er allt saman frekar skothelt þarna) er ein af mínum eftirlætis-plötum – og svo hugsaði ég einmitt nú um helgina, meðan ég söng hástöfum með einhverju popplaginu eftir Paul Simon þar sem ég ók langt yfir hámarkshraða um Munaðarnesið, að sennilega kynni ég ekki fleiri texta eftir nokkurn annan tónlistarmann en Paul Simon.
Það þyrfti ekki meira en þetta litla atvik til að fá mig til að byrja aftur að blogga.