Ég hringdi áðan á hárgreiðslustofuna Eplið – en þangað fer pabbi jafnan til að láta snyrta sinn grásprengda hárskúf – og pantaði þar tíma hjá hinum fima Hlyni, sem fær ýtrustu meðmæli pabba. Fer þangað eftir hádegi; ekki er laust við að ég sé með dálítinn fiðring í maganum. Fiðrildi jafnvel.
Ég held að ég hafi ekki látið skerða hár mitt síðan seinasta sumar, svei mér þá.
Á Eplinu starfar einungis „metnaðarfullt fagfólk“ og er þar boðið upp á „fyrsta flokks hársnyrti- og förðunarþjónustu“. Það kitlar því dálítið að láta brydda eitthvað upp á fésið á mér, krydda það til dæmis með dálítið sumarlegum kinnalit. Einnig hef ég fyrir satt að þar sé „mikið úrval“ af „góðum hár- og snyrtivörum“ og þar með væri kannski líka hægt að vinna eitthvað gegn flösunni sem snjóar nú hamslaust yfir lyklaborðið hjá mér þar sem ég hamra þetta inn af mínum eðlislæga tryllingi.
„Á stofunni hafa verið haldnar fjölmargar sýningar með verkum íslenskra myndlistarmanna og ljósmyndara. Margir tónlistarmenn hafa auk þess troðið upp á [E]plinu við [ýmis] tækifæri.“ Hver veit nema við tökum lagið?
Það var annars Jón Guðmundsson, arkitekt, sem hannaði stofuna. Fyrir hönnunina hefur hann vakið „verðskuldaða athygli“, enda þykir hún „afar vel heppnuð“.
Á Eplinu er boðið upp á „besta kaffið í bænum“ og allir eru þar „hjartanlega velkomnir“.
Ég hlakka til!
*
Heimildir:
Eplid.is.