15.7.13

Vertu sæll og góða nótt og ég elska þig

Kvöld eitt klifraði afi töggur upp reynitréð sem hallaði sér svo heppilega að húsveggnum hjá fallegustu stelpunni í Reykjavík – hann þurfti að fara mjög varlega.

Svo söng hann inn um gluggann hjá verðandi eiginkonu sinni:

Ég dansa á dauðum laufblöðum,
dreg ýsur út við sjó,
gef þér svo allt sem mér áskotnast,
ást mína og götótta skó ...

með tregablandinni barítónröddu sem hæfði svo vel tilefninu, þ.e. þeirri vonlausu ást sem hann hafði fellt til dóttur ríkasta kaupmanns Reykjavíkur. Hann kyrjaði nokkrar vísur á ákaflega tilfinningaþrunginn hátt og laumaði síðan litlum bréfmiða inn um rifuna á glugganum, beint í hendurnar á ömmu ljúfu sem lá þar inni undir rósóttri sæng með iðandi aulabros dansandi um freknótt andlitið og kreppti tærnar af galsa vegna þessarar spennuþrungnu, kitlandi tilfinningar sem slorlyktin af afa töggi vakti innra með henni.

Á bréfmiðanum stóð: Nú er komið að þér!

Ekki er að orðlengja það að strax næsta kvöld, þegar afi töggur lagði lúin bein á rúmbeddann sinn (og gætti þess að skilja eftir dálitla rifu á glugganum), læddist þar inn í skonsuna til hans hikandi og dálítið fölsk – eiginlega bara alveg rammfölsk – stelpurödd sem flutti feimnislega nokkrar frumsamdar hendingar:

Fíngerð er ég. Já, og feimin og rjóð,
fallega innréttuð, skynsöm og góð!

áður en afi töggur tók við keflinu og söng undir sænginni:

Ég er með stóra sál og strákslega barta,
sterkar hendur og viðkvæmt hjarta!

Amma ljúfa sótti í sig veðrið og var nú ekki alveg eins fölsk lengur:

Þegar árstíðin er svört verða auglit þín svo björt
að æðrulaus ég hlæ við hverri vá ...

Afi töggur:

Og ég uppgötva og skil ...

Amma ljúfa:

... hvernig ástin verður til ...

Afi töggur:

... og augun þín sem glitra himinblá ...

Amma ljúfa:

... ég ætla að horfa þangað uns ég hætti að ...

Bæði:

... sjááá!

Þegar laginu lauk var snyrtilega samanbrotnum pappírsmiða stungið leiftursnöggt inn um gluggann og síðan tifað hratt út eftir götunni undurléttum kvenmannsfótum á meðan afi töggur renndi brosandi yfir orðsendinguna í skímunni frá kertaljósinu:

Vertu sæll og góða nótt og ég elska þig.

Hann blés á logann og lagðist draumsæll til svefns, fann hvernig orðin hjúfruðu sig að honum í röku og næðingssömu herberginu sem hann vonaðist til að geta flutt út úr með vorinu.

19.6.13

Lítið hversdagsævintýri framundan

Ég hringdi áðan á hárgreiðslustofuna Eplið – en þangað fer pabbi jafnan til að láta snyrta sinn grásprengda hárskúf – og pantaði þar tíma hjá hinum fima Hlyni, sem fær ýtrustu meðmæli pabba. Fer þangað eftir hádegi; ekki er laust við að ég sé með dálítinn fiðring í maganum. Fiðrildi jafnvel.

Ég held að ég hafi ekki látið skerða hár mitt síðan seinasta sumar, svei mér þá.

Á Eplinu starfar einungis „metnaðarfullt fagfólk“ og er þar boðið upp á „fyrsta flokks hársnyrti- og förðunarþjónustu“. Það kitlar því dálítið að láta brydda eitthvað upp á fésið á mér, krydda það til dæmis með dálítið sumarlegum kinnalit. Einnig hef ég fyrir satt að þar sé „mikið úrval“ af „góðum hár- og snyrtivörum“ og þar með væri kannski líka hægt að vinna eitthvað gegn flösunni sem snjóar nú hamslaust yfir lyklaborðið hjá mér þar sem ég hamra þetta inn af mínum eðlislæga tryllingi.

„Á stofunni hafa verið haldnar fjölmargar sýningar með verkum íslenskra myndlistarmanna og ljósmyndara. Margir tónlistarmenn hafa auk þess troðið upp á [E]plinu við [ýmis] tækifæri.“ Hver veit nema við tökum lagið?

Það var annars Jón Guðmundsson, arkitekt, sem hannaði stofuna. Fyrir hönnunina hefur hann vakið „verðskuldaða athygli“, enda þykir hún „afar vel heppnuð“.

Á Eplinu er boðið upp á „besta kaffið í bænum“ og allir eru þar „hjartanlega velkomnir“.

Ég hlakka til!

*

Heimildir:
Eplid.is.

18.6.13

Ósannfærandi karlmaður á tuttugasta og eitthvað aldursári byrjar aftur að blogga

Ég hjó eftir því í Fréttablaðinu í dag – heitir það ekki Fréttablaðið? – að Friðrika Benónýsdóttir – heitir hún ekki Friðrika Benónýsdóttir? – skrifar í ritdómi sínum um e-a nýja, íslenska ástarsögu, Elskhuginn, (ég held alveg örugglega að bókin heiti Elskhuginn), ástarsögu sem gefin er út undir dulnefni (ég man ekki dulnefnið: Karl eitthvað?) – þar segir Benóný, ég meina Friðrika að persónulýsingar höfundarins séu afar ósannfærandi, til dæmis sé þarna aðalpersóna um þrítugt sem haldi ákaflega mikið upp á Madonnu og kunni alla texta Simon & Garfunkel utan að. Þetta þótti FB sumsé fráleitt, þ.e. að karlmaður um þrítugt haldi upp á Madonnu og geymi texta Paul Simon í minninu.

Nú er ég ekki enn orðinn þrítugur, ég held að ég sé tuttugu og sex ára, eða kannski er ég nýorðinn tuttugu og sjö ára, ég veit það ekki, en hitt veit ég fyrir víst, að fyrsta plata Madonnu, sem heitir auðvitað bara Madonna (og inniheldur GEÐVEIK lög á borð við „Holiday“, „Lucky Star“, „Borderline“, þetta er allt saman frekar skothelt þarna) er ein af mínum eftirlætis-plötum – og svo hugsaði ég einmitt nú um helgina, meðan ég söng hástöfum með einhverju popplaginu eftir Paul Simon þar sem ég ók langt yfir hámarkshraða um Munaðarnesið, að sennilega kynni ég ekki fleiri texta eftir nokkurn annan tónlistarmann en Paul Simon.

Það þyrfti ekki meira en þetta litla atvik til að fá mig til að byrja aftur að blogga.


11.1.13

Gufubað

„Bað í herbergi þar sem menn svitna við hita frá sérstökum ofni.“

15.12.12

Vinsæll glæpasagnahöfundur

A skrifaði morðgátur sem voru svo fyndnar og skemmtilegar að lesendur dóu úr hlátri við lestur bókanna.

4.12.12

Bakarí úr framtíðinni

Í gær spurði gömul, virðuleg kona mig hvort ég gæti þegið víndreitil.

„Nei, takk, ég er geðveikur,“ sagði ég. (Ég ætlaði að segja að ég væri með höfuðverk.)

Áðan keypti ég mér svo eitt chausson aux pommes, sem er það sem ég lifi á þessa dagana.


Afgreiðslumaðurinn í bakaríinu harðneitaði að taka við klinkinu mínu. Ég þráaðist við og hélt áfram að rétta honum skiptimyntina, nokkuð önuglega, enda þráðu vanræktir bragðlaukar mínir að finna dísætt bragðið af eplunum og bökunardeiginu umhverfis. Afgreiðslumaðurinn benti áfram á eitthvert óskilgreint tæki sem stóð við afgreiðsludiskinn og að lokum rann upp fyrir mér að þar var um að ræða einhvers konar myntgleypi. Ég hvolfdi úr lófanum í myntgleypinn og hann kyngdi aurunum mínum og gaf mér til baka.

Við lifum í framtíðinni.

2.12.12

(Nafnlaust)

Við hverju vandamáli er til mjög einföld lausn sem gerir vandamálið enn flóknara.

29.11.12

Maðurinn sem gleymdi orðum en mundi rímið

        (Frá 2010.)


Einn góðan veðurdag brotnaði stóllinn hans Guðmundar Óla. Hann hélt þegar út úr húsi sínu til að kaupa lím með það fyrir augum að líma stólinn aftur saman.

Hann gekk fram hjá byggingarsvæði. Í sömu mund féll múrsteinn fram af húsþaki og skall á höfðinu á honum.

Guðmundur Óli lyppaðist niður í jörðina, en reis snarlega á fætur aftur, hristi sig og skók og neri hvirfilinn. Stærðarinnar kúla hafði myndast á kollinum.

Guðmundur Óli strauk yfir kúluna og sagði:

„Ég er Guðmundur Óli, íslenskur ríkisborgari sem hélt út úr húsi sínu til að kaupa… til að kaupa… til að kaupa… til að kaupa… SLÍM. Allt það SLÍM sem…“

Á þessari stundu féll annar múrsteinn fram af húsþakinu og skall á höfðinu á Guðmundi Óla.

Guðmundur Óli nuddaði höfuðið og rakst þar á aðra kúlu.

„Ég er Guðmundur Óli, íslenskur ríkisborgari sem hélt út úr húsi til að… til að… STAUPA… SLÍM. Til að RAUPA RÍM.“

Á þessum tímapunkti féll þriðji múrsteinninn fram af húsþakinu og hafnaði á höfði Guðmundar Óla, með þeim afleiðingum að þriðja kúlan myndaðist.

„Ég, FORSVARI Guðmundur, hélt HRÚT MÚR húsi mínu til TAÐAUPA SLÍM. Til KVAÐ RAUPA RÍM… til STAÐ HLAUPA GRÍMuklæddur A…“

Á þessu andartaki féll fjórði múrsteinninn fram af húsþakinu og beint í höfuðið á Guðmundi Óla.

„Ég er… er… HVER ég BER ég er. Ég fór út úr húsi GIL TAÐ STAUPA SLÍM. SPIL KVAÐRAUPA RÍM… GIL STAÐ HLAUPA GRÍMuklæddur AÐ SÍMaklefa þegar í STAÐ MEGAR SLÝ ég…“

Á þessari stundu skall fimmti múrsteinninn á höfðinu á Guðmundi Óla.

„Ég MER… SÉ MÉR HVER SKER ég ER

SÉ MÉR HVER SKER ég ER hver
            ÞÉR
ER
ÉG STÚR BÚT MÚR BLÚSI
GIL TAÐ STAUPA SLÍM SPIL KVAÐ SPIL RAUPA IL RÍM SPIL SPIL… GIL SPIL STAÐ YL HLAUPA GRÍMuklæddur SPIL AÐ SÍM SPIL í STAÐ SPIL
… KÍM
BLAÐ
í SMAÐ
DREAM!
TIL
SKIL
ÞIL
ÞYL
ÞIL
ÞYL
DREAM!
DYL GRAÐ BAÐ ÍM VIL ÍM KÍM DREAM RAÐ HIL GIL.“

Guðmundur Óli hafði ekki fyrr sleppt orðinu þegar sjötti múrsteinninn féll í höfuðið á honum.
Hér er annað lag sem ég kyrjaði fyrir Frakka um daginn:




Textinn er (kannski) enn á vinnslustigi.



STELPAN OG STRÁKURINN


við dönsum á dauðum laufblöðum
drögum ýsur út við sjó
ég gef henni allt sem mér áskotnast
aldrei er það samt nóg

og hún segist ætla að passa mig
hún er góða stelpan
en ég veit það er vonlaust því ég
er vondi strákurinn

við vefjum úr myrkrinu voðir
því við vitum hvað nóttin er köld
og setjist sólin án hennar
er hver sekúnda eins og öld

og ég segist ætla að bjarga henni
ég er góði strákurinn
en hún veit það er vonlaust því hún
er vonda stelpan

og ég á eftir að læra svo margt
en mér endist ekki ævin til að skilja þig
og ég á eftir að missa svo margt
en ég lifi það ekki af ef ég missi þig

við dönsum á dauðum laufblöðum
drögum ýsur út við sjó
ég gef henni allt sem mér áskotnast
ást mína og götótta skó

og hún segist ætla að frelsa mig
hún er glaða stelpan
en ég veit það er vonlaust því ég
er dapri strákurinn

fólk auglýsir sárt eftir einhverjum blíðum
til að elska og hughreysta sig
en horfðu mér fram hjá ég hef ekki orku
til að hughreysta aðra en mig

og ég segist ætla að frelsa hana
ég er glaði strákurinn
en hún veit það er vonlaust því hún
er vonda stelpan

og ég á eftir að læra svo margt
en mér endist ekki ævin til að skilja þig
og ég á eftir að missa svo margt
en ég lifi það ekki af ef ég missi þig


27.11.12

Monsieur Sverrir Live in Paris

Í gær lék ég nokkur lög við hátíðlega opnunarathöfn nýs hamborgarastaðar hér í Parísarborg.

Meðal laganna sem ég flutti var nýlegt ljóð, segjum bara að það sé fullklárað. Ég komst svona nokkuð klakklaust í gegnum það (a.m.k. eitt mismæli – en ég efast um að það hafi truflað Frakkana mikið):





HAUSTLJÓÐ, PARÍS 2012:


við hvað ertu, hjarta mitt, svona hrætt?
hörfar í felur svo skelkað og raunamætt

ég vil að lífið sé leikur, þjáning og vinna
mig langar að finna til alls þess sem hægt er að finna

en suma daga er skepnan á skjön við mig
mig skortir tengingu við jörðina, sólina og þig

vorum við bara að þykjast, þú og ég, forðum?
þögninni fylgir oft meiri sársauki en orðum

það virkar lítið að vingast við þig og aðra
ef vináttan springur svo bara eins og næfurþunn blaðra

ég kæri mig ekkert um kossa sem brenna og svíða
ég kom ekki hingað til þess að sitja og bíða

        hver vegur burt
er vegur aftur heim
ef ég verð um kjurt
breytist ég í stein
hver vegur út
er vegur aftur inn
og ég vafra og reika
en skil þig samt aldrei
„vinur minn“

við norðurgluggann minn norpa laglausir þrestir
nóttin er dimm en skuggar dagsins þó verstir

það fást engin svör nema forvitnast sé og spurt
einn fagran dag mun ég sigla héðan burt

hver vegur burt
er vegur aftur heim...

25.11.12

Sumir menn



Til minnis

Verðmætasköpun er grundvöllur velferðar.

23.11.12

Stundum finnst mér

Stundum finnst mér að ég ætti að fylgjast betur með fréttum og taka virkari þátt í þjóðfélagsumræðunni.


Síðan fer ég að gera eitthvað annað.

Mikið tjáð með nokkrum hljóðum

Ég hef mjög oft heyrt tónlistarmenn lýsa því yfir að með músík megi tjá svo ótal margt sem einfaldlega sé ekki hægt að færa í orð – og ég skil aldrei neitt hvað þeir eru að tala um, hvorki þegar ég hlusta á þá tala um þetta né þegar ég heyri svo tónlistina þeirra.

Hvað ætli drykkjurúturinn Billy Joel
hafi um þetta að segja?

Til dæmis situr dálítið í mér yfirlýsing gítarleikara og aðallagasmiðs hljómsveitarinnar Agent Fresco, um að tónlist geti tjáð „svo miklu fleira en hið ritaða orð“. (Ég heyrði þetta í sjónvarpinu fyrir allnokkru.)

Ég veit ekki til hvers þessi ágæti (og mjög svo hæfileikaríki) tónlistarmaður vísar með orðasambandinu „hið ritaða orð“ – þetta er eitthvað svo hátíðlegt og þrungið slíkum fjálgleika að hann hlýtur að eiga við sjálfa Biblíuna eða skýrslu Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003-2004.

Agent Fresco er reyndar mjög flink og efnileg hljómsveit og ég er ekki viss um að ég gæti skrifað neitt sem vekti sömu stemningu og músíkin þeirra.

Hins vegar veit ég ekki heldur hvaða undirtektir það vekti ef ég bæði vinkonu mína hana Marion um ylvolgan kaffibolla og sneið af randalín á lúður, á eftir þegar ég tylli mér á Le Petit Café – eða hvort ég gæti yfirhöfuð beðið hana um nokkuð að drekka/borða á lúður.

Ég held reyndar að þessi algenga hugmynd – um að segja megi fleira með laglínum og áslætti en orðum – vísi ekki til merkingar, heldur tilfinninga. Með tónlist má vissulega vekja mjög sterkar tilfinningar á mjög skömmum tíma – til dæmis með hressilegum stríðstakti – sem er ástæða þess hversu öflugt og vinsælt þetta listform er. Fólk „elskar“ að „upplifa“ tilfinningar, jafnvel þær sáru og vondu, svo framarlega sem við þurfum ekki að gjalda fyrir það. (Svo framarlega sem Godzilla er að borða einhvern annan.) Og þess vegna held ég að þessi fullyrðing – um að hægt sé að segja fleira með mandólínslætti en fimmliðahætti – rugli saman (merkingarlausum) tilfinningum og (vitsmunalegu) innihaldi.

Myndin tengist efni greinarinnar ekki beint.

Ef Doddi tyllir sér til dæmis við píanóið sitt og spilar Dm – þennan hinn sorglegasta moll allra molltegunda – setur Stína upp skeifu. Það merkir þó ekki annað en að Stína sé tilfinningavera.

Þess vegna held ég reyndar að hægt sé að segja miklu fleira með „hinu ritaða orði“ en „hinni leiknu nótu“. Til dæmis hef ég reynt að spila þetta á munnhörpuna mína frá því í dagrenningu:

„Geislavirk efni glóa í myrkri eftir að ljós hefur skinið á þau og því taldi Henri Becquerel að glóðin, sem myndaðist í bakskautslömpum með röntgengeislun, gæti á einhvern hátt tengst þessu sjálflýsandi fyrirbæri.“
án nokkurs árangurs, og þyki ég nokkuð slunginn á munnhörpu.

Í fréttum er annars það helst að áðan flaug hjá gítar fyrir utan gluggann minn.

22.11.12

Þættir úr daglegu lífi (12#)

Þegar hann sneri aftur úr vinnunni og opnaði heimili sitt voru allir Facebook-vinir hans þar saman komnir til að segja honum hvað drifið hefði á daga þeirra undanfarið.

Þættir úr daglegu lífi (11#)



20.11.12

Þættir úr daglegu lífi (10#)



Að eiga rétt á harmleiknum

Mig minnir að það hafi verið Milan Kundera sem sagði að nútíminn hefði rænt okkur réttinum til þess að upplifa harm – eða „tilkallinu til harmleiksins“. Eitthvað svoleiðis sagði Milan. Það er hallærislegt að finna til og steypa sér kollskít af gleði og þrá og depurð innan um snúrur og póstmódernísk glott.

William Saroyan er einn af þeim örfáu höfundum sem hafa í áranna rás orðið eins og einn af mínum bestu vinum. Ég hef á tilfinningunni að þessi maður, borinn og barnfæddur í Freskó, San Fransisco, en Armeni að uppruna, hafi einhvern veginn alltaf verið með lífið í lúkunum, allt undir. Hann var óheflaður, tilfinningaríkur, stundum engill, stundum drykkjusvoli, einn daginn var honum mikið hampað, daginn eftir var hann næstum öllum gleymdur. Í dag þykir merkikertum hann hallærislegur og gamaldags, of „sentímentalískur“.

The most solid advice for a writer is this, I think: Try to learn to breathe deeply, really to taste food when you eat, and when you sleep really to sleep. Try as much as possible to be wholly alive with all your might, and when you laugh, laugh like hell. And when you get angry, get good and angry. Try to be alive. You will be dead soon enough.
Ef þetta er „sentimalismi“, þá er ég sekur.

Ég fór að hugsa um Saroyan þegar ég rakst á þessa fínu grein. Verk eftir hann hafa komið út á íslensku; Óskar Árni þýddi nokkrar sögur úr hinni frábæru fyrstu bók hans, The Daring Young Man on the Flying Trapeze, og kallaði safnið Kæra Gréta Garbo, og svo þýddi Gyrðir Elíasson tvær aðrar stórfínar bækur, My Name Is Aram og Madness in the Family, sem Ég heiti Aram og Geðbilun í ættinni. Saroyan skrifaði og gaf út fjöldamargar bækur, mjög misjafnar að gæðum, eins og gengur; ég held að óhætt sé líka að mæla með þekktustu skáldsögunni hans, The Human Comedy. Og ég er viss um að heimurinn væri ekkert síðri staður, og bókmenntirnar myndu skipta meira máli í daglega lífinu (skipta þær einhverju máli í dag?), ef aðeins yrði slakað á kaldhæðninni, skrúfað upp í einlægninni, og menn yrðu ekki feimnir við að hafa tilfinningar eins og Bill gamli.

Svo var hann líka með helvíti flott skegg: