William Saroyan er einn af þeim örfáu höfundum sem hafa í áranna rás orðið eins og einn af mínum bestu vinum. Ég hef á tilfinningunni að þessi maður, borinn og barnfæddur í Freskó, San Fransisco, en Armeni að uppruna, hafi einhvern veginn alltaf verið með lífið í lúkunum, allt undir. Hann var óheflaður, tilfinningaríkur, stundum engill, stundum drykkjusvoli, einn daginn var honum mikið hampað, daginn eftir var hann næstum öllum gleymdur. Í dag þykir merkikertum hann hallærislegur og gamaldags, of „sentímentalískur“.
The most solid advice for a writer is this, I think: Try to learn to breathe deeply, really to taste food when you eat, and when you sleep really to sleep. Try as much as possible to be wholly alive with all your might, and when you laugh, laugh like hell. And when you get angry, get good and angry. Try to be alive. You will be dead soon enough.Ef þetta er „sentimalismi“, þá er ég sekur.
Ég fór að hugsa um Saroyan þegar ég rakst á þessa fínu grein. Verk eftir hann hafa komið út á íslensku; Óskar Árni þýddi nokkrar sögur úr hinni frábæru fyrstu bók hans, The Daring Young Man on the Flying Trapeze, og kallaði safnið Kæra Gréta Garbo, og svo þýddi Gyrðir Elíasson tvær aðrar stórfínar bækur, My Name Is Aram og Madness in the Family, sem Ég heiti Aram og Geðbilun í ættinni. Saroyan skrifaði og gaf út fjöldamargar bækur, mjög misjafnar að gæðum, eins og gengur; ég held að óhætt sé líka að mæla með þekktustu skáldsögunni hans, The Human Comedy. Og ég er viss um að heimurinn væri ekkert síðri staður, og bókmenntirnar myndu skipta meira máli í daglega lífinu (skipta þær einhverju máli í dag?), ef aðeins yrði slakað á kaldhæðninni, skrúfað upp í einlægninni, og menn yrðu ekki feimnir við að hafa tilfinningar eins og Bill gamli.
Svo var hann líka með helvíti flott skegg: