27.11.12

Monsieur Sverrir Live in Paris

Í gær lék ég nokkur lög við hátíðlega opnunarathöfn nýs hamborgarastaðar hér í Parísarborg.

Meðal laganna sem ég flutti var nýlegt ljóð, segjum bara að það sé fullklárað. Ég komst svona nokkuð klakklaust í gegnum það (a.m.k. eitt mismæli – en ég efast um að það hafi truflað Frakkana mikið):





HAUSTLJÓÐ, PARÍS 2012:


við hvað ertu, hjarta mitt, svona hrætt?
hörfar í felur svo skelkað og raunamætt

ég vil að lífið sé leikur, þjáning og vinna
mig langar að finna til alls þess sem hægt er að finna

en suma daga er skepnan á skjön við mig
mig skortir tengingu við jörðina, sólina og þig

vorum við bara að þykjast, þú og ég, forðum?
þögninni fylgir oft meiri sársauki en orðum

það virkar lítið að vingast við þig og aðra
ef vináttan springur svo bara eins og næfurþunn blaðra

ég kæri mig ekkert um kossa sem brenna og svíða
ég kom ekki hingað til þess að sitja og bíða

        hver vegur burt
er vegur aftur heim
ef ég verð um kjurt
breytist ég í stein
hver vegur út
er vegur aftur inn
og ég vafra og reika
en skil þig samt aldrei
„vinur minn“

við norðurgluggann minn norpa laglausir þrestir
nóttin er dimm en skuggar dagsins þó verstir

það fást engin svör nema forvitnast sé og spurt
einn fagran dag mun ég sigla héðan burt

hver vegur burt
er vegur aftur heim...