Það versta við Mitt Romney er hversu leiðinlegur hann virkar. Ríkur mormóni sem hljómar eins og hann hafi ekki dregið frá tjöldin frá gluggunum hjá sér í 70 ár. (En þannig á hann sjálfsagt að hljóma, svo að hann höfði til allra hinna sem hafa í raun og veru ekki dregið frá hjá sér í jafn langan tíma.)
Romney reynir að koma auga á bandaríska fánann. |
Um daginn lenti ég annars á rabbi við stúlku sem lærir með mér frönsku. Hún er fædd í Nígeríu, en hefur undanfarin ár búið í Chicago, og nú er hún komin til Parísar á vegum trúboðshreyfingar.
„Hlutverk mitt á jörðinni er að bjarga fólki,“ sagði hún, „og leiða það inn í guðdóminn.“ (Án gríns.)
Ég þorði ekki að spyrja: En hvað ef fólk vill ekki láta þig bjarga sér? og sagði því: „Já, það er mjög áhugavert.“
Það hafði ekki einu sinni hvarflað að mér að þessi stúlka væri trúuð, enda virkaði hún mjög indæl. En svona er ég nú lélegur mannþekkjari.
Skömmu síðar, þegar ég minntist á það að ég hygðist bráðum (bjartsýnin uppmáluð) lesa alla Biblíuna, sagði þessi vinkona mín: „Já, þú ættir að lesa hana, sko. Það merkilegasta við þá bók er að það er óhugsandi að menn hafi skrifað hana.“
„Hvað áttu við?“
„Bara. Ef þú lest Biblíuna blasir við að það er óhugsandi að menn hafi skrifað hana.“
Fram að þessu hafði ég setið á strák mínum. En þegar stúlkan benti mér á að Biblían væri öðruvísi en allt annað ritað mál, sagði ég hins vegar: „Þú veist að stærstur hluti sagnanna í Biblíunni er tekinn úr eldri goðsögnum og heimildum? Til dæmis sagan um Nóa og örkina, hún kemur líka fyrir í ...“ – hér þurfti ég að hugsa mig mjög lengi um áður en ég mundi loksins nafnið á söguljóðinu – „... Gilgameskviðu!“
Þetta hafði stúlkan raunar ekki hugmynd um. En hún hafði líka lítinn áhuga á þessu og þurfti bráðum að drífa sig.
Annars er góð bók um trúarofstæki Glataðir snillingar eftir færeyska höfundinn William Heinesen, sem hafnaði Nóbelsverðlaununum með þeim rökstuðningi að það myndi taka hann alltof langan tíma að drekka út allt verðlaunaféð.
Heinesen. |