15.11.12
Kaffidrykkja
Alfreð sagði að ástandið í Afríku væri bágt, sem var orð sem hann notaði talsvert mikið, bágt. Bertha sagðist aldrei hafa stigið fæti í aðra heimsálfu en Evrópu og raunar ekki kæra sig neitt um það. Þau ræddu Obama og Bertha sagði að sér þætti „gott“ að forseti Bandaríkjanna væri „svartur“, án þess að útskýra það neitt frekar. Þau voru sammála um að íslenskir stjórnmálamenn væru „ómerkilegur pappír“, en gátu þó komið sér saman um að Davíð Oddsson væri „nú ekkert blávatn“, þótt honum hefði reyndar stundum orðið á í messunni. „En það gengur náttúrlega ekki að alþingismenn stappi bara og þófi dögunum saman án þess að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut!“ sagði Alfreð. Þau hörmuðu bæði hversu fáir íslenskuðu orðið erlendan kveðskap. „Og allt bara úr ensku,“ andvarpaði Bertha. Alfreð þóttist telja að líf manneskju, sem hefði kaffibolla fyrir framan sig, væri einhvern veginn „þýðingarmeira“ en ella, og bætti síðan við: „Já, lífið yrði nú heldur bágt án kaffibaunarinnar.“ Undir þetta tók Bertha heils hugar. Í sömu andrá sáu þau grilla í plánetuna framundan, járnríkan massa úr bergi og ryki, og kolsvört eyðikyrrðin allt um kring.