29.11.12

Maðurinn sem gleymdi orðum en mundi rímið

        (Frá 2010.)


Einn góðan veðurdag brotnaði stóllinn hans Guðmundar Óla. Hann hélt þegar út úr húsi sínu til að kaupa lím með það fyrir augum að líma stólinn aftur saman.

Hann gekk fram hjá byggingarsvæði. Í sömu mund féll múrsteinn fram af húsþaki og skall á höfðinu á honum.

Guðmundur Óli lyppaðist niður í jörðina, en reis snarlega á fætur aftur, hristi sig og skók og neri hvirfilinn. Stærðarinnar kúla hafði myndast á kollinum.

Guðmundur Óli strauk yfir kúluna og sagði:

„Ég er Guðmundur Óli, íslenskur ríkisborgari sem hélt út úr húsi sínu til að kaupa… til að kaupa… til að kaupa… til að kaupa… SLÍM. Allt það SLÍM sem…“

Á þessari stundu féll annar múrsteinn fram af húsþakinu og skall á höfðinu á Guðmundi Óla.

Guðmundur Óli nuddaði höfuðið og rakst þar á aðra kúlu.

„Ég er Guðmundur Óli, íslenskur ríkisborgari sem hélt út úr húsi til að… til að… STAUPA… SLÍM. Til að RAUPA RÍM.“

Á þessum tímapunkti féll þriðji múrsteinninn fram af húsþakinu og hafnaði á höfði Guðmundar Óla, með þeim afleiðingum að þriðja kúlan myndaðist.

„Ég, FORSVARI Guðmundur, hélt HRÚT MÚR húsi mínu til TAÐAUPA SLÍM. Til KVAÐ RAUPA RÍM… til STAÐ HLAUPA GRÍMuklæddur A…“

Á þessu andartaki féll fjórði múrsteinninn fram af húsþakinu og beint í höfuðið á Guðmundi Óla.

„Ég er… er… HVER ég BER ég er. Ég fór út úr húsi GIL TAÐ STAUPA SLÍM. SPIL KVAÐRAUPA RÍM… GIL STAÐ HLAUPA GRÍMuklæddur AÐ SÍMaklefa þegar í STAÐ MEGAR SLÝ ég…“

Á þessari stundu skall fimmti múrsteinninn á höfðinu á Guðmundi Óla.

„Ég MER… SÉ MÉR HVER SKER ég ER

SÉ MÉR HVER SKER ég ER hver
            ÞÉR
ER
ÉG STÚR BÚT MÚR BLÚSI
GIL TAÐ STAUPA SLÍM SPIL KVAÐ SPIL RAUPA IL RÍM SPIL SPIL… GIL SPIL STAÐ YL HLAUPA GRÍMuklæddur SPIL AÐ SÍM SPIL í STAÐ SPIL
… KÍM
BLAÐ
í SMAÐ
DREAM!
TIL
SKIL
ÞIL
ÞYL
ÞIL
ÞYL
DREAM!
DYL GRAÐ BAÐ ÍM VIL ÍM KÍM DREAM RAÐ HIL GIL.“

Guðmundur Óli hafði ekki fyrr sleppt orðinu þegar sjötti múrsteinninn féll í höfuðið á honum.