Hann karl faðir minn, Jónki Norlandíus II, benti mér á það í dag tölvuskeytleiðis að nýyrði eitt, sem hann smíðaði einn góðan veðurdag fyrir sjö árum, væri í dag orðið – já, einmitt – sjö ára gamalt.
Þetta er því merkisdagur: l'anniversaire nýyrðisins farsímafitlandi.
Sennilega á þetta orð enn betur við nú í dag en fyrir sjö árum; fatlímafitlið, eða jafnvel farsímafiktið (farsímakáfið er dálítið ósmekklegt; farsímaþukl ennþá verra og farsímagauf fangar ekki ákefð hinna fitlandi) hefur færst enn í aukana – og merking þess dýpkað og dýpkað.
Þetta orð kom fyrst fram á ljóðaplötu sem við gáfum út saman, Glamm, skömmu eftir að risaeðlurnar dóu út. Pater samdi ljóðin, ég tónlistina.
Í dagsins önn
Það hefur höklað á Esjuna,
gömlu, góðu Esjuna.
Tómir strætisvagnar aka sína leið.
Farsímafitlandi fólki á stjáki,
allt í sínum heimi.
Og sólin látrar sig senn.
Ung stúlka reigir sig státin,
horfir glenntum augum til himins,
hárið sítt, hvelfdur barmur.
Framtíð Íslands.
Í úthverfum bíða grunnar eftir húsum
og fólki sem flyst í þau.
Allir sinna sínu,
köttur skýst inn í húsasund,
fisksali hantérar þverskorna ýsu,
og Pétur Jónsson strýkur sér um vangann.