4.11.12

Besta leiðin til að borða kex

Við Herbert lágum yfir myndasögum inni í Griðastað stráka. Við vorum að skrópa í línulegri stærðfræði, eða verklegri efnafræði, eða ljóðrænni eðlisfræði, eða einhverju. Úti hellirigndi.

Ég dró fíkjukex upp úr töskunni minni. „Viltu?“

„Nei, takk. Ég borðaði áðan mjög væna samloku. Veistu hver er besta leiðin til að borða kex?“

Hann fylgdist með mér dreifa mylsnu á tréskúrsgólfið.

„Undir teppi á síðkvöldi með kúgfullt mjólkurglas?“

„Nei,“ sagði hann.

„Víst.“

„Besta leiðin til að borða kex er þessi: Fyrstu þarftu tvo trékofa. Köllum þá trékofa A og trékofa B. Í báðum trékofum ætti að vera dívan, eins og hér. Þetta ætti að vera undir sumarlok eða í haustbyrjun. Þú byrjar á því að fara út og tína allar hundasúrurnar sem þú finnur. Á leiðinni heim kaupirðu líka graslauk og kál og kannski nokkra kirsuberjatómata, og svo hrærirðu þessu saman í salat. Þú tekur lakið af dívaninum í trékofa A og dreifir salatinu yfir dýnuna. Síðan hjólarðu á tvímenningshjóli í mjög skemmtilegt partí, ásamt apanum sem er gæludýrið þitt. Apinn þinn sér til þess að þú hlýtur óskipta athygli allra sætustu stelpnana í partíinu. Þegar þú hefur drukkið aðeins of marga bjóra og ert orðinn ástfanginn af einni þeirra, hvíslarðu í eyra hennar: „Viltu prófa svoldið sem þú hefur aldrei prófað áður?“ Síðan hjólið þið apinn eins hratt og þið komist í trékofa B, þar sem apinn leggur sig, örmagna eftir allt fjörið. Þú hjólar aftur í partíið þar sem stúlkan bíður þín á stigaþrepinu. Fyrir utan trékofa A segir hún: „Ég hef aldrei komið inn í trékofa áður.“ Þá kyssirðu hana og segir: „Ég hef aldrei kynnst neinni eins og þér áður.“ Þú sviptir lakinu af dívaninum og sýnir henni hundasúrusalatið. Þú biður hana að leggjast, eftir að þú hefur afklætt hana mjög varlega, eins og þú sért að fletta hýðinu af viðkvæmum banana. Síðan spyrðu hver sé eftirlætis-dressingin hennar. Þú hellir yfir hana jógúrtsósu og segir síðan: „Ég gleymdi að kaupa kex!“ Þá hjólarðu út í búð eftir kexi og þaðan í trékofa B, þar sem þú og apinn þinn gæðið ykkur á kexinu.“