2.11.12

Stórar og þrýstnar varir

Fyrir allnokkru las ég í enskri þýðingu skáldsöguna Leiða eftir Alberto Moravia, ítalskan höfund sem gerði garðinn frægan á síðustu öld. Mér fannst hún nokkuð góð og las því aðra, Fyrirlitningu, einnig á ensku, og síðan fór ég og gerði eitthvað annað.

Fyrri bókin, sem á ensku ber þann söluvænlega titil Boredom, fjallar um málara sem hundleiðist öll veröldin. Hann setur jafnvel fram nýja þróunarsögu þar sem leiði er drifkrafturinn: Fyrst leiðist Guði svo ferlega að hann skapar heiminn og síðan drepleiðist Adam og Evu svo í aldingarðinum að þau smakka eplið og svo framvegis. Þetta er ágæt bók – og þessi endursögn mín á efni hennar mjög léleg.

Hin sagan, sem í ensku þýðingunni nefnist Contempt, fjallar um ungan rithöfund sem neyðist til að „sóa“ hæfileikum sínum í að skrifa kvikmyndahandrit (í stað þess að skrifa mjög listræn og merkileg leikrit) svo að hann hafi efni á fallegu húsi og ýmsu öðru veraldlegu handa fagurri eiginkonu sinni – sem er síðan ekkert nema vanþakklætið! Okkar maður fær meðal annars það verkefni að skrifa ásamt sérlunduðum Þjóðverja bíóhandrit að Ódysseifskviðu Hómers, fyrir montinn og háværan kvikmyndaframleiðanda, kvennamann. Með tímanum byrjar eiginkona höfundarins unga svo að fyrirlíta mann sinn, sem þó puðar öllum stundum fyrir hana – eða telur sig gera það – og botnar hvorki upp né niður í neinu. Þetta er líka mjög vond endursögn hjá mér, en bókin stendur hins vegar fyrir sínu.

Jean-Luc Godard gerði ágæta bíómynd eftir sögunni með Brigitte Bardot í aðalhlutverki.

Þetta er Brigitte Bardot:



Sennilega ætti ég að láta ljósmynd af henna fylgja hverri einustu bloggfærslu.

Mér fundust áðurnefndar bækur Moravia annars skemmtilega kaldar í krufningu sinni á tilfinningum söguhetjanna. Kaldhamraðar og vísindalegar, en um leið ljóðrænar og á köflum áhrifaríkar. Ég keypti aðra bók eftir Moravia, enn og aftur á ensku, Conjugal Love, nóvellu sem ég hef reyndar ekki enn nennt að lesa.

Hér strýkur Moravia, að því er
virðist, dauðum ketti.

Í kjölfarið á þessum bóklestri mínum ritaði ég föður mínum vel ígrundaðan tölvupóst þar sem ég sagði eitthvað menningarlegt á borð við:

„Mér finnast bækur Alberto Moravia skemmtilegar bækur.“

Þá kom upp úr dúrnum að Thor frændi minn var ekki alveg sammála mér um ágæti verka Ítalans. Thor hafði þá setið með kauða á rithöfundaþingum, meðal annars í Róm, og segir í einu af greinasöfnunum sínum, Hvar er San Marino:

Og þar birtist Moravia einsog skarplegur einmana reiknimeistari, sem stýrir vel skipulagðri vél sem ræður örlögum ótal höfunda og listamanna, haltur maður og dulur. Hann kemur snöggvast í salinn og fer um hann með öryggi hins æfða samkvæmismanns en ég hugsa: Þetta er einmana maður samt.
Þetta ár var rekinn áróður fyrir því að hann fengi Nóbelsverðlaunin.
Mér finnst bækur hans samdar af kaldri reiknilist þótt þær eigi að fjalla um heitar ástríður. Ekki hef ég trú á því að hann fái Nóbelsverðlaunin.
Þar reyndist frændi reyndar sannspár – Moravia fékk aldrei Nóbelsverðlaunin.

En margur góður rithöfundur hefur nú lent í öðru eins, að fá ekki Nóbelsverðlauninn.

Í tölvupóstskeyti setti pabbi Norland fram hugsanlega skýringu á því hversu vegna Thor hugnuðust ekki verk Moravia:

Kannski hafa viðhorf Thors mótast af því að hann sá M. sem voldugan menningarpostula, sem menn búkkuðu sig og beygðu fyrir.*

Hver veit?

Eða kannski fundust Thor bækurnar hans bara einfaldlega leiðinlegar?

Árið 1960 kom út önnur kvikmynd eftir skáldsögu Moravia, La Ciociara. Þar sló Sophia Loren rækilega í gegn. Amma Margrét man eftir að hafa séð þá mynd í bíó. Skáldsaga Moravia kom út á því merkilega ári 1957 – fæðingarári pabba.

Hér er Sophia Loren á góðri stund:



Óhætt er að fullyrða að þokkadísir hafi ekki veigrað sér við að leika í bíómyndunum sem byggðar voru á verkum Moravia. Vonandi er að það hafi reynst honum nokkur sárabót þegar ljóst var orðið að hann fengi sennilega aldrei Nóbelsverðlaunin.

Moravia var annars dálítið umdeildur á sínum tíma, alræmdur jafnvel, og þótti kannski ekki svo ýkja merkilegur pappír. Ég held reyndar að það hafi einkum gilt í hinum enskumælandi heimi. Þar þóttu bækur hans erótískar og kápurnar skörtuðu því oftar en ekki myndum af munúðarfullum konum. Þessi þykir nú reyndar sjálfsagt ekki svo ýkja sjokkerandi á klámöld, en örvaði þó vafalaust ímyndunarafl ungra drengja á sínum tíma:



Þess má svo að lokum geta að í ensku þýðingunum, sem ég las, kemur ekki fyrir ein kvenpersóna sem ekki hefur „full, round lips“.

Google-leit gefur meðal annars þessa niðurstöðu þegar leitað er að „full, round lips“:


* Ég tek fram að þetta er birt án sérstaks leyfis pabba.