23.11.12

Mikið tjáð með nokkrum hljóðum

Ég hef mjög oft heyrt tónlistarmenn lýsa því yfir að með músík megi tjá svo ótal margt sem einfaldlega sé ekki hægt að færa í orð – og ég skil aldrei neitt hvað þeir eru að tala um, hvorki þegar ég hlusta á þá tala um þetta né þegar ég heyri svo tónlistina þeirra.

Hvað ætli drykkjurúturinn Billy Joel
hafi um þetta að segja?

Til dæmis situr dálítið í mér yfirlýsing gítarleikara og aðallagasmiðs hljómsveitarinnar Agent Fresco, um að tónlist geti tjáð „svo miklu fleira en hið ritaða orð“. (Ég heyrði þetta í sjónvarpinu fyrir allnokkru.)

Ég veit ekki til hvers þessi ágæti (og mjög svo hæfileikaríki) tónlistarmaður vísar með orðasambandinu „hið ritaða orð“ – þetta er eitthvað svo hátíðlegt og þrungið slíkum fjálgleika að hann hlýtur að eiga við sjálfa Biblíuna eða skýrslu Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003-2004.

Agent Fresco er reyndar mjög flink og efnileg hljómsveit og ég er ekki viss um að ég gæti skrifað neitt sem vekti sömu stemningu og músíkin þeirra.

Hins vegar veit ég ekki heldur hvaða undirtektir það vekti ef ég bæði vinkonu mína hana Marion um ylvolgan kaffibolla og sneið af randalín á lúður, á eftir þegar ég tylli mér á Le Petit Café – eða hvort ég gæti yfirhöfuð beðið hana um nokkuð að drekka/borða á lúður.

Ég held reyndar að þessi algenga hugmynd – um að segja megi fleira með laglínum og áslætti en orðum – vísi ekki til merkingar, heldur tilfinninga. Með tónlist má vissulega vekja mjög sterkar tilfinningar á mjög skömmum tíma – til dæmis með hressilegum stríðstakti – sem er ástæða þess hversu öflugt og vinsælt þetta listform er. Fólk „elskar“ að „upplifa“ tilfinningar, jafnvel þær sáru og vondu, svo framarlega sem við þurfum ekki að gjalda fyrir það. (Svo framarlega sem Godzilla er að borða einhvern annan.) Og þess vegna held ég að þessi fullyrðing – um að hægt sé að segja fleira með mandólínslætti en fimmliðahætti – rugli saman (merkingarlausum) tilfinningum og (vitsmunalegu) innihaldi.

Myndin tengist efni greinarinnar ekki beint.

Ef Doddi tyllir sér til dæmis við píanóið sitt og spilar Dm – þennan hinn sorglegasta moll allra molltegunda – setur Stína upp skeifu. Það merkir þó ekki annað en að Stína sé tilfinningavera.

Þess vegna held ég reyndar að hægt sé að segja miklu fleira með „hinu ritaða orði“ en „hinni leiknu nótu“. Til dæmis hef ég reynt að spila þetta á munnhörpuna mína frá því í dagrenningu:

„Geislavirk efni glóa í myrkri eftir að ljós hefur skinið á þau og því taldi Henri Becquerel að glóðin, sem myndaðist í bakskautslömpum með röntgengeislun, gæti á einhvern hátt tengst þessu sjálflýsandi fyrirbæri.“
án nokkurs árangurs, og þyki ég nokkuð slunginn á munnhörpu.

Í fréttum er annars það helst að áðan flaug hjá gítar fyrir utan gluggann minn.