29.11.12

Hér er annað lag sem ég kyrjaði fyrir Frakka um daginn:




Textinn er (kannski) enn á vinnslustigi.



STELPAN OG STRÁKURINN


við dönsum á dauðum laufblöðum
drögum ýsur út við sjó
ég gef henni allt sem mér áskotnast
aldrei er það samt nóg

og hún segist ætla að passa mig
hún er góða stelpan
en ég veit það er vonlaust því ég
er vondi strákurinn

við vefjum úr myrkrinu voðir
því við vitum hvað nóttin er köld
og setjist sólin án hennar
er hver sekúnda eins og öld

og ég segist ætla að bjarga henni
ég er góði strákurinn
en hún veit það er vonlaust því hún
er vonda stelpan

og ég á eftir að læra svo margt
en mér endist ekki ævin til að skilja þig
og ég á eftir að missa svo margt
en ég lifi það ekki af ef ég missi þig

við dönsum á dauðum laufblöðum
drögum ýsur út við sjó
ég gef henni allt sem mér áskotnast
ást mína og götótta skó

og hún segist ætla að frelsa mig
hún er glaða stelpan
en ég veit það er vonlaust því ég
er dapri strákurinn

fólk auglýsir sárt eftir einhverjum blíðum
til að elska og hughreysta sig
en horfðu mér fram hjá ég hef ekki orku
til að hughreysta aðra en mig

og ég segist ætla að frelsa hana
ég er glaði strákurinn
en hún veit það er vonlaust því hún
er vonda stelpan

og ég á eftir að læra svo margt
en mér endist ekki ævin til að skilja þig
og ég á eftir að missa svo margt
en ég lifi það ekki af ef ég missi þig