29.11.12

Maðurinn sem gleymdi orðum en mundi rímið

        (Frá 2010.)


Einn góðan veðurdag brotnaði stóllinn hans Guðmundar Óla. Hann hélt þegar út úr húsi sínu til að kaupa lím með það fyrir augum að líma stólinn aftur saman.

Hann gekk fram hjá byggingarsvæði. Í sömu mund féll múrsteinn fram af húsþaki og skall á höfðinu á honum.

Guðmundur Óli lyppaðist niður í jörðina, en reis snarlega á fætur aftur, hristi sig og skók og neri hvirfilinn. Stærðarinnar kúla hafði myndast á kollinum.

Guðmundur Óli strauk yfir kúluna og sagði:

„Ég er Guðmundur Óli, íslenskur ríkisborgari sem hélt út úr húsi sínu til að kaupa… til að kaupa… til að kaupa… til að kaupa… SLÍM. Allt það SLÍM sem…“

Á þessari stundu féll annar múrsteinn fram af húsþakinu og skall á höfðinu á Guðmundi Óla.

Guðmundur Óli nuddaði höfuðið og rakst þar á aðra kúlu.

„Ég er Guðmundur Óli, íslenskur ríkisborgari sem hélt út úr húsi til að… til að… STAUPA… SLÍM. Til að RAUPA RÍM.“

Á þessum tímapunkti féll þriðji múrsteinninn fram af húsþakinu og hafnaði á höfði Guðmundar Óla, með þeim afleiðingum að þriðja kúlan myndaðist.

„Ég, FORSVARI Guðmundur, hélt HRÚT MÚR húsi mínu til TAÐAUPA SLÍM. Til KVAÐ RAUPA RÍM… til STAÐ HLAUPA GRÍMuklæddur A…“

Á þessu andartaki féll fjórði múrsteinninn fram af húsþakinu og beint í höfuðið á Guðmundi Óla.

„Ég er… er… HVER ég BER ég er. Ég fór út úr húsi GIL TAÐ STAUPA SLÍM. SPIL KVAÐRAUPA RÍM… GIL STAÐ HLAUPA GRÍMuklæddur AÐ SÍMaklefa þegar í STAÐ MEGAR SLÝ ég…“

Á þessari stundu skall fimmti múrsteinninn á höfðinu á Guðmundi Óla.

„Ég MER… SÉ MÉR HVER SKER ég ER

SÉ MÉR HVER SKER ég ER hver
            ÞÉR
ER
ÉG STÚR BÚT MÚR BLÚSI
GIL TAÐ STAUPA SLÍM SPIL KVAÐ SPIL RAUPA IL RÍM SPIL SPIL… GIL SPIL STAÐ YL HLAUPA GRÍMuklæddur SPIL AÐ SÍM SPIL í STAÐ SPIL
… KÍM
BLAÐ
í SMAÐ
DREAM!
TIL
SKIL
ÞIL
ÞYL
ÞIL
ÞYL
DREAM!
DYL GRAÐ BAÐ ÍM VIL ÍM KÍM DREAM RAÐ HIL GIL.“

Guðmundur Óli hafði ekki fyrr sleppt orðinu þegar sjötti múrsteinninn féll í höfuðið á honum.
Hér er annað lag sem ég kyrjaði fyrir Frakka um daginn:




Textinn er (kannski) enn á vinnslustigi.



STELPAN OG STRÁKURINN


við dönsum á dauðum laufblöðum
drögum ýsur út við sjó
ég gef henni allt sem mér áskotnast
aldrei er það samt nóg

og hún segist ætla að passa mig
hún er góða stelpan
en ég veit það er vonlaust því ég
er vondi strákurinn

við vefjum úr myrkrinu voðir
því við vitum hvað nóttin er köld
og setjist sólin án hennar
er hver sekúnda eins og öld

og ég segist ætla að bjarga henni
ég er góði strákurinn
en hún veit það er vonlaust því hún
er vonda stelpan

og ég á eftir að læra svo margt
en mér endist ekki ævin til að skilja þig
og ég á eftir að missa svo margt
en ég lifi það ekki af ef ég missi þig

við dönsum á dauðum laufblöðum
drögum ýsur út við sjó
ég gef henni allt sem mér áskotnast
ást mína og götótta skó

og hún segist ætla að frelsa mig
hún er glaða stelpan
en ég veit það er vonlaust því ég
er dapri strákurinn

fólk auglýsir sárt eftir einhverjum blíðum
til að elska og hughreysta sig
en horfðu mér fram hjá ég hef ekki orku
til að hughreysta aðra en mig

og ég segist ætla að frelsa hana
ég er glaði strákurinn
en hún veit það er vonlaust því hún
er vonda stelpan

og ég á eftir að læra svo margt
en mér endist ekki ævin til að skilja þig
og ég á eftir að missa svo margt
en ég lifi það ekki af ef ég missi þig


27.11.12

Monsieur Sverrir Live in Paris

Í gær lék ég nokkur lög við hátíðlega opnunarathöfn nýs hamborgarastaðar hér í Parísarborg.

Meðal laganna sem ég flutti var nýlegt ljóð, segjum bara að það sé fullklárað. Ég komst svona nokkuð klakklaust í gegnum það (a.m.k. eitt mismæli – en ég efast um að það hafi truflað Frakkana mikið):





HAUSTLJÓÐ, PARÍS 2012:


við hvað ertu, hjarta mitt, svona hrætt?
hörfar í felur svo skelkað og raunamætt

ég vil að lífið sé leikur, þjáning og vinna
mig langar að finna til alls þess sem hægt er að finna

en suma daga er skepnan á skjön við mig
mig skortir tengingu við jörðina, sólina og þig

vorum við bara að þykjast, þú og ég, forðum?
þögninni fylgir oft meiri sársauki en orðum

það virkar lítið að vingast við þig og aðra
ef vináttan springur svo bara eins og næfurþunn blaðra

ég kæri mig ekkert um kossa sem brenna og svíða
ég kom ekki hingað til þess að sitja og bíða

        hver vegur burt
er vegur aftur heim
ef ég verð um kjurt
breytist ég í stein
hver vegur út
er vegur aftur inn
og ég vafra og reika
en skil þig samt aldrei
„vinur minn“

við norðurgluggann minn norpa laglausir þrestir
nóttin er dimm en skuggar dagsins þó verstir

það fást engin svör nema forvitnast sé og spurt
einn fagran dag mun ég sigla héðan burt

hver vegur burt
er vegur aftur heim...

25.11.12

Sumir menn



Til minnis

Verðmætasköpun er grundvöllur velferðar.

23.11.12

Stundum finnst mér

Stundum finnst mér að ég ætti að fylgjast betur með fréttum og taka virkari þátt í þjóðfélagsumræðunni.


Síðan fer ég að gera eitthvað annað.

Mikið tjáð með nokkrum hljóðum

Ég hef mjög oft heyrt tónlistarmenn lýsa því yfir að með músík megi tjá svo ótal margt sem einfaldlega sé ekki hægt að færa í orð – og ég skil aldrei neitt hvað þeir eru að tala um, hvorki þegar ég hlusta á þá tala um þetta né þegar ég heyri svo tónlistina þeirra.

Hvað ætli drykkjurúturinn Billy Joel
hafi um þetta að segja?

Til dæmis situr dálítið í mér yfirlýsing gítarleikara og aðallagasmiðs hljómsveitarinnar Agent Fresco, um að tónlist geti tjáð „svo miklu fleira en hið ritaða orð“. (Ég heyrði þetta í sjónvarpinu fyrir allnokkru.)

Ég veit ekki til hvers þessi ágæti (og mjög svo hæfileikaríki) tónlistarmaður vísar með orðasambandinu „hið ritaða orð“ – þetta er eitthvað svo hátíðlegt og þrungið slíkum fjálgleika að hann hlýtur að eiga við sjálfa Biblíuna eða skýrslu Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003-2004.

Agent Fresco er reyndar mjög flink og efnileg hljómsveit og ég er ekki viss um að ég gæti skrifað neitt sem vekti sömu stemningu og músíkin þeirra.

Hins vegar veit ég ekki heldur hvaða undirtektir það vekti ef ég bæði vinkonu mína hana Marion um ylvolgan kaffibolla og sneið af randalín á lúður, á eftir þegar ég tylli mér á Le Petit Café – eða hvort ég gæti yfirhöfuð beðið hana um nokkuð að drekka/borða á lúður.

Ég held reyndar að þessi algenga hugmynd – um að segja megi fleira með laglínum og áslætti en orðum – vísi ekki til merkingar, heldur tilfinninga. Með tónlist má vissulega vekja mjög sterkar tilfinningar á mjög skömmum tíma – til dæmis með hressilegum stríðstakti – sem er ástæða þess hversu öflugt og vinsælt þetta listform er. Fólk „elskar“ að „upplifa“ tilfinningar, jafnvel þær sáru og vondu, svo framarlega sem við þurfum ekki að gjalda fyrir það. (Svo framarlega sem Godzilla er að borða einhvern annan.) Og þess vegna held ég að þessi fullyrðing – um að hægt sé að segja fleira með mandólínslætti en fimmliðahætti – rugli saman (merkingarlausum) tilfinningum og (vitsmunalegu) innihaldi.

Myndin tengist efni greinarinnar ekki beint.

Ef Doddi tyllir sér til dæmis við píanóið sitt og spilar Dm – þennan hinn sorglegasta moll allra molltegunda – setur Stína upp skeifu. Það merkir þó ekki annað en að Stína sé tilfinningavera.

Þess vegna held ég reyndar að hægt sé að segja miklu fleira með „hinu ritaða orði“ en „hinni leiknu nótu“. Til dæmis hef ég reynt að spila þetta á munnhörpuna mína frá því í dagrenningu:

„Geislavirk efni glóa í myrkri eftir að ljós hefur skinið á þau og því taldi Henri Becquerel að glóðin, sem myndaðist í bakskautslömpum með röntgengeislun, gæti á einhvern hátt tengst þessu sjálflýsandi fyrirbæri.“
án nokkurs árangurs, og þyki ég nokkuð slunginn á munnhörpu.

Í fréttum er annars það helst að áðan flaug hjá gítar fyrir utan gluggann minn.

22.11.12

Þættir úr daglegu lífi (12#)

Þegar hann sneri aftur úr vinnunni og opnaði heimili sitt voru allir Facebook-vinir hans þar saman komnir til að segja honum hvað drifið hefði á daga þeirra undanfarið.

Þættir úr daglegu lífi (11#)



20.11.12

Þættir úr daglegu lífi (10#)



Að eiga rétt á harmleiknum

Mig minnir að það hafi verið Milan Kundera sem sagði að nútíminn hefði rænt okkur réttinum til þess að upplifa harm – eða „tilkallinu til harmleiksins“. Eitthvað svoleiðis sagði Milan. Það er hallærislegt að finna til og steypa sér kollskít af gleði og þrá og depurð innan um snúrur og póstmódernísk glott.

William Saroyan er einn af þeim örfáu höfundum sem hafa í áranna rás orðið eins og einn af mínum bestu vinum. Ég hef á tilfinningunni að þessi maður, borinn og barnfæddur í Freskó, San Fransisco, en Armeni að uppruna, hafi einhvern veginn alltaf verið með lífið í lúkunum, allt undir. Hann var óheflaður, tilfinningaríkur, stundum engill, stundum drykkjusvoli, einn daginn var honum mikið hampað, daginn eftir var hann næstum öllum gleymdur. Í dag þykir merkikertum hann hallærislegur og gamaldags, of „sentímentalískur“.

The most solid advice for a writer is this, I think: Try to learn to breathe deeply, really to taste food when you eat, and when you sleep really to sleep. Try as much as possible to be wholly alive with all your might, and when you laugh, laugh like hell. And when you get angry, get good and angry. Try to be alive. You will be dead soon enough.
Ef þetta er „sentimalismi“, þá er ég sekur.

Ég fór að hugsa um Saroyan þegar ég rakst á þessa fínu grein. Verk eftir hann hafa komið út á íslensku; Óskar Árni þýddi nokkrar sögur úr hinni frábæru fyrstu bók hans, The Daring Young Man on the Flying Trapeze, og kallaði safnið Kæra Gréta Garbo, og svo þýddi Gyrðir Elíasson tvær aðrar stórfínar bækur, My Name Is Aram og Madness in the Family, sem Ég heiti Aram og Geðbilun í ættinni. Saroyan skrifaði og gaf út fjöldamargar bækur, mjög misjafnar að gæðum, eins og gengur; ég held að óhætt sé líka að mæla með þekktustu skáldsögunni hans, The Human Comedy. Og ég er viss um að heimurinn væri ekkert síðri staður, og bókmenntirnar myndu skipta meira máli í daglega lífinu (skipta þær einhverju máli í dag?), ef aðeins yrði slakað á kaldhæðninni, skrúfað upp í einlægninni, og menn yrðu ekki feimnir við að hafa tilfinningar eins og Bill gamli.

Svo var hann líka með helvíti flott skegg:


19.11.12

Maðurinn á næsta borði

Maðurinn á næsta borði tók það dálítið óstinnt upp þegar ég byrjaði að teikna hann.



Farsímafitlandi

Hann karl faðir minn, Jónki Norlandíus II, benti mér á það í dag tölvuskeytleiðis að nýyrði eitt, sem hann smíðaði einn góðan veðurdag fyrir sjö árum, væri í dag orðið – já, einmitt – sjö ára gamalt.

Þetta er því merkisdagur: l'anniversaire nýyrðisins farsímafitlandi.

Sennilega á þetta orð enn betur við nú í dag en fyrir sjö árum; fatlímafitlið, eða jafnvel farsímafiktið (farsímakáfið er dálítið ósmekklegt; farsímaþukl ennþá verra og farsímagauf fangar ekki ákefð hinna fitlandi) hefur færst enn í aukana – og merking þess dýpkað og dýpkað.

Þetta orð kom fyrst fram á ljóðaplötu sem við gáfum út saman, Glamm, skömmu eftir að risaeðlurnar dóu út. Pater samdi ljóðin, ég tónlistina.

Í dagsins önn

Það hefur höklað á Esjuna,
gömlu, góðu Esjuna.
Tómir strætisvagnar aka sína leið.
Farsímafitlandi fólki á stjáki,
allt í sínum heimi.
Og sólin látrar sig senn.
Ung stúlka reigir sig státin,
horfir glenntum augum til himins,
hárið sítt, hvelfdur barmur.
Framtíð Íslands.
Í úthverfum bíða grunnar eftir húsum
og fólki sem flyst í þau.
Allir sinna sínu,
köttur skýst inn í húsasund,
fisksali hantérar þverskorna ýsu,
og Pétur Jónsson strýkur sér um vangann.

18.11.12

Þættir úr daglegu lífi (9#)



Þættir úr daglegu lífi (8#): Allir vinir mínir halda á farsímum



Hið heilaga orð

Mikið er ég feginn því að Obama var endurkjörinn.

Það versta við Mitt Romney er hversu leiðinlegur hann virkar. Ríkur mormóni sem hljómar eins og hann hafi ekki dregið frá tjöldin frá gluggunum hjá sér í 70 ár. (En þannig á hann sjálfsagt að hljóma, svo að hann höfði til allra hinna sem hafa í raun og veru ekki dregið frá hjá sér í jafn langan tíma.)

Romney reynir að koma
auga á bandaríska fánann.

Um daginn lenti ég annars á rabbi við stúlku sem lærir með mér frönsku. Hún er fædd í Nígeríu, en hefur undanfarin ár búið í Chicago, og nú er hún komin til Parísar á vegum trúboðshreyfingar.

„Hlutverk mitt á jörðinni er að bjarga fólki,“ sagði hún, „og leiða það inn í guðdóminn.“ (Án gríns.)

Ég þorði ekki að spyrja: En hvað ef fólk vill ekki láta þig bjarga sér? og sagði því: „Já, það er mjög áhugavert.“

Það hafði ekki einu sinni hvarflað að mér að þessi stúlka væri trúuð, enda virkaði hún mjög indæl. En svona er ég nú lélegur mannþekkjari.

Skömmu síðar, þegar ég minntist á það að ég hygðist bráðum (bjartsýnin uppmáluð) lesa alla Biblíuna, sagði þessi vinkona mín: „Já, þú ættir að lesa hana, sko. Það merkilegasta við þá bók er að það er óhugsandi að menn hafi skrifað hana.“

„Hvað áttu við?“

„Bara. Ef þú lest Biblíuna blasir við að það er óhugsandi að menn hafi skrifað hana.“



Fram að þessu hafði ég setið á strák mínum. En þegar stúlkan benti mér á að Biblían væri öðruvísi en allt annað ritað mál, sagði ég hins vegar: „Þú veist að stærstur hluti sagnanna í Biblíunni er tekinn úr eldri goðsögnum og heimildum? Til dæmis sagan um Nóa og örkina, hún kemur líka fyrir í ...“ – hér þurfti ég að hugsa mig mjög lengi um áður en ég mundi loksins nafnið á söguljóðinu – „... Gilgameskviðu!“

Þetta hafði stúlkan raunar ekki hugmynd um. En hún hafði líka lítinn áhuga á þessu og þurfti bráðum að drífa sig.

Annars er góð bók um trúarofstæki Glataðir snillingar eftir færeyska höfundinn William Heinesen, sem hafnaði Nóbelsverðlaununum með þeim rökstuðningi að það myndi taka hann alltof langan tíma að drekka út allt verðlaunaféð.

Heinesen.

15.11.12

Grauturinn

Ég hef lengi haft á bak við eyrað að gerast nærfatafyrirsæta meðfram ritstörfunum, til að eiga fyrir salti í grautinn.

Í dag verður það að veruleika.

„lífið“

hvað táknar þetta litla orð?

eða orðið „heimur“?

„ástin“?

þvílík óskammfeilni að ætla sér að láta nokkur lítil orð
ná yfir heilar veraldir!

þvílík „óskammfeilni“!

„veraldir“

Opinber játning lygalaups

Rétt í þessu kvaðst ég í starfsviðtali hafa „allnokkra reynslu af bakstri“.

Það er ekki satt.

Hjartað í þér fer sínu fram

hjartað í þér fer sínu fram
fræðimenn hafa sannað það og reynt
og það er undir þér einum komið hvort þú hlustar
hvort þú hlustar strax í dag
eða of seint

Veðrið á Íslandi

        (2011, djassað og frjálslegt)

þú ert eins og veðrið á íslandi
óútreiknanleg og köld
að angist minni og eymd og pínu
og ástarbrjálsemi völd

mitt helsta markmið
var hamingja þín
þú hirtir allt
eins og ég væri galopið skartgripaskrín

þú ert eins og veðrið á íslandi
uppistaðan = dyntir + rok
atlot þín voru inngangur lífs míns
og ævinnar sögulok

mitt helsta markmið
var hamingja þín
þú hirtir allt
        eins og ég væri galopið skartgripaskrín

allt sem maður á
er ástin og lífið
og trúin á þetta tvennt
en að varðveita trúna
að varðveita trúna
        er aðeins einfeldningum hent

Á förnum vegi

„Hefurðu einhvern tímann pissað í flösku?“

„Hvers vegna spyrðu?“

„Vegna þess að flestir eru sannfærðir um að þegar maður er í spreng pissi hann heilu lítrunum af pissi, en raunin er sú að það tekur marga daga að fylla eina litla flösku!“

„Þekkjumst við?“

Kaffidrykkja

Alfreð sagði að ástandið í Afríku væri bágt, sem var orð sem hann notaði talsvert mikið, bágt. Bertha sagðist aldrei hafa stigið fæti í aðra heimsálfu en Evrópu og raunar ekki kæra sig neitt um það. Þau ræddu Obama og Bertha sagði að sér þætti „gott“ að forseti Bandaríkjanna væri „svartur“, án þess að útskýra það neitt frekar. Þau voru sammála um að íslenskir stjórnmálamenn væru „ómerkilegur pappír“, en gátu þó komið sér saman um að Davíð Oddsson væri „nú ekkert blávatn“, þótt honum hefði reyndar stundum orðið á í messunni. „En það gengur náttúrlega ekki að alþingismenn stappi bara og þófi dögunum saman án þess að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut!“ sagði Alfreð. Þau hörmuðu bæði hversu fáir íslenskuðu orðið erlendan kveðskap. „Og allt bara úr ensku,“ andvarpaði Bertha. Alfreð þóttist telja að líf manneskju, sem hefði kaffibolla fyrir framan sig, væri einhvern veginn „þýðingarmeira“ en ella, og bætti síðan við: „Já, lífið yrði nú heldur bágt án kaffibaunarinnar.“ Undir þetta tók Bertha heils hugar. Í sömu andrá sáu þau grilla í plánetuna framundan, járnríkan massa úr bergi og ryki, og kolsvört eyðikyrrðin allt um kring.

Morgunkaffið

Yfir morgunkaffinu las hann bráðskemmtilega grein um það hvernig Internetið var að gera mannfólkið allt þrútið og sigið af þunglyndi og depurð og geðveikt. Hann borðaði crêpe með sykri og sítrónu og í greininni var meðal annars fjallað um ungt par sem svelti barnið sitt til dauða á meðan það hlúði að stafrænu barni á Netinu.

14.11.12

Eitthvað miklir perrar

Djöfull voru Forn-Grikkir eitthvað miklir perrar.


Helvíti

Allir eru á táningsaldri.

Og djöfullinn sjálfur er svona 13, 14 ára.


Góða eplakakan

Í kvöld er mér boðið í mat hjá manninum sem gerir góðu eplakökuna.

Ég vona að hann baki góðu eplakökuna.

13.11.12

Lou Reed

Í kvöld stóð til að ég sæi Lou Reed.



Ég sá hann ekki.

6.11.12

Kannski feitu pabbastrákarnir ættu bara að leggja sig (niður)?

Nú byrja feitu pabbastrákarnir enn að færa sig upp á skaftið.

Að þessu sinni vilja þeir til dæmis leggja niður Veðurstofuna. Kannski halda þeir að þá muni veðrið á Íslandi skána aðeins?

Eiginlega vilja þeir samt bara leggja allt niður. Þeir finnst líka ósköp gaman að gera lista. Meðal annars telja þeir upp Vegagerðina, fjárframlög til almenningssamgangna og Ríkisútvarpið (auðvitað), eina fjölmiðlabatterýið á Íslandi sem heldur úti menningarstarfsemi.

Ég hygg að feitu pabbastrákarnir trúi á „einstaklingsframtakið“.

5.11.12

Steypiregn

Mér hafa aldrei fundist kvikmyndirnar um James Bond neitt mjög skemmtilegar, aðallega vegna þess að James Bond er svo hégómafullur.

En ný heyrir til tíðinda: Nýjasta myndin, Skyfall, er langskásta Bond-mynd sem ég hef séð. (Ég hef reyndar ekki séð þær nærri því allar.) Mig minnir reyndar að hið sama hafi gilt um Casino Royale frá 2006 – hún var líka besta Bond-mynd sem ég hef séð. Þetta eru einu Bond-myndirnar þar sem Bond er ekki einhliða, aulalegur sprelligosi sem drepur bófa og serðir konur og hefur engar tilfinningar.

Í Skyfall fellir Bond meira að segja tár.

Að mínu viti er Daniel Craig góður Bond. Hann er alveg fáránlega ljótur, sem veitir karakternum aukna dýpt, og hefur úr betri handritum að moða en forverar hans.

Eyrun á honum ein sér eru næg ástæða til að sjá nýjustu myndina.

Mjög stór poki af súkkulaði

Hér uppi í skáp hjá mér stendur þriggja kílóa poki af dökku súkkulaði.

Á pokanum stendur: „MARIAGE DE GRANDS CRUS. GUANAJA. ASSEMBLAGE EXCLUSIF.“

Þetta er stærsti poki af súkkulaði sem ég hef séð.

Ætti ég að fá mér?

4.11.12

Besta leiðin til að borða kex

Við Herbert lágum yfir myndasögum inni í Griðastað stráka. Við vorum að skrópa í línulegri stærðfræði, eða verklegri efnafræði, eða ljóðrænni eðlisfræði, eða einhverju. Úti hellirigndi.

Ég dró fíkjukex upp úr töskunni minni. „Viltu?“

„Nei, takk. Ég borðaði áðan mjög væna samloku. Veistu hver er besta leiðin til að borða kex?“

Hann fylgdist með mér dreifa mylsnu á tréskúrsgólfið.

„Undir teppi á síðkvöldi með kúgfullt mjólkurglas?“

„Nei,“ sagði hann.

„Víst.“

„Besta leiðin til að borða kex er þessi: Fyrstu þarftu tvo trékofa. Köllum þá trékofa A og trékofa B. Í báðum trékofum ætti að vera dívan, eins og hér. Þetta ætti að vera undir sumarlok eða í haustbyrjun. Þú byrjar á því að fara út og tína allar hundasúrurnar sem þú finnur. Á leiðinni heim kaupirðu líka graslauk og kál og kannski nokkra kirsuberjatómata, og svo hrærirðu þessu saman í salat. Þú tekur lakið af dívaninum í trékofa A og dreifir salatinu yfir dýnuna. Síðan hjólarðu á tvímenningshjóli í mjög skemmtilegt partí, ásamt apanum sem er gæludýrið þitt. Apinn þinn sér til þess að þú hlýtur óskipta athygli allra sætustu stelpnana í partíinu. Þegar þú hefur drukkið aðeins of marga bjóra og ert orðinn ástfanginn af einni þeirra, hvíslarðu í eyra hennar: „Viltu prófa svoldið sem þú hefur aldrei prófað áður?“ Síðan hjólið þið apinn eins hratt og þið komist í trékofa B, þar sem apinn leggur sig, örmagna eftir allt fjörið. Þú hjólar aftur í partíið þar sem stúlkan bíður þín á stigaþrepinu. Fyrir utan trékofa A segir hún: „Ég hef aldrei komið inn í trékofa áður.“ Þá kyssirðu hana og segir: „Ég hef aldrei kynnst neinni eins og þér áður.“ Þú sviptir lakinu af dívaninum og sýnir henni hundasúrusalatið. Þú biður hana að leggjast, eftir að þú hefur afklætt hana mjög varlega, eins og þú sért að fletta hýðinu af viðkvæmum banana. Síðan spyrðu hver sé eftirlætis-dressingin hennar. Þú hellir yfir hana jógúrtsósu og segir síðan: „Ég gleymdi að kaupa kex!“ Þá hjólarðu út í búð eftir kexi og þaðan í trékofa B, þar sem þú og apinn þinn gæðið ykkur á kexinu.“

2.11.12

Misheppnuð bíóferð

Mig dreymdi að ég færi á bíó.

En mér til sárra vonbrigða sneri sætið mitt í salnum öfugt. Ég sá ekki á tjaldið.

Stórar og þrýstnar varir

Fyrir allnokkru las ég í enskri þýðingu skáldsöguna Leiða eftir Alberto Moravia, ítalskan höfund sem gerði garðinn frægan á síðustu öld. Mér fannst hún nokkuð góð og las því aðra, Fyrirlitningu, einnig á ensku, og síðan fór ég og gerði eitthvað annað.

Fyrri bókin, sem á ensku ber þann söluvænlega titil Boredom, fjallar um málara sem hundleiðist öll veröldin. Hann setur jafnvel fram nýja þróunarsögu þar sem leiði er drifkrafturinn: Fyrst leiðist Guði svo ferlega að hann skapar heiminn og síðan drepleiðist Adam og Evu svo í aldingarðinum að þau smakka eplið og svo framvegis. Þetta er ágæt bók – og þessi endursögn mín á efni hennar mjög léleg.

Hin sagan, sem í ensku þýðingunni nefnist Contempt, fjallar um ungan rithöfund sem neyðist til að „sóa“ hæfileikum sínum í að skrifa kvikmyndahandrit (í stað þess að skrifa mjög listræn og merkileg leikrit) svo að hann hafi efni á fallegu húsi og ýmsu öðru veraldlegu handa fagurri eiginkonu sinni – sem er síðan ekkert nema vanþakklætið! Okkar maður fær meðal annars það verkefni að skrifa ásamt sérlunduðum Þjóðverja bíóhandrit að Ódysseifskviðu Hómers, fyrir montinn og háværan kvikmyndaframleiðanda, kvennamann. Með tímanum byrjar eiginkona höfundarins unga svo að fyrirlíta mann sinn, sem þó puðar öllum stundum fyrir hana – eða telur sig gera það – og botnar hvorki upp né niður í neinu. Þetta er líka mjög vond endursögn hjá mér, en bókin stendur hins vegar fyrir sínu.

Jean-Luc Godard gerði ágæta bíómynd eftir sögunni með Brigitte Bardot í aðalhlutverki.

Þetta er Brigitte Bardot:



Sennilega ætti ég að láta ljósmynd af henna fylgja hverri einustu bloggfærslu.

Mér fundust áðurnefndar bækur Moravia annars skemmtilega kaldar í krufningu sinni á tilfinningum söguhetjanna. Kaldhamraðar og vísindalegar, en um leið ljóðrænar og á köflum áhrifaríkar. Ég keypti aðra bók eftir Moravia, enn og aftur á ensku, Conjugal Love, nóvellu sem ég hef reyndar ekki enn nennt að lesa.

Hér strýkur Moravia, að því er
virðist, dauðum ketti.

Í kjölfarið á þessum bóklestri mínum ritaði ég föður mínum vel ígrundaðan tölvupóst þar sem ég sagði eitthvað menningarlegt á borð við:

„Mér finnast bækur Alberto Moravia skemmtilegar bækur.“

Þá kom upp úr dúrnum að Thor frændi minn var ekki alveg sammála mér um ágæti verka Ítalans. Thor hafði þá setið með kauða á rithöfundaþingum, meðal annars í Róm, og segir í einu af greinasöfnunum sínum, Hvar er San Marino:

Og þar birtist Moravia einsog skarplegur einmana reiknimeistari, sem stýrir vel skipulagðri vél sem ræður örlögum ótal höfunda og listamanna, haltur maður og dulur. Hann kemur snöggvast í salinn og fer um hann með öryggi hins æfða samkvæmismanns en ég hugsa: Þetta er einmana maður samt.
Þetta ár var rekinn áróður fyrir því að hann fengi Nóbelsverðlaunin.
Mér finnst bækur hans samdar af kaldri reiknilist þótt þær eigi að fjalla um heitar ástríður. Ekki hef ég trú á því að hann fái Nóbelsverðlaunin.
Þar reyndist frændi reyndar sannspár – Moravia fékk aldrei Nóbelsverðlaunin.

En margur góður rithöfundur hefur nú lent í öðru eins, að fá ekki Nóbelsverðlauninn.

Í tölvupóstskeyti setti pabbi Norland fram hugsanlega skýringu á því hversu vegna Thor hugnuðust ekki verk Moravia:

Kannski hafa viðhorf Thors mótast af því að hann sá M. sem voldugan menningarpostula, sem menn búkkuðu sig og beygðu fyrir.*

Hver veit?

Eða kannski fundust Thor bækurnar hans bara einfaldlega leiðinlegar?

Árið 1960 kom út önnur kvikmynd eftir skáldsögu Moravia, La Ciociara. Þar sló Sophia Loren rækilega í gegn. Amma Margrét man eftir að hafa séð þá mynd í bíó. Skáldsaga Moravia kom út á því merkilega ári 1957 – fæðingarári pabba.

Hér er Sophia Loren á góðri stund:



Óhætt er að fullyrða að þokkadísir hafi ekki veigrað sér við að leika í bíómyndunum sem byggðar voru á verkum Moravia. Vonandi er að það hafi reynst honum nokkur sárabót þegar ljóst var orðið að hann fengi sennilega aldrei Nóbelsverðlaunin.

Moravia var annars dálítið umdeildur á sínum tíma, alræmdur jafnvel, og þótti kannski ekki svo ýkja merkilegur pappír. Ég held reyndar að það hafi einkum gilt í hinum enskumælandi heimi. Þar þóttu bækur hans erótískar og kápurnar skörtuðu því oftar en ekki myndum af munúðarfullum konum. Þessi þykir nú reyndar sjálfsagt ekki svo ýkja sjokkerandi á klámöld, en örvaði þó vafalaust ímyndunarafl ungra drengja á sínum tíma:



Þess má svo að lokum geta að í ensku þýðingunum, sem ég las, kemur ekki fyrir ein kvenpersóna sem ekki hefur „full, round lips“.

Google-leit gefur meðal annars þessa niðurstöðu þegar leitað er að „full, round lips“:


* Ég tek fram að þetta er birt án sérstaks leyfis pabba.

Svíþjóð

Útlendingar halda mjög oft að ég heiti Svíþjóð.


1.11.12

Arnold og Nicholas

Þetta hér er alveg ótrúlega skrítið.

Þó varla eins skrítið og þetta hér.

Ertu með meistaraverk í höfðinu þínu?

Þá er þetta tækifæri sem þú ættir ekki að láta fram hjá þér fara.