30.9.12

Alsælar, drukknandi mýs

Stundum er lífið ekki spurning um annað en samloku, kaffibolla, epli eða peru, svo að þegar kunningi minn, þá nýfluttur til Lundúna, bauð mér í kvöldverð og drykk, tók ég boðinu fagnandi, enda þótt ég þekkti hann svo gott sem ekkert og haldi ævinlega uggandi á vit hins ókunna, að fenginni reynslu. En mér skildist á öðrum, og dró jafnframt sömu ályktun af takmörkuðum kynnum mínum við hann, að Þorsteinn Úlfarsson væri gæðablóð. Í tölvupósti sem hann sendi mér samdægurs kom ekki annað fram en að hann væri nýfluttur inn í íbúðina og langaði af því tilefni til að efna til kvöldverðarveislu. Ekki orð um það hvort fleiri byggju þarna með honum eða yrðu einnig viðriðnir átið. „Fordrykkur klukkan 19:00!“ skrifaði hann, af óþægilegri nákvæmni (19:00). Af póstinum mátti eiginlega helst draga þá ályktun að hann væri að bjóða mér á stefnumót.

O, jæja, hugsaði ég. Frí máltíð er frí máltíð...

Ég lagði á mig dágott ferðalag, bæði ofan- og neðanjarðar, frá Camdenbæ og að Kingslandvegi 296, rétt hjá Hackney-hverfinu. Á leiðinni týndi ég treflinum mínum. Samkvæmur sjálfum mér náði ég ekki á ákvörðunarstað fyrr en klukkan 20:37, eða rúmum einum og hálfum klukkutíma of seint. Það hvarflaði að mér að skjótast inn í kjörbúð eftir ódýrasta vínglundrinu sem þar stæði til boða, en ákvað að slíkra erinda mætti skjótast síðar ef þörf krefðist, og stóð því brátt fyrir utan Kingslandsveg 296 (sem virtist að hruni kominn), norpandi, vansæll og trefilslaus.

Hurðinni var hrundið upp af fítónskrafti og Þorsteinn kippti mér inn eins og langþráðri póstsendingu. Ég hafði gleymt því hversu langur hann var. Hann var langleitur með langt, liðað hár, langt krákunef og ótrúlega langa fingur, sem hlupu upp og niður bakið á mér þegar hann kreisti mig og kjassaði, eins og við værum gamlir kumpánar úr einhverju þessara stríða sem menn eru alltaf að heyja og hefðum ekki séð hvor annan í háa herrans tíð, báðir komnir með sældarlega bumbu, drykkfellda konu, börn, skuldir, hús, skjaldböku og kött. Augun, mjög löng, hvikuðu hingað og þangað, mjög órólega, eins og í leit að einhverju dýrlegu kraftaverki tilverunnar sem orðið gæti hvar sem er og hvenær sem er og maður þyrfti stöðugt að vera á varðbergi til að missa ekki af því.

„Monsieur Sverrir! Gott að fá þig!“

Hann brosti breitt út að sínum löngu eyrum og það var mjög þröngt þarna í anddyrinu, við vöfðumst hvor um annan eins og amöbur. Hann danglaði kumpánlega í aðra öxlina á mér, alltof fast, og skipaði mér að vaða inn, „helst á skítugum skónum!“, sem hefði ekki verið mikið vandamál fyrir mig, en ég sparkaði þeim nú samt af mér, henti jakkanum á stól og ætlaði að losa um trefilinn, áttaði mig samstundis á því að ég hafði týnt honum og varð mjög hryggur, sem var sálarástand mér ekki alveg ókunnugt. Mér til stórs léttis reyndist ég ekki eini kvöldverðargesturinn. Á stofugólfinu sat á stórri, hippalegri mottu ung stúlka, Alison frá Wales, sem Þorsteinn kynnti fyrir mér sem kærustuna sína (síðar um kvöldið myndi hann hvísla því að mér taugaóstyrkri, titrandi röddu að hann hefði „pikkað hana upp í Reykjavík síðasta sumar“, á skemmtistaðunum Bakkusi, blikka mig síðan og glotta skakkt). Hún vann við að gera þöglar heimildarmyndir og var með ljóst, litað hár.

„Hæ!“ sagði hún og kyssti mig ótrúlega blautum kossi, fyrst á hægri kinn, síðan á vinstri.

Á mottunni sátu einnig tveir ungir menn. Annar hét Robert Fraser, kanadískur strákur sem vann líka við kvikmyndagerð, einkum stutt- og heimildarmyndir, og ætlaði aftur heim til Kanada á næsta ári (þessi saga gerðist og var skrifuð í desember, 2010) til að hefja nám í kvikmyndaskóla í Vancouver og gera áróðursmynd gegn hvalveiðum. Hann var með blíðustu rödd sem ég hafði heyrt. Og hann hlustaði ákaft á allt sem aðrir sögðu. Hlutverk hans í lífinu var fyrst og síðast að leggja til eyru svo aðrir gætu létt á hjartanu. Ég kunni strax vel við hann. Hinn náunginn, Pete, var músíkant og pródúser. Hann spilaði með hljómsveitinni Temmg og var nýkominn heim úr tónleikaferð um Frakkland og Bandaríkin. Hann var með þykka, dökka skeggrót, úfið hár sem var aðeins tekið að þynnast og hipsteralega bjórvömb, greinilega maður sem fór víða og kunni að njóta lífsins lystisemda: víns, eiturlyfja, ferðalaga. Upp úr dúrnum kom að hann hugðist fljúga morguninn eftir til Íslands að hitta þar stúlku nokkra, Unnfríði að nafni, sem hann hafði kynnst fjórum árum fyrr í kajaksiglingu niður Amasonfljótið. Þau höfðu mælt sér mót í Reykjavík og hugðust halda þaðan til Húsavíkur í hús foreldra hennar.*

„Heldurðu að við sjáum norðurljósin ekki pottþétt þarna úti í rassgati?“

„Alveg pottþétt,“ sagði ég.

Þegar hann talaði um þessa Unnfríði lyftist hann upp af gólfinu. Augun ljómuðu eins og tvær stórar ljósaperur. Hann sagði að íslenskar stelpur væru með þann mest „sexí“ enska hreim sem hann hefði heyrt.

„Ólíkt ykkur strákunum. Ykkar hreimur er alls ekkert sexí.“

Þorsteinn barmafyllti glösin af kampavíni. „Ekkert droll! Við erum með níu flöskur og langt á eftir áætlun!“

Við sátum fimm á mottunni í búddastellingu og spjölluðum um það sem ungt fólk spjallar um á meðan það drekkur vín á gólfmottum í búddastellingu. Mér hefur aldrei þótt kampavín gott og því drakk ég tvöfalt hraðar en venjulega. Þorsteinn fyllti á glasið hjá mér eftir hvern sopa. Ég sá fram á örlagaríkt kvöld.

„Ef þú kemur auga á mús læturðu mig vita,“ sagði Þorsteinn.

„Þær eru algjör plága!“ Alison tók vænan, dapurlegan sopa af kampavíninu. „Mér var sagt að mannúðlegast – dýrúðlegast – væri að drekkja þeim.“

„Svo að ég drekki þeim,“ bætti hún við og hikstaði.

„Það er hræðilegt!“ Ég gat ekki hugsað mér verri dauðdaga en að drukkna, nema þá kannski ef stærðarinnar risi sliti mig í sundur.

„Jamm, kannski er það ómannúðlegt – ódýrúðlegt,“ sagði Þorsteinn. „Ég lem þær yfirleitt bara í köku.“

„Einu sinni kom hann heim blóðugur á höndunum,“ sagði Alison stolt. „Við mætum þeim oft frammi á ganginum.“

„Það er líka hálfgerð illska að drepa þær ekki,“ skaut Þorsteinn inn, þungbrýnn. „Því að þá er maður í rauninni að segja: Ekki mitt vandamál, ég læt nágrannann bara sitja uppi með þetta. Nei, það verður að drepa þær!“

„Af hverju segirðu að betra sé að drekkja þeim?“ spurði Robert Fraser, áhyggjufullur.

„Því fylgir sælutilfinning að drukkna,“ sagði Alison. „Ég hélt að það vissu nú allir. Líkaminn dælir endorfíni um allan kroppinn.“

„Sumir eru háðir því að drekkja sér,“ sagði Þorsteinn.

„Þeim finnst það æðislegt,“ sagði Alison.

Robert Fraser kunni augsýnilega ekki að meta þessar hugleiðingar og breytti því um umræðuefni: „Er einhver rökrétt ástæða fyrir því að Christian Slater er ekki vinsæll lengur?“ spurði hann, feimnislega.

Við héldum áfram að vinna á kampavíninu og ræddum um hrap Christians Slater af stjörnuhimninum og ég hugsaði um mýsnar. Ég vorkenndi þeim. Á einhverjum tímapunkti varð mér litið framan í Alison (sem var að ræða við Robert Fraser um ljóðrænar heimildarmyndir sem fjölluðu um – heyrðist mér – sokka) og fannst hún raunar ekki svo ólík mús. Hún var með dálítið útskagandi framtennur og skaut höfðinu reglulega fram á meðan hún talaði. (Nei, þau voru að ræða ljóðrænar heimildarmyndir um – ekki sokka – heldur Ingvar Kamprad, stofnanda IKEA.) Ég sá fyrir mér litlar mýs í vatnsfylltum bala, svamlandi fyrir lífi sínu. Úr plötuspilaranum flæddi rispuð Dixieland-tónlist.

Pete reyndist vera einn af þessum tónlistarmönnum sem vita allt um snúrur. Hann rak ásamt lesbíupari stúdíó á Gamlastræti. Þegar ég sagði honum að ég semdi lög og texta lyftist hann upp af gólfinu. 

„Þá verðurðu að koma einhvern tímann við og taka upp lag eða tvö. Söngur á íslensku er það fallegasta sem ég veit. Mjög sexí.“

„Já, ég er kannski ekki alveg þannig söngvari,“ sagði ég. „Ég get eiginlega bara sungið eina nótu.“

„Hvaða nótu?“

„F#.“

„Ókei. Ég hef aldrei heyrt F# sungna á íslensku.“

„Þá er ég þinn maður.“

Við borðuðum sojabollur með heimagerði karrýsósu og spaghettí í súrsætri sósu með sojabollum.

„Ég gæti aldrei hugsað mér að borða dýr,“ sagði Alison.

„Ekki ég heldur,“ sagði Þorsteinn.

Ég sá þau fyrir mér berja litlar mýs til dauða, útbíuð í engifertægjum, grískri jógúrt og quinoa, og tók eftir því að ég borðaði þrisvar sinnum hraðar en Robert Fraser. Hann sat við hlið mér og tuggði hvern bita af natni. Hann gerði ekki upp á milli munnbita, heldur tuggði þá alla jafn hratt, jafn oft, jafn ástúðlega.

„Trúir fólk almennt á álfa á Íslandi?“ spurði hann, dreyminn.

„Kannski í sveitinni,“ sagði ég. „Ég veit ekki hvernig þetta er í sveitinni.“

Þegar kampavínsflöskurnar kláruðust opnuðum við hvítvínsflösku. Þegar hvítvínsflaskan kláraðist opnuðum við rauðvínsflösku og þegar rauðvínsflaskan kláraðist opnuðum við ginflösku og þegar ginflaskan kláraðist sagði Þorsteinn: „Nú þurfum að fara út í búð að kaupa rommflösku!“

„Ég kem með þér,“ sagði ég.

Við hlupum út í Tesco á horninu. Kuldinn streymdi niður hálsmálið á mér eins og eins og ísköld vatnsbuna.

Þorsteinn trúði mér fyrir því að hann væri að skrifa bók. „Ég er næstum búinn með fjórðung. Þá ætla ég að senda bókina á útgáfufyrirtækið heima og biðja þá um að gefa mér peninga til að klára hana.“

„Jahá. Finnst þér það ekki skelfileg bölvun að þurfa stöðugt að skrifa?“

„Nei, mér finnst það æðislegt.“

„Ég hata flest sem ég skrifa.“

„Ég elska ALLT sem ég skrifa.“

Inni í Tesco kippti ég ódýrri flösku af Beaujolais úr hillunni. Við búðardiskinn bað Þorsteinn um þrjár Jack Daniels-flöskur til viðbótar. Hann fálmaði iðandi eftir aurum í vösum frakka síns, sem flaksaðist í kringum hann eins og skikkja, en hendurnar stungumst beint í gegnum götótta vasana.

Þar fór fría máltíðin, hugsaði ég.

Þegar við snerum aftur inn hafði Alison sofnað áfengisdauða á gólfmottunni.

Þorsteinn var orðinn svo fullur að ekkert sem hann sagði væri hægt að rita án upphrópunarmerkis. „Ég sit í herberginu mínu allan daginn og skrifa! Ég hitti aldrei neinn! Förum út á eftir og GERUM eitthvað! Hey, Pete, tökum kókaín!“

„Ef þú átt kókaín skal ég taka kókaín,“ sagði Pete. „Annars þarf ég að vakna snemma í fyrramálið.“

„Ég á ekki kókaín! En ég á klaka!“

Pete stóð upp til að ná í klaka fyrir rommið. Á meðan rogaðist Þorsteinn með Alison, víndauða og hrjótandi, á herðunum niður stigann að rúminu þeirra, eins og kartöflupoka. Um leið og hann sendi frá sér yfirlýsinguna: „Ég ber hana bara niður!“ skriplaði honum fótur á skítugum sokk í fjórða þrepi og steyptist niður brattann, með kærustuna sína skoppandi á bakinu, enn sofandi.

Þegar hér var komið sögu óskaði ég þess af öllu hjarta að ég væri með minnisbókina mína. Ég geng alltaf með minnisbók. Á morgnana klæði ég mig í nærbuxurnar og tek síðan upp minnisbókina. En þetta kvöld var ég minnisbókarlaus og hafði týnt treflinum mínum.

„Við erum ókei!“ heyrðist kallað af neðri hæðinni! „Engar áhyggjur, vinir! Við erum ókei!“

Pete hafði kveikt sér í jónu. Hann skenkti öllum romm, líka Alison, þótt hún virkaði ekki líkleg til stórræða, hrjótandi á neðri hæðinni. Ég heyrði músaþrusk inni í veggjunum.

Þorsteinn brölti upp stigann, vankaður.

„Ha, ha, ha,“ sagði hann. „Nú er partí!“

Við drukkum rommið og töluðum um þögnina sem listrænt hugtak, umræðuefni sem Robert Fraser hafði bryddað upp á, mjög feimnislega.

Eftir hálftíma sagði Pete: „Jæja, ég vil ekki missa af fluginu í fyrramálið,“ og bjóst til brottfarar. Þegar hann faðmaði mig strukust skeggbroddarnir við hálsakotið á mér og ég flissaði eins og japönsk skólastelpa.

„Þá erum það bara við þrír! Gengið!“ sagði Þorsteinn þegar Pete var farinn á vit íslensku ástarinnar. „Nú málum við bæinn rauðan!“

Ég og Robert Fraser reyndum að koma honum í skilning um að eftir miðnætti á miðvikudagskvöldi væru allir pöbbar lokaðir.

„Verið ekki svona svartsýnir! Ég sit í herberginu mínu allan daginn og geri aldrei neitt! Við erum á leiðinni ÚT!“

Hann hrinti okkur í átt að útidyrunum, með sínum löngu handleggjum.

„Bíðið á meðan ég næ í peninga!“

Hann hrúgaði 20 punda-seðlum í götótta frakkavasana.

„Væri ekki nær að þú stingir þessu frekar í buxnavasana?“ spurði Robert Fraser, mjög kurteislega.

Við ráfuðum lengi um nágrennið, en játuðum okkur loks sigraða og tókum stefnuna aftur heim, loppnir af kulda.

Við gengum aftur upp Kingsland Road, sem var óralöng gata og teygðist nú út í hið óendanlega. Mér var svo kalt á hálsinum að ég gat ekki hugsað um neitt annað en týnda trefilinn minn.

Lundúnir litu út eins og uppvakningar hefðu gert þar innrás og annaðhvort hrakið burt íbúana eða drukkið úr þeim heilann.

Þorsteinn pírði augun tryllingslega í allar áttir. „Hey, þarna inni logar ljós! Ég heyri raddir! Fólk er að halda partí!“

„Þetta er ung móðir að vagga barninu sínu í svefn,“ hvíslaði Robert Fraser.

Skömmu síðar gekk á móti okkur langur og mjór blökkumaður. Hann var klæddur í óásjálegan hermannajakka og dró annan fótinn þegar hann gekk. Þegar hann kom auga á okkur hýrnaði yfir honum.

„Hey, strákar! Hæ, hæ! Viljið þið kaupa af mér alsælu?“

Ég og Robert Fraser hristum höfuðið. Við héldum áfram að ganga. Eftir tíu, fimmtán skref rann upp fyrir okkur að Þorsteinn var ekki lengur við hliðina á okkur. Við litum um öxl og sáum að hann stóð á spjalli við slánann. Síðan glennti hann upp munninn og ullaði. Sláninn lagði pillu á hina löngu tungu Þorsteins. Þorsteinn kyngdi.

„Vinur! Þú færð þessa prufu frítt,“ sagði blökkumaðurinn. „Og tvær í viðbót á tíu pund!“

Þorsteinn lét hann fá tuttugu punda-seðil.

„Ég á ekki tíu-punda seðil til að gefa til baka,“ sagði dópsalinn. „En ég læt þig þá bara fá fjórar pillur í staðinn!“

Hann rétti Þorsteini fjórar pillur.

„Nei, ég vil bara tvær. Láttu mig fá tíu pund til baka.“

„Félagi! Ég á ekki tíu punda-seðil!“

„Þú skuldar mér tíu pund.“

„Ég get ekki gefið þér til baka, félagi! En heyrðu! Ég læt þig bara fá tíu pund næst þegar við hittumst! Ég er alltaf hér á ferðinni, félagi! Engar áhyggjur, félagi! Og þú mátt samt fá fjórar pillur núna.“

„Nei, ég vil fá tíu punda-seðil til baka. Núna.“

Þeir stóðu nú svo þétt hvor upp við annan að nefbroddarnir snertust. Þorsteinn hallaði sér aftur og stangaði slánann, sem stangaði á móti. Þeir æptu báðir af sársauka. Síðan féllu þeir í götuna og veltust þar um í sorglegum glímubrögðum. Ég og Robert Fraser hlupum til þeirra og veltum slánanum klaufalega af Þorsteini.

Sláninn tók höltrandi á rás út í nóttina.

„Fávitar!“ kallaði hann. „Helvítis geðsjúku fávitar!“

Þorsteinn brölti á fætur og ráfaði fram og aftur um gangstéttina, viti sínu fjær af geðshræringu. „Andskotinn,“ sagði hann. „Helvítis fífl! Hann tók peningana mína. Og hann lét mig gleypa pilluna!“

Hann þuldi þetta í sífellu: „Hann lét mig gleypa pilluna! Hann lét mig gleypa pilluna!“

„Hvað varstu að spá?“

„Hann lét mig gleypa pilluna!“

Hann ráfaði inn í skuggalegt húsasund. Þar stakk hann löngum fingri sínum niður í kokið, langt og þrútið, og kúgaðist. „Hann lét mig gleypa pilluna!“ umlaði hann á milli þess sem hann seldi upp. Robert Fraser stumraði yfir honum og klappaði honum á bakið, af móðurlegri umhyggju. Brátt streymdu matarleifar og vín í óslitinni bunu á stéttina.

„Svona, já,“ sagði Robert Fraser. „Láttu þetta gossa. Svona, já. Einmitt svona. Já. Svona.“

Við náðum að drösla gestgjafa okkar aftur að inngangi íbúðarinnar. Á dyraþrepunum missti hann lykilinn að minnsta kosti tíu sinnum áður en Robert Fraser tók að sér að opna dyrnar.

Þorsteinn valt inn um anddyrið, hnaut um körfubolta og steyptist kollskít inn á mitt stofugólfið. Þar stóð hann samstundis upp og sagði: „Hann lét mig gleypa pilluna!“ Síðan rak hann sig í hvert einasta glas á gólfinu.

Við Robert Fraser fylgdum honum niður stigann.

„Ég er farinn að sofa,“ tilkynnti hann þegar við stigum inn í svefnherbergið.

Hann klæddi sig úr öllum fötunum.

„Góða nótt.“

„Ehm. Góða nótt.“

Hann lompaðist á rúmið og lá þar nakinn ofan á Alison, sem hvíldi stjörf undir sænginni. Rassinn á Þorsteini var mjög hvítur í ljósastaurabirtunni sem lýsti inn um gluggann.

„Ég held ég fari líka að sofa,“ sagði Robert Fraser.

„Ég líka.“

Við sátum andartak þöglir hlið við hlið á gestadýnunni. Svo – eins og eftir handriti – byrjuðum við báðir að hlæja.

Ég lagðist á dýnuna. Robert Fraser fylgdi fordæmi mínu, lagðist andfætis við mig. Ég leit til vinstri, á tærnar á honum. Þær krepptust, svo slaknaði á þeim, ég heyrði hrotur.

Handan við fæturna, inn af baðherberginu, barst tíst. Ég pírði augun og leit undir vaskinn, sá þar litla, óttaslegna mús skima í kringum sig. Vatnsdropar drupu úr krananum niður í vaskinn og mynduðu reglubundinn takt. Andartak horfðist ég í augu við músina. Fyrir ofan hana hélt vatnið áfram að dropa í vaskinn. Robert Fraser hraut eins og sögunarmylla og ég leit aftur til hægri á rassinn á Þorsteini sem var orðinn enn hvítari í ljósastaurabirtunni og mér fannst ég næstum heyra hjarta þessa litla, skelkaða nagdýrs vinstra megin við mig slá í takt við driplið og ég lokaði augunum og sá aftur fyrir mér mýs sem svömluðu fyrir lífi sínu í bala fullum af vatni. Ég hugsaði um sælutilfinninguna sem fylgir því að drukkna, fann áfengið svífa aftur á líkamann, og þegar ég opnaði augun var músin horfin.



* Ég komst síðar að því að Unnfríður er frænka gamals vinar míns, Herberts Á. Óskarssonar, blaðamanns. Eftir því sem ég best veit er Pete enn á Íslandi.

Mitt fólk

Íslendingar geta – rétt eins og fólk af öðru þjóðerni – verið ákaflega forpokaðir og smásálarlegir.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV, gerist til dæmis sekur um algenga og frekar þreytandi rökvillu í nýlegum skrifum sínum. (Færslan heitir „Að fyrirlíta Íslendinga“.)

Jónas fer ekki fögrum orðum um íslenska stjórnsýslu (skiljanlega). Eins talar hann illa um samlanda sína. Hann segir meðal annars:

„Kjósendur blessa svínaríið með því að haga sér eins og fífl. Maður fer að skammast sín fyrir að vera Íslendingur og endar með að fyrirlíta þjóðina, sem leyfir svínaríið.“

Mér þykir auðvitað, eins og öðrum sem lesa þetta brot, fallegra að rita „[k]jósendur [...] hegða sér eins og fífl“, en það er önnur saga (og hvorttveggja auðvitað ókei).

Það sem ég hegg fyrst og síðast eftir er hversu barnaleg fullyrðingin er.

Ef við tökum orð Jónasar enn frekar úr samhengi og skoðum einungis fyrri málsgreinina – „Kjósendur blessa svínaríið með því að [hegða] sér eins og fífl“ – vakna ýmsar spurningar. Hvaða kjósendur eru það nákvæmlega sem hegða sér eins og fífl? Allir kjósendur, geri ég ráð fyrir. Og hvað felst þá í því að hegða sér eins og fífl? Svína fyrir aðra á rauðu ljósi og segja kærustunni sinni upp með sms-i, meðal annars.

Síðari hlutinn – „Maður fer að skammast sín fyrir að vera Íslendingur og endar með að fyrirlíta þjóðina, sem leyfir svínaríið“ – vekur enn fleiri álitamál í annars hægvirku höfði mínu.

Við getum byrjað á að gera ráð fyrir því að nafnorðið „maður“ vísi hér til Jónasar.

Jónas er því þessi „maður“ sem skammast sín.

Þá fæðist næsta spurning:

Hvað telur Jónas að felist í því að vera Íslendingur?

Í fyrri hluta færslunnar gefur hann vísbendingu:

„Hvar, sem ég lít, vellur spilling, græðgi og heimska. [Þið takið eftir því að Jónas virðist ferðast um land sitt sem e.k. alsjáandi, réttsýnt auga.] Embættismenn, staðnir að heimsku og spillingu, rotta siga saman um lögbann og kærur til lögreglu. Slitastjórnarmenn fara hamförum í græðgi. Gömlu útrásarbófarnir sem komu þýfinu til aflandseyja eru komnir aftur með hjálp Seðlabankans. [Ég þekki nokkra stráka sem vinna í Seðlabankanum.] Kvótagreifar stjórna Morgunblaðinu [Morgunblaðið – kemur það enn út?] og Sjálfstæðisflokknum til óhæfuverka. Verkfræðingar og vísindamenn [allir verkfræðingar og vísindamenn] komast ætíð [NB: ætíð.] að niðurstöðum, sem henta bófum.“

Af þessari klausu má ráða að dæmigerður Íslendingur er – í huga Jónasar – spilltur embættis- eða slitastjórnarmaður, gamall útrásarbófi, kvótagreifi, verkfræðingur eða vísindamaður.

Auk þess kjósandi og fífl, auðvitað.

Þetta þurfum við að skoða betur.

Ég þekki nokkra kjósendur.

En þekki ég fífl?

Sárafá, ef nokkur. Mín reynsla styður frekar þá kenningu að fólk sé almennt ágætt inn við beinið (þótt það hegði sér kannski stundum eins og fífl, auðvitað).

Verkfræðinga og vísindamenn þekki ég nokkra, en ekki veit ég hvaða „niðurstöður“ það eru sem þeir komast – NB: allir, ætíð – að, bófum til heilla. En þetta getur Jónas sjálfsagt útskýrt.

Þá eru eftir þrír hópar (ef ég x-a í svigann merkir það að ég þekki fólk úr eftirfarandi hópum, annars ekki):

Slitastjórnarmenn        (  )
Gamlir útrásarbófar     (  )
Kvótagreifar                (  )

Af þessu fæ ég ekki annað ráðið en að Jónas leggi allt aðra merkingu í hvað felist í því að vera Íslendingur en ég.

Yfirlýsingar hans hljóma líka dálítið eins og hann hafi aldrei stigið út fyrir landsteinanna. Heldur einhver, í raun, að spillta stjórnmála- og valdamenn sé einungis að finna á Íslandi? Ef hann ætlar að miða álit sitt á mannkyninu við framferði valdafólks ætti hann að færa út kvíarnar og ekki láta við það sitja að fyrirlíta Íslendinga, heldur hata allt mannkynið.

Ég held reyndar að stærsta ástæða íslensks embættismannaklúðurs sé ekki illska, spilling eða græðgi, heldur ónóg þekking, almennur bjánaskapur og vanhæfni. Við höfum vaxið mjög hratt sem þjóð og í íslensku stjórnkerfi eru sárafáir, ef einhverjir, sem vita hvað þeir eru að gera.

Þetta þýðir þó ekki að Íslendingar séu fífl. Og ég biðla til Jónasar – af virðingu og von um skilning – að hann kalli foreldra mína, vini, bræður, ömmur, ættmenni, fyrrverandi kærustur, kunningja, drykkjufélaga, gamla skóla- og fótboltafélaga, ekki fífl, einungis vegna þess að í íslenskum valdastöðum finnast manneskjur sem aldrei hafa sest niður til að gera ærlega hreingerningu í sálarkirnunni, ólíkt mínu fólki. Því mitt fólk er hið ágætasta fólk og ég líð ekki að það sé kallað fífl af þeim sem hafa ráfað svo langt inn í einstræti stjórnmálaþófsins að þeir sjá ekki heiminn eins og hann er í raun: stærri en svo að við getum vísað til fólks sem „kjósenda“ og af blygðunarlausu yfirlæti stimplað það fífl, án þess að taka afleiðingunum.

Því að sá sem talar svona hlýtur sjálfur að uppskera fyrir vikið annan og verri stimpil: mannhatari.

28.9.12

The Bourne Legacy

í kvöld sá ég bíómyndina The Bourne Legacy. Ég hef ekki séð fyrri myndirnar þrjár og þessi var mjög skrítin. Fyrsta hálftímann skildi ég ekkert.

Svo sprakk fjallakofi. Þá hrökk ég aðeins í gang.

Spennan náði hámarki í miklum eltingaleik um götur Manila á Filippseyjum. Þar var mikið fjör á mótórhjólum, en entist svo lengi að ég sofnaði. Ég hrökk upp þegar góði karlinn og góða konan voru komin í bát í Kyrrahafinu og lokalagið hófst.

Upp með hendur!

Ég var mjög ánægður með að allt skyldi enda vel að lokum.

Hið sama er hins vegar ekki hægt að segja um portúgölsku þjóðsöguna sem ég las í gær. Hún endaði á þessum orðum:

„Prinsessan og prinsinn lifðu saman til æviloka, lokuð inni í kastalanum.“

27.9.12

Úlfur í snjónum

Ég rakst á gömul skáldsögudrög, varla mjög góð. Í upphafi sögunnar yfirgefur kærasta aðalpersónunnar hann. (Hún aðalpersónan er sko „hann“: Úlfur). Kærastan fyrrverandi – Heiða – heldur til Berlínar í nám í „skapandi rýmisnýtingu“ (sem ég veit ekki lengur hvað er) og tekur með sér dóttur þeirra, Lísu, og okkar maður situr einn eftir, með sárt ennið.

Skömmu síðar brestur á snjóbylur.

Húsið þekst snjó. Og Úlfur er lokaður inni, einn með minningum sínum.

Hann er með samheitadellu. Þetta eru orðin sem hann kann yfir hinar ýmsu gerðir af snjó:

aska, áfreði, áfreri, bleytukafald, bleytuslag, blindöskjubylur, blotasnjór, brota, bylur, drift, drífa, él, éljagangur, fannburður, fastalæsing, fjúk, fjúkburður, flyksumjöll, fok, frostleysusnjór, fukt, fýlingur, fönn, grjónabylur, haglél, harðfenni, hjaldur, hjarn, hraglandi, hret, hreytingur, hríð, hríðarkóf, hryðja, hundslappadrífa, ísskel, kafald, kafaldi, kafaldsbylur, kafaldshjastur, kafaldshríð, kafaldsmyglingur, kafsnjór, kaskahríð, klessing, klessingur, kóf, kófviðri, krap, lausamjöll, lenjuhríð, leysing, logndrífa, lognkafald, maldringur, mjöll, moksturskafald, moldél, mugga, muggukafald, mulla, neðanbylur, nýsnævi, ofankafald, ofankoma, ofanhríð, pos, skafald, skafelgur, skafkafald, skafl, skafmold, skafrenningur, skæðadrífa, slitringur, slydda, slytting, snjóakk, snjóalög, snjóburður, snjóbörlingur, snjódrif, snjódyngja, snjófok, snjófukt, snjógangur, snjóhald, snjóhengja, snjóhraglandi, snjóhula, snjókoma, snjóreykur, snær, sólbráð, stórhríð, svælingsbylur

Vellíðunarinnar verðir

Rétt í þessu bönkuðu tveir einkennisklæddir menn á hurðina hjá mér.

Annar þeirra spurði: „Er allt í lagi?“

Ég sagði: „Já.“

Þá sagði hinn: „Gott.“

Síðan óskuðum við hverjir öðrum góðs dags og þeir fóru.

26.9.12

Stelpan og strákurinn

stundum geta kynmök
stelpu og stráks
orðið að stóru
VANDAMÁLI
sem þarf að leysa

stelpan og strákurinn mæla sér 
(vandræðaleg) mót
– til dæmis á Te og Kaffi
í Eymundsson við Austurstræti –
og reyna að leysa þetta 
VANDAMÁL
– og það er 
alltaf VANDAMÁL –
en svo virðist sem
engin lausn sé
í sjónmáli

Hafragrautur í óskilum

ég át hafragraut í morgun
en það er eins og hann hafi ekki skilað sér í magann
bannsettur

Laufblaðið

Í dag fauk stærsta laufblað sem ég hef séð með ofsahraða í græskulausan, gangandi vegfaranda, sem varð svo mikið um að hann datt í götuna og öskraði.

Blessun prentverksins

Að eiga prentara er mikil blessun.

Þegar illa gengur er hægt að hugga sig við það að maður tekur að minnsta kosti nokkur tré með sér í fallinu.


Frönskunámið: Framhaldssaga. Fyrsti hluti

        (Rasíski tungumálamaðurinn)

Rétt í þessu skráði ég mig í frönskunámskeið við Sorbonne. Á skrifstofu skólans tók við mér ungur, snyrtilegur maður, mjög nærgöngull um einkahagi mína. Að vanda brást ég við með einsatkvæðisorðum og tortryggilegu brosi, sem gerði hann enn nærgöngulli.

Hann talaði frönsku og ég svaraði honum á frönsk-ensku, frensku.

„Ætlarðu að vera í Frakklandi?“

„Hvað áttu við?“

„Ætlarðu að vera í Frakklandi?“

„Ehm. Já. Á meðan námskeiðið stendur yfir.“

„Gott.“

Næst vildi hann að ég borgaði. Ég kaupi mér næstum því aldrei neitt og því kom það seðlaveskinu mínu talsvert á óvart þegar ég dró það upp úr vasanum og reiddi af öryggi fram feitt búnt af Evrum, án þess af hika.

En kæruleysislegt yfirbragð mitt var bara gríma. Að greiða með einni hreyfingu margfaldar mánaðartekjur án þess að uppskera neitt áþreifanlegt í staðinn var dálítið eins og að seilast upp í skák eftir krukku af smákökum en vera í staðinn sleginn í andlitið með typpi.

Ungi, snyrtilegi maðurinn sagðist vilja að ég þreytti stöðupróf í frönsku.

„Nei, það er nú alveg óþarfi,“ sagði ég. „Settu mig bara í hóp með byrjendunum.“

„Ah, nei, það viltu nú varla. Í þeim hópi eru bara Kínverjar!“

Við þetta orð, Kínverjar, fór um mig ískaldur hrollur. „Ugh, nei!“ sagði ég. „Það vil ég nú ekki.“

„Ég held þú neyðist til að taka prófið,“ sagði ungi, snyrtilegi maðurinn, grafalvarlegur.

„Allt í lagi,“ sagði ég, en bað um að fá frekar að þreyta það viku, bara alls ekki í dag.

Nú reynir á að ég standi mig.

Annars lendi ég í hópi með Kínverjunum.

25.9.12

Umhyggja ömmu ljúfu

Áðan skrifaði ég foreldrum mínum tölvupóst þar sem ég lýsti í allöngu máli fábrotnu líferni mínu og hugleiðingum síðustu daga.

Mamma rölti til mömmu sinnar og las fyrir hana póstinn frá mér.

Amma hlustaði hljóð og spök á lesturinn, yfir tebolla.

Þegar honum lauk, voru viðbrögð hennar þessi:

„Hann vantar peninga, hann er svangur, hann er veikur og hann langar í pönnukökur.“

Prentarinn

Í dag komst ég yfir prentara, sem mun án vafa bjarga lífi mínu.

Prentari þessi er líka skannari, sem bjargar ekki lífi mínu, en auðgar það vissulega. 

Sá er hins vegar galli á gjöf Njarðar að þetta gráa flikki er ljótasta maskína sem ég hef séð. Fólk öskrar þegar ég sýni því hann.

24.9.12

Orðlaus

í dag hef ég ekki
mælt orð af vörum

ég velti því fyrir mér
hvort mér muni gefast
tækifæri til að segja eitthvað

„einn kaffibolla, takk“

„ég elska þig“

„hvenær leggur af stað
rútan til Egilsstaða?“

á meðan ég velti þessu
fyrir mér strýk ég blýantinum mínum
blíðlega um strokleðrið
hann breimar
eins og flækingsköttur

Friends

Það er gott að eiga góðan vin, en það er enn betra að eiga ekki vondan vin.

Volæðisgötur

Ég verð eitthvað svo meyr og ofhlaðinn tilfinningalega stundum þegar ég feta mig eftir götum Parísarborgar. Þær eru rónum stráðar bókstaflega hvert sem fólk gýtur stafrænum myndavélum sínum.

Öskrandi hart

Í stórborginni öskra allir. Börnin, fullorðna fólkið, bílarnir. Fjarvera gróðurs og annarra dýra en afskræmdra dúfna. Jafnvel eplin öskra þegar ég bít gegnum hýðið. Pennarnir öskra þegar þeir tæmast, brunda síðustu blekgusunni yfir pappírinn.

Og allt er HART. Malbikið auðvitað, en líka svipbrigði fólksins, viðmótið og tónlistin sem flæðir óendanlega úr heyrnartólum farþega neðanjarðarlestanna. Laufblöðin stirðna á meðan þau falla til jarðar, ötuð ryðbrúnu, haustgulu blóði sínu storknuðu, liggja á hörðum strætunum, undir hörðum trjágreinum.

Allt öskrandi og hart, öskrandi hart.

Fallegar, litríkar húfur

Mikið væri veröldin ljúf ef við þyrftum ekki að borða.

Þá gætum við eytt öllum peningunum okkar í bækur, kaffi og fallegar, litríkar húfur sem myndu gleðja hvern þann sem yrði á vegi okkar.

23.9.12

Brjóstumkennanlega dópsalagengið

       Til heiðurs öllum regnvotum, beinköldum dópsölustrákum

Í götunni minni stundar dópsalagengi eitt starfsemi sína, nótt sem nýtan dag. Liðsmenn þess eru hræddir töffarar með hettur, ungir að árum, raddirnar enn skrækar, leitandi og karakterlausar, hlátrasköllin tíð og hvell og af þeim toga sem gera öll vitsmunaleg störf hlægileg. Þess vegna fylla þeir mig mjög oft mjög tilvistarlegri angist: þá langar mig að hlaupa út og sparka þeim út í hafsauga. En ég geri það ekki, vegna þess að ég er góður strákur.

Eftir að hafa hlustað á þá pípa og gala og prumpa í allt kvöld fékk himinninn hins vegar nóg, að minnsta kosti skolaði hann þeim burt, mjög snögglega.

Og nú eru þeir horfnir, allir nema einn, sem hímir þarna kuldalegur, skjálfandi á götuhorninu, yfirgefinn, einmana, í úrhellisregninu.

Áðan vorkenndi ég honum svo sárlega að það hvarflaði að mér að bjóða honum hingað inn í hlýjuna, hella jafnvel upp á te handa greyið skinninu. Samstundis áttaði ég mig þó á því að það gengi aldrei upp, enda má ekki jaska hinu stóra jafnvægi hlutanna, einhver þarf að standa dópsalavaktina, jafnvel í þrumuveðri.

Aumingja, aumingja, brjóstumkennanlegi, litli dópsalinn í brjóstumkennanlega, litla dópsalagenginu.

Tevirkið

ég geispa
(sólskin morgunsins
brýst inn í nasirnar)
á meðan ég set rimla
fyrir gluggana

renni síðan heimasmíðuðum slagbrandi
fyrir dyrnar

á hurðina hef ég ritað
      HÉR BÝR
   EINMANALEIKINN
   Í VIRKI SÍNU

síminn er kominn í uppþvottavélina
og það er heitt te á könnunni
    þúsund
    auðar
    síður
    framundan

22.9.12

Mallakúturinn

Það er merkilegt hvernig allt jafnvægi mannsins miðast við ástand magans.

Um leið og eitthvað fer þar aflaga, gufar upp allur sálarfriður. 

Við verðum illskeytt, gröm, andstyggileg.

(Ég held reyndar að ástand meltingarfæranna sé ekki síður heillandi – og aðkallandi – viðfangsefni en flækjur sálarlífsins og raunar mesta furða hversu skarðan hlut það ber frá borði í lýsingum skáldsagnahöfunda og ljóðskálda.) 

Sá sem getur ekki tæmt úr þörmunum er dæmdur til að klúðra lífi sínu.

Ljóðmynd: 16:51, laugardagur

frá gítarnum mínum
strigsar
halarófa
af glottuleitum
tónskröttum
hverfur á bak við
hrúgu af tinnabókum

ég bý í íbúð
án spegla
undir rúminu mínu
er rykfallin blýantahrúga
á stærð við brauðhleif

sólskinsgeisli nagar
hálfétið epli á stofuborðinu

Hugmynd að bók: Gæskunnar gólem

Leirkarl einn er vakinn til lífsins með blíðum kossi af vörum kærleiksríkrar bakaradóttur. Leirkarlinn ferðast vítt og breitt um veröldina og kennir mannkyninu að lifa í sátt og samlyndi, skilja að hamingjan er ekki fólgin í frægð, frama og veraldlegum auði, heldur fórnfýsi, gjafmildi og nýjum, skemmtilegum dansi, sem kallast „Mjaðmarykkur gæskunnar gólems“ og breiðist um alheimsþorpið eins og eldur í sinu.

Án titils

skeggið á mér
er orðið nokkuð gerðarlegt
   þykkt og rautt
hins vegar vekja
mér ramman ugg
   nokkur grá hár á hægri kjálka

eins eru augu mín
nú fyrst að ljúkast upp
    fyrir veröldinni
en á sama tíma skelfir mig
að sjónin skuli daprast
   jafnhliða þeirri vakningu

en þannig er
þetta sjálfsagt:
    við brögðum
    með tungubroddinum
    hunangsdropa
og skömmu síðar birtist hrákaldur veruleikinn
til að höggva tunguna
úr kjaftinum

21.9.12

Setið að rími og pasta

Haustið læðist heim til mín.
Hljótt er úti. Máninn skín.
Rigatelli. Rósmarín.
Rímuð ljóð. Og meira vín...

Hjartalag

Það borgar sig ekki að bera
í brjóstinu gull. (Þótt ég reyni.)
Það er, vinur minn, skárra að vera
með víggirtan múr þar úr steini.

Hugmynd að bók: Kaffidrykkjan mikla

Uppgjafartónlistarmaður með skeggrót býr í París og skrifar skáldsögu sem er stöðugt verið fresta af útgefanda heima fyrir.

Hugmynd að bók: Hetjudáð hreinu meyjunnar

Hrein meyja bjargar föðurlandi sínu með því að sofa hjá leiðtoga óvinarins og skera hann síðan á háls.

Hugmynd að bók: Lífsreynsluvélin

Fundin er upp vél sem miðlar lífsreynslu. Notandinn slær lífsreynslu sína inn á lyklaborð og sendir öðrum sem upplifa þá sömu tilfinningar. Þetta fer úr böndunum þegar morðingi einn miðlar fórnarlömbum sínum lífsreynslu sinni á meðan hann drepur þau.

20.9.12

Góðar hugmyndir eru verstar

Hún hafði nýverið lagst í stórkostlega hausthreingerningu og þá ákveðið að breyta því hvar hún geymdi auðkennislykilinn sinn. Áður hafði hún geymt hann í litlu skríni efst á bókahillunni.

Nú fann hún hann ekki.

„Ég er viss um að á þeim tíma sem ég færði hann var ég að framfylgja einhverri mjög góðri hugmynd,“ sagði hún. „Góðar hugmyndir eru verstar.“

Sleikjópinnastrákurinn

Ég sá feitan, brosmildan strák fleygja sleikjópinnum hátt til himins.

Allt um kring ærsluðust lítil börn í hringi og reyndu að grípa sleikibrjóstsykurinn.

Vasar feita stráksins virtust botnlausir. Hann var miðpunktur alheimsins.

Hann var sleikjópinnastrákurinn.

Dúfnaárásin

Í dag skeit dúfa á læri konu sem sat við hlið mér á kaffihúsi.

Konan brá sér afsíðis, hlæjandi móðursýkislega.

Á meðan gerði heill hópur af dúfum atlögu að eiginmanni hennar. Hann ætlaði að siga þeim burt, en sparkaði þá óvart í borðfótinn og hellti yfir sig tei.

Síðan leit hann vonsvikinn á mig og sagði eitthvað sem ég skildi ekki, og ég hló.

Lágstemmd markmið

að betrumbæta mig aðeins
á hverjum degi.
bara aðeins.

og komast hjá því
að klóra úr mér augasteinana.

Er ég einn af góðu körlunum?

Þegar Jón spyr Geir upp úr þurru í röðinni á Kaffitári: „Hvernig get ég með góðri samvisku fengið mér daglega fimm hundruð króna karamellulatte þegar ég veit að ég gæti bjargað lífi fólks í öðrum heimsálfum fyrir sömu upphæð?“ er algengast að Geir ranghvolfi augunum og segi: „Láttu mig vera.“

En ég er að komast æ meira á þá skoðun að við eigum ekki að láta Geir vera. Peter Singer tekur til að mynda gott dæmi í nýrri bók sinni, The Life You Can Save, af manni sem á leið til vinnu sinnar stendur frammi fyrir því hvort hann eigi að bjarga lífi barns sem er við það að drukkna (og skemma þar með nýja skó og bía út jakkafötin sín) eða láta barnið eiga sig og mæta til vinnu á réttum tíma.

Auðvitað á maðurinn að bjarga barninu! segja flestir.

En af hverju? Á sama tíma deyja árlega milljónir barna undir fimm ára aldri. Við gætum hæglega bjargað þeim. Og það með miklu smærri fórn en þeirri sem nemur skóm og jakkafötum.

Algengt er að fólk segi: „Ég vinn fyrir laununum mínum og hef því rétt á að eyða þeim í það sem mér sýnist, enda á ég það skilið. Ég legg hart að mér.“

En þessu má svara með: „Þú fæddist þar sem tækifærin eru á hverjum strái. Eiginlega ætti frekar að teljast hálfgert afrek ef þú næðir ekki að landa góðu starfi og öruggum tekjum miðað við aðstæður þínar. Þú ert ekkert sérstakur, heldur 97% heppinn, 3% duglegur. Og hana nú!“

Auðvitað er þó margt til í því að við eigum skilið að njóta ávaxta erfiðis okkar. Hins vegar er því ekki heldur að neita að meginástæða þess að Vesturlandabúum býðst að leggja hart að sér og „eiga þar með skilið“ að kaupa sér ljúffenga gos- og kaffidrykki þegar vatnið úr krananum er fullboðlegt, felst hvorki í aðdáunarverðum dugnaði þeirra né einstökum hæfileikum, heldur í þeirri einföldu staðreynd að samfélög okkar – þar sem við vorum svo heppin að fæðast – bjóða upp á réttu stökkpallana til árangurs. Við höfum aðgang að góðu skólakerfi, heilbrigðisþjónustu og matvörubúðum. Við getum fengið styrki til náms, „frumkvöðlastarfs“, jafnvel listsköpunar. Meðalaldur okkar er hærri en áttatíu ár, en víða í fátækum löndum er hann enn undir 49 árum. Þar deyr eitt af hverjum fjórum börnum áður en það nær fimm ára aldri, en færri en eitt af hverjum þúsund á Vesturlöndum.

Þegar á okkur dynur „kreppa“, þýðir það að líkamsræktarfrömuðir fara í færri skíðaferðir og ungmenni endurnýja síður fartölvurnar sína. En þetta er ekki fátækt, heldur dásamlegt lúxusvandamál sem ætti frekar að gleðja okkur en hryggja. Um tvö prósent mannkyns deila nú með sér um helmingi af heildarauðæfum jarðar, en tíu prósent um 85 prósentum þeirra. Í síðari flokknum eru sjálfsagt bæði þú og ég, jafnvel þó svo að við þurfum að hugsa okkur tvisvar um áður en við kaupum okkur þriðja kaffibolla dagsins og lítum ekki á okkur sem sérlega ríkt fólk.*

Um helmingur mannkyns deilir síðan með sér einu prósenti prósenti af auðlindum manna. Helmingur mannkyns. Einu prósenti. Þar af búa um 1,4 milljarður manna við svokallaða „ýtrustu fátækt“, en ég get ekki einu sinni sett mig í spor jafn bágstadds fólks. Ég hef bara séð það á ljósmyndum og í bíómyndum.

En það er þó einmitt þetta sem sérhver siðferðilega þenkjandi maður ætti að gera: Að setja sig í spor annarra. Reyna að skilja hvernig öðrum líður. Og sá sem gerir það fer að finna til með öðrum og vilja hjálpa þeim. Jafnvel líta svo á að honum beri skylda til þess, sama hvað hann „á sjálfur skilið“.

Hjá hinum ýtrustu fátæklingum skellur ekki á „kreppa“. Þar er hugsanlega borðuð ein máltíð á dag og móðirin þarf þá að velja hvort það er hún sem fær að fylla á magann eða barnið hennar. Þegar sonurinn veikist af malaríu eru ekki hægt að seilast inn í talnaskápinn eftir sparifénu til að greiða fyrir hann spítalavistina, heldur deyr strákurinn hægum, kvalafullum dauðdaga, og svo þarf að hyggja að því hvaðan næsta máltíð komi, daginn eftir.

Ég held að markmið bókmennta og heimspeki, sem mótsvars við öfgakenndum tæknitrúarbrögðum hinnar miklu rafeindaaldar, sé að spyrja spurninga á borð við: Hvernig á ég að haga lífi mínu? Og svo annarrar enn beinskeyttari: Er ég góður maður?

En hugsunarhátturinn hjá okkur er orðinn svo brenglaður að „listamenn“ leggja ekki einu sinni lengur upp með að skapa eitthvað sem færir öðrum upplyftingu og trú á fegurð lífsins, heldur einungis „listamönnunum“ sjálfum „heimsfrægð“.

Eins mætti helst ætla að auðkýfingurinn Dennis Tito hafi látið skjóta sér út í geim – hann er fyrsti „geimtúristinn“ – einungis svo að fátæklingar jarðarinnar gætu beint kinnfiskasognum andlitum sínum til stjarnanna og hann öskrað niður á móti: „Sjáið! Þetta er það sem ég eyði peningunum mínum í!“

Ofanfarandi hugleiðingum má sjálfsagt svara með mjög snubbóttum hætti: „Ég hugsa um mig, og þú hugsar um þig, og þá eru allir ánægðir. Láttu mig vera.“

En ekkert sprettur af engu; á að láta þá vera sem njóta góðs af eymd og volæði annarra?

Ég mæli með bók Singers fyrir þá sem hafa áhuga á því að velta þessu fyrir sér, án þess þó að ég vilji hvetja fólk til þess að selja húsin sín og lýsa stríði á hendur „kapítalismanum“. En hann er einn þeirra fáu heimspekinga sem spyr spurninga sem hafa raunverulega þýðingu fyrir daglegt líf manna og líka ágætis penni.

Grænmetisætan og heimspekingurinn Peter Singer
klappar mjög stóru svíni.

* Þess má geta að ég tók mér hlé við að skrifa þetta til að rölta út á nýstofnað, flott kaffihús, þar sem ég fékk mér rosalega góðan 2,5 evru kaffibolla.

19.9.12

Á meðan hland mitt streymir til sjávar

ég held að pissublaðran mín
sé eitthvað smærri
en almennt gengur og gerist

að minnsta kosti eyði ég
dögunum í fátt annað en:
    að renna niður buxnaklaufinni
    að góna á bununa streyma í postulínsskálina
    að renna aftur upp buxnaklaufinni

á meðan hland mitt streymir
svo sína sigurvissu leið til sjávar
velti ég því fyrir mér
hvert líf mitt stefnir

Konan sem klippir út fréttir

Öll þurfum við að gegna hlutverki í tilverunni, finna okkur tilgang.

Til dæmis situr oft á sama kaffihúsi og ég kona ein sem snýtir sér mjög mikið. Á hverjum degi klippir hún niður svona á að giska þúsund síður af dagblaðapappír, með stórum, rauðum skærum, skjálfhent. Síðan límir hún ljósmyndirnar og greinarnar inn í litlar stílabækur, á milli þess sem hún snýtir sér.

Hún er konan
Hún er konan sem klippir út fréttir.

This American Life

Margir hafa bent mér á útvarpsþættinn This American Life sem er um þessar mundir eitt vinsælasta, ef ekki allra vinsælasta, útvarpsefni Bandaríkjanna og hóf göngu sína árið 1995 í Chicago. Mér hefur lengi litist vel á þennan þátt, heyrt brot og haft gott eitt um þau að segja, og því ákvað ég að um daginn að gerast áskrifandi að þeim í gegnum iTunes.

Merkilegt nokk.

Skemmst er frá því að segja að mér hefur litist illa á fyrstu þrjá þættina. Ég held þó að það hljótist frekar af því að ég hafi verið óheppinn með einstaka þætti en að ekkert sé í syrpuna alla varið, enda hafa í áranna rás komið að gerð þeirra fríður hópar karla og kvenna sem ég held mikið upp á, auk annarra sem ég held ekkert upp á, til dæmis David Sedaris (sem ég held mikið upp á), Sarah Vowell (sem ég held ekkert upp á), Russell Banks (sem ég held mikið upp á), Dave Eggers (sem ég held ekkert sérstaklega mikið upp á), David Rakoff (sem ég held ekkert upp á), Tobias Wolff (sem ég ætti sjálfsagt að halda meira upp á), Anne Lamott (sem ég held dálítið upp á), Michael Lewis (sem ég veit ekkert hver er), Michael Chabon (sem ég held mikið upp á), Nick Hornby (sem ég hélt einu sinni upp á), Alex Kotlowitz (sem ég held ekkert upp á), Dan Savage (sem ég veit ekkert hver er), David Foster Wallace (sem mig langar að halda mikið upp á en get það ekki), Spalding Gray (sem ég held ekkert upp á), Gay Talese (sem ég held ekkert upp á), Aimee Bender (sem ég held ekkert upp á), Lydia Davis (sem ég hélt einu sinni upp á en finnst nú leiðinleg), Junot Diaz (sem ég ætla bráðum að byrja að halda mikið upp á), Mike Birbiglia (sem ég held ekkert upp á) og Shalom Auslander (sem ég veit ekkert hver er).

Nýjasti þáttur This American Life heitir „Back to School“ og fjallar um skólakerfið í Bandaríkjunum, með áherslu á Chicago-borg, þar sem 87% nemenda koma af „fátækum heimilum“ samkvæmt útreikningum tölfræðivísra. Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir brottfall ungs fólks úr skóla og efla námsgetu þess? var leiðarstefið í þættinum að þessu sinni.

Og: Hvers vegna vegnar sumum börnum betur en öðrum?

Stjórnandinn heitir því skringilega – og kvenlega – nafni Ira Glass. Í þættinum kom meðal annars fram vinur hans, sem heitir hinu eitursvala nafni Paul Tough, en sá var að gefa út bók með þeim ofur-bandaríska titli, How Children Succeed, og því um að gera að grípa gæsina og auglýsa ritið í vinsælum útvarpsþætti hjá félaga sínum.

Ira Glass, útvarpshetja.

En hvers vegna gengur sumum betur að læra en öðrum?

Eftir því sem ég best gat skilið ræðst námsgeta fólks einkum af sjálfsstjórn þess – til dæmis því hvort það geti beðið í tíu mínútur eftir sykurpúða – en jafnframt því hvort það þurfi að óttast að einhver sé að fara að skjóta það í höfuðið.

Nefnd voru til sögunnar börn sem búa í hverfum þar sem ofbeldi – mjög oft heimilisofbeldi – er daglegt brauð. Sum þessara barna hafa séð morð framin með köldu blóði á leið sinni heim úr „hopp-í-skarðið“. Og svo furða menn sig á því hvers vegna þeim gangi erfiðlega að leggja á minnið latneska safnbeygingu, en lengi vel var talið að ástæða þess væri asmi.

Til leiks steig skrækrödduð kona, einhvers konar læknir. Hún taldi – og þá voru tuttugu mínútur liðnar af þættinum og ég hafði margoft öskrað upp yfir mig svo að skvettist úr kaffibollanum: „Stress! Stress! Svarið er stress!“ – að stress gæti haft áhrif á námsgetu barna. Einkum þeirra sem hafa séð fólk skotið í höfuðið með UZI og eiga föður sem drekkur vín og lemur þau.

Hlustendum til aukinnar fræðslu var nefnt dæmi um barn nokkurt sem bjó í mjög hættulegu hverfi. Foreldrar þess skildu það, af einhverjum ástæðum, oft eftir eitt í húsinu til langs tíma, án nokkurrar gæslu. Barnið var svo hrætt að það reyndi að negla fyrir gluggana og víggirða húsið, en þetta dugði ekki til að halda fjarri öllum óprúttnu náungunum sem brutust þar inn næstum daglega og stálu öllu steini léttara, meðal annars klósettpappírnum. Barnið var undirokað af streytu, ótta og áhyggjum og gekk því illa að leggja nöfn látinna forseta á minnið – sem lækninum þótti stórmerkilegt.

Sérstaklega fannst mér þó þreytandi Nóbelsverðlaunahafinn James Heckman. Þrotlausar rannsóknir hans og aðstoðarfólks undanfarin tíu ár hafa leitt það í ljós að öguð börn, þ.e. einstaklingar sem búa yfir (lágmarks)sjálfstjórn, eru líklegri til að ná árangri í lífinu en hvatvíst fólk sem fórnar framtíðaráformum sínum blindað af skammlífri umbun andartaksins.

Í þessu samhengi var nefnt hið þekkta sykurpúðapróf, þar sem lítil börn eru látin líða sálfræðilegar vítisraunir og það tekið upp á vídjó. „Hér er sykurpúði,“ er sagt við þau. „Og hér er bjalla. Og nú ætla ég að fara út úr herberginu, en ef þú getur ekki beðið eftir mér hringirðu bjöllunni og þá kem ég og gef þér sykurpúðann. En ef þú bíður í tíu mínútur, þá kem ég aftur af sjálfsdáðum og gef þér tvo sykurpúða.“

Krakkarnir eiga misauðvelt með þetta. En mér skilst að þeir sem borði sykurpúðana strax leiðist síðar út í glæpi og endi á framfærslu ríkisins.

Heildarniðurstaða þáttarins var á þá leið að stressuð börn eigi erfitt með að einbeita sér að námsbók, enda hafi þau áhyggjur af öðru, til dæmis því að einhver brjótist inn til þeirra og steli öllum klósettpappírnum. Þá kom fram að fólk með góða sjálfstjórn nái frekar langt í lífinu – sem að mati Bandaríkjamannanna táknaði alltaf góð laun og fátt annað – en þeir sem láta hvatvísina hlaupa með sig í gönur og eru sólgnir í sykurpúða. Þetta sögðu okkur hámenntaður læknir, mikilsvirtur rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi.

18.9.12

Vondur skáldskapur, verri selskapur


núorðið halda mýsnar
að við búum saman í þessari íbúð

„ég er sá
sem greiði leiguna!“ æpi ég
og steyti að þeim hnefann

ein býr inni á baðherbergi
önnur gerir morgunæfingar
í þvottakörfunni

sú þriðja fylgir mér út úr húsi
þegar ég fer í spekingslega göngutúra á morgnana

ég leyfi þeim að lepja te
úr keramikpotti
bý til nöfn á þær:
    ólafur liljurós
    selma lagerlöf
    ahab skipstjóri

á næturnar stíga þær
dans á tökkum ritvélarinnar
og borða
bestu uppköstin mín

Að eima skáldsögur

Baltasar Kormákur hefur gert nokkrar fínar myndir. Og nú segja allra-málefna-vitringar á borð við Illuga Jökulsson og Egil Helgason að nýjasta mynd hans, Djúpið, sé „fín“, „afar sorgleg og hetjuleg“, „lágróma og einlæg“.

Eins og flestir vita fjallar myndin um selmennið Guðlaug sem vann þá ómannlegu þrekraun að synda sex klukkustundir í söltum sjó og ná loks landi í Vestmannaeyjum, þar sem hann óð klettaskorna strönd og síðan hraun til byggða, nær dauða en lífi. Guðlaugur setti sig víst ekki upp á móti gerð myndarinnar, en kom heldur hvergi nálægt henni, og svo svífur yfir vötnum minningin um skipfélaga hans sem drukknuðu þessa hræðilegu nótt. Því er vonandi að Illugi og Egill hafi rétt fyrir sér og vel hafi tekist til, enda um að ræða viðkvæman atburð sem allir Íslendingar þekkja.


Áðan las ég svo að Baltasar – hugsanlega ölvaður af velgengni sinni og (verðskulduðu) lofi – ætli sér að gera kvikmynd um sjálfa „bók íslenskra bókmennta“, Sjálfstætt fólk. Það verk hefur reyndar aldrei staðið mér neitt sérstaklega nærri, þótt ég viðurkenni fúslega að um „meistaraverk“ sé að ræða í ýtrustu merkingu þess orðs, án þess að skilja þó nákvæmlega hvað ég eigi við með því.

En þótt textinn sé (náttúrlega) magnaður, höfðar sagan ósköp lítið til mín. Bjartur er frekar leiðinlegur fauskur og bókin svo alltof löng. Mér finnast aðrar bækur eftir HKL miklu skemmtilegri; til dæmis Dagar með munkum. Síðan er Skáldatími fjörugur, enda Halldór svo skemmtilega hrokafullur og ástfanginn af sjálfum sér. Eina bókin eftir hann sem er virkilega spennandi sem saga (og byggist ekki 90% á stílsnilld) er Salka Valka. Ég held að hún myndi henta hvíta tjaldinu miklu betur, enda spratt hugmyndin fyrst í kolli Halldórs sem kvikmyndahandrit: „A Woman in Pants“, ef ég man rétt – sjálfsagt mjög ögrandi titill í þá daga. Þá ætlaði Halldór sér að slá í gegn í Hollywood, sem gekk – sem betur fer – ekki eftir. Gaman væri ef Baltasar tæki frekar upp það kefli.

Mér finnst annars alltaf eitthvað pervískt við þá tilhneigingu manna að eima 500 blaðsíðna skáldsögu niður í 100 mínútna bíómynd; það er eins og að ætla sér að búa til eina fljótgleypta samloku úr þrjátíu rétta hlaðborði og kalla samlokuna síðan „hlaðborð“. Þessu mæti snúa við: hver tekur að sér að skrifa 500 blaðsíðna skáldsögu upp úr 100 mínútna bíómynd?


Enginn!

Og þegar ég fer að ímynda mér Sjálfstætt fólk sem bíómynd gerða á öðrum áratug 21. aldar kvisast af einhverjum ástæðum um mig ískaldur kjánahrollur. Íslenskt kvikmyndagerðarfólk er sérstök tegund af mannfólki, og sjálfsagt andhverfa harðgerðra, íslenskra bónda, sem er önnur tegund af mannfólki.

(Sem á auðvitað ekkert að koma í veg fyrir að myndin verði gerð – Spielberg veit sjálfsagt ekkert um hvernig það er að vera geimvera sem strandar í smábæ í Bandaríkjunum.)

Ég sé fyrir mér stikluna (trailer-inn): „Þessi jól“ – árið er 2015 eða eitthvað – „mun þvermóðskufullur bóndi læra lexíu ævi sinnar...“

Sviphvass, veðraður maður stikar lotinn yfir þúfur og mela við draumkennda tónlist eftir múm. Í kringum hann skoppar sprækur hundur, sem flaðrar ákaflega upp um bóndann, en uppsker ekkert nema ávítur og tóbaksfruss.

Og yfir skjáinn færist textinn: SJÁLFSTÆTT FÓLK!

Klippt: og nýtt lag, að þessu sinni poppaðra, eftir Mugison. Anna Sóllilja brosir; sólskinsgeisli lýsir upp fagurt andlit hennar.

Kannski Mugison gæti jafnvel leikið Bjart?


Ég held að smásögur henti – af augljósum ástæðum – miklu betur til kvikmyndaaðlögunar en skáldsögur.

Dæmi um vellukkaðar bíómyndir eru til dæmis The Shawshank Redemption (sem skrifuð var út frá Rita Hayworth and Shawshank Redemption eftir Stephen King, sögu sem flokkast reyndar sjálfsagt frekar sem nóvella en smásaga) og Memento, en þar samdi leikstjórinn Christopher Nolan handrit út frá ágætri smásögu eftir bróður sinn, Jonathan, og gerði þar með sína einu góðu mynd. Og svo var Ungfrúin góða og húsið ágæt, en hún var einmitt byggð á langri smásögu, eða nóvellu, eftir HKL.


Annars verður gaman að sjá hver afraksturinn verður.

Fyndnast er að hugsa til þess þegar letihaugar í framhaldsskólum þreyta íslenskupróf eftir nokkur ár: „Lastu Sjálfstætt fólk?“ „Nei, maður, ég horfi bara á myndina.“

16.9.12

Örfá orð um góðglaða svanna

Um daginn var næstum ekki hægt að opna íslenska vefsíðu án þess að þar gapti við manni grein um ruddaskap íslenskra karlmanna á krám landsins.

Það hvarflar ekki að mér að koma kynbræðrum mínum til varnar, til þess finn ég ekki til nógrar samstöðu með þeim. Þó langar mig að skjóta því inn í umræðuna hversu ógeðslegar íslenskar stelpur geta líka verið. Bara svona til gamans!

Oft er til dæmis kvartað yfir því að íslenskir karlmenn séu svo ágangsharðir með krumlunum að ölkærum stúlkum sé hvergi vært. Þetta er án alls vafa rétt, þótt ég hafi sem betur fer aldrei fengið að kenna á groddaskap þeirra, enda túlkar fólk mig oftast ekki sem kvenkyns. (Með fáeinum undantekningum þó.)

Á hinn bóginn hef ég margoft lent í því að fílefld kvenkrumla grípur þjösnataki um aðra hvora rasskinnina á mér, stundum af slíkum ofsa að orkan sem leysist skyndilega úr læðingi nægir til þess að líkami minn fleytir kerlingar eftir bjórlöðrandi dansgólfinu. 



Ýmsir samferðamanna minna hafa sömu sögu að segja.

Þar sem ég vil ekki að hafa þessi orð mjög mörg vík ég bara strax að kjarna málins, sem er reyndar giska einfaldur: 

Vandinn er sá að íslenskur almenningur hegðar sér almennt eins og tímgunaróðar skepnur á strætunum við öldurhúsin. Það er engan veginn einskorðað við ljótara kynið. Sá sem enn er haldinn barnslegum ranghugmyndum um dularfullan og töfrum slunginn þokka kvenna þarf ekki að gera annað en leggja leið sína um miðbæ Reykjavík síðla helgarnætur. 

Lokapunktur í tengslum við kynjaumræðunana sem grasserar vítt og breitt um íslenska vefheima ætti því kannski að vera þessi: Í okkur öllum býr bæði stelpa og strákur, þótt misgrunnt sé á hvoru þeirra. Og öll ættum við að sýna hvert öðru lágmarksvirðingu, helst rúmlega það. 

Júlía, vertu góð

Hér er gamalt lag, tekið upp í herbergiskytru brósa.

Textinn hljóðar svo:


Júlía, vertu góð

timbruð morgungyðja gubbar í austri
gulgrænni morgunskímu
ég ligg í rúminu, læt hugann reika
mig langar að komast í vímu

þeir segja að grasið verði grænast þegar rignir
ég gái aftur út þegar lygnir

júlía, vertu góð,
júlía, ekki fara
júlía, vertu góð

sólin brýst í gegnum gáskafullt regnið
og gáir hvað klukkan slær
og regnið þvær mína ljósslegnu lokka
og lekur um skítugar tær

og einhvern veginn grasið grær

júlía, vertu góð,
júlía, ekki fara
júlía, vertu góð

ég fregnað hef að sérhver sál sé eyja
og að samband okkar sé nú alveg sprungið
og að það sem er of heimskulegt að segja
sé sungið

þú gafst mér vald til að hirða heiminn frá þér
og nú hlæ ég tárum því þú ert ekki hjá mér

júlía, vertu góð,
júlía, ekki fara
júlía, vertu góð


(2010)

15.9.12

Ojba rasta

Mér líst ekki illa á þessa plötu. Gaman að heyra íslensku textana líka. Held þeir séu langt því frá galnir.


Letilegur laugardagur


Ein gömul

Elska ég hana? Ólgar slík þrá
innvortis meðan ég horfi' hana á?
Þrífst ástarbrími? Þrálátur svími?
Þegar hún spyr mig, segi ég: „Já!“
Ég get ekki annað, bundinn af öllu þessu rími.

(Úr Með mínum grænu augum.)

13.9.12

Sjálfsmynd

mig grunar
að ég verði ljótari
með hverjum deginum sem líður

hárið
úrsérvaxið
og skeggvöxturinn
að komast á það stig
að ég minni á matthías jochumsson
      eða er það kannski frekar abraham lincoln?
            eða lenín?

undir augunum
fjólubláir þreytudalir
og í hjartanu
holur
sem rúma meðalstóran vísifingur

11.9.12

Giovanni Larsson, hugsuðurinn í virkinu

Á Ítalíu rakst ég áhugaverðan mann sem kvaðst heita Giovanni Larsson. Hann var hálfur Ítali, hálfur Svíi. Hann var mjög vinalegur viðmóts, en í andlitinu sá ég þó stundum grilla í einhverjar myrkari hliðar, einhverja djöfla í augunum. Stundum kippti konan hans mjög snöggt í ermina á honum og hló hátt upp úr þurru. Þá drakk ég úr teyg úr vínglasinu mínu og þóttist mjög upptekinn af því að skoða stjörnurnar.

Við sátum á torgi þar sem heimamenn í smábænum Lucca komu saman til að borða langdreginn kvöldverð. Þeir sem enn treystu sér til dönsuðu við brokkgengan undirleik sérkennilega samanspunninnar hljómsveitar þar sem menn komu af öllum aldri og úr öllum þyngdarflokkum. En aldur veislugesta var almennt mjög hár.

Nema hvað svo sat þarna einn ljóssleginn, náhvítur Íslendingur, með appelsínugult hár og eldrautt skegg, enn ungur, og auðvitað hrókur alls fagnaðar.

Ævisaga Giovanni Larssons, málglaðasta borðnauts míns, var eins og tekin beint upp úr þriggja vasaklúta eldhúsróman. Faðir hans var af sænskum ættum og kynntist barnsmóður sinni í Ameríku, en var svo sendur á vígvöllinn, sem var um 1940. Unga konan nýtti fyrsta tækifæri sem gafst til að forða sér frá Bandaríkjunum með kornungan son sinn og setjast að í Lucca, þar sem Giovanni hefur síðan búið allt sitt líf. Hann vann áður í banka, en situr nú á skólabekk, lærir sögu. Vissi margt um Ísland.

„Móðir mín dó þegar ég var unglingur,“ sagði hann og bandaði kæruleysislega frá sér með hendinni, mjög ítalskt, eins og það væri daglegt brauð að missa móður sína. „Í slysi,“ bætti hann við án þess að útskýra það frekar.

Í kjölfarið lagðist hann í viðamiklar rannsóknir og tókst að hafa uppi á fjölskyldu föður síns í Bandaríkjunum. „En þá reyndist faðir minn einnig dáinn,“ sagði hann og bandaði aftur frá sér með hendinni. „Hann dó ungur,“ bætti hann við. „Í slysi.“

Fjölskylda föðurins bjó nú í Utah, fylkinu sem var stofnað af mormónum. „Og þegar þau höfðu einu sinni klófest mig,“ sagði Giovanni, „vildu þau alls ekki sleppa mér aftur! Þau vildu að ég gerðist mormóni. En ég sagði: O, nei! Og lét mig hverfa.“

Giovanni Larsson flúði aftur til Lucca, þessa litla, notalega bæjar sem mig var tekið að gruna að væri eini griðastaður hans á jarðríki. (Til gamans má geta þess að þorpið er girt fjögurra kílómetra löngum virkisvegg, fimm hundruð ára gömlum.)



Þjónarnir færðu okkur á pappadiskum hvern réttinn á eftir öðrum. Vínflöskurnar tæmdust og Giovanni Larsson sat ekki á skoðunum sínum. Einkum greip ég á lofti flokkun hans á mannfólki, en hann er þess fullviss að tegund okkar skiptist upp í örfáa útvalda annars vegar – svokallaða illuminati – og svo sauðsvartan almúgann hins vegar, eða þrælana. Hinir fáu útvalda brugga ráð saman og stjórna okkur hinum. Þessu til stuðnings vitnaði Giovanni Larsson til skrifa bresks sagnfræðings, David Icke, sem mér sýnist vera breskur brjálæðingur með áhuga á samsæriskenningum.

Þegar ég skaut því svo inn í samræðurnar á öðrum tímapunkti, ég man ekki hvers vegna, að ég hefði um skeið búið í Lundúnum, sagði Giovanni Larsson: „Ah! Þangað hef ég margoft komið. Vinur minn bjó í Paddington, sem er negrahverfið í Lundúnum. Þar er bókstaflega allt morandi í negrum.“ Þá fór um mig kaldur hrollur, gamla pólitískt-réttsýna, þótt ég áttaði mig strax á því að orðið „negri“ væri í meðförum Giovanni Larssons mjög hlutlaust, rétt eins og „pasta“ eða „terlínbuxur“.

„Já, ég var dálítið lítið í Paddington,“ sagði ég og skipti yfir í aðra sálma.

Við skildumst með virktum og Giovanni óskaði mér allra heilla á lífsleiðinni. „Gangi þér vel með skrifin,“ sagði hann og óskaði mér enn og aftur til hamingju með að kalla mig rithöfund. „Til hamingju! Til hamingju!“

Ég rölti eftir múrveggnum aftur á gistiheimilið og hugsaði um hversu skrítið það væri að búa alla sína ævi innan virkisveggja. En kannski er það ekki svo ósvipað því að búa á eyju lengst úti í Atlantshafi, ég veit það ekki.

Áfram um visku tepokanna

Tepokinn minn í kvöld er sammála Megasi.

Tepokinn segir: „The smile you give comes back to you.“



„Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig,“ segir Megas.


Fjarskipti


Það kemur þér á óvart að rekast á ljósmynd af sjálfum þér í stórri yfirlitsbók um kvikmyndir, Cinema Now, þar sem þú ert í hlutverki rómverskru stríðshetjunnar Aemiliusar Luliusar Licinianusar. Þú ert með herskáan glampa í augum og samanbitnar, blóðugar tennur, en spennir greipar um voldugt sverð, færður í skínandi gullpils og gylltan hjálm. Kvikmyndin ber titilinn Fists of Glory, eða Dýrðarhnúar, og var gerð árið 2009 í Hollywood. Þangað minnistu þess ekki að hafa komið.

Á síðum Cinema Now eru Fists of Glory helgaðar fimm síður. Þar gefur að líta fjölmargar smærri ljósmyndir – þú kemur fyrir á þeim flestum – af stórfenglegum orustusenum frá blómaskeiði rómverska heimsveldisins. Á einni þeirri stekkurðu á fáki út úr logandi húsi, með grátandi konu í fanginu:



Í meginmálinu stendur að þú hafir hlotið Golden Globe-verðlaun fyrir leik þinn í myndinni, auk tilnefningar til Óskarsverðlauna. Þá er tekið fram og og skáletrað að þú hafir slegið öll fyrri launakröfumet í Hollywood.

Bókin Cinema Now var afmælisgjöf frá frænku þinni. Þú reynir að hringja í hana til þess að grennslast fyrir um málið, en hún svarar þér ekki. Þú leggur á og skimar eftir Golden Globe-verðlaunastyttunni, en sérð hana hvergi.



Þú hnýtir á þig skóna og ferð í jakkann. Örlítill úði fellur af himni, svo að þú tekur með þér regnhlíf.

Þú spennir regnhlífina upp um leið og þú stígur út; í sömu andrá fer um þig römm vindhviða og feykir regnhlífinni út í buskann.

O, jæja, hugsarðu. Ég get nú alltaf keypt nýja regnhlíf.



Þú arkar af stað út á vídjóleigu og gengur fremur hratt fram hjá langri þyrpingu dökklitra trjáa, sem af einhverjum ástæðum minnir þig á hóp af bíræfnum þorpurum.

Á vídjóleigunni húkir bústinn karl með æðsprungnar kinnar á bak við afgreiðsludiskinn. Stelpa með tíkó blæs tyggjókúlur og sópar gólfið svo letilega að þig syfjar. Þú geispar og teygir úr þér, kæruleysislega.

„Komið þið sæl,“ segirðu.

„Já, daginn,“ segir sá feiti.



Stelpan blæs tyggjókúlu sem springur með gjöllum hvelli.

„Eigið þið nokkuð kvikmyndina Fists of Glory?“

„Amm, auðvitað. Hún er þarna.“

Sá feiti bendir á rekka fullan af kvikmyndum. Hakan sekkur djúpt í brjóstkassann og axlirnar renna saman við slapandi kinnarnar. Fyrir ofan rekkann hangir borði með nafninu þínu. Í rekkanum eru að minnsta kosti sjö eintök af Fists of Glory, auk annarra mynda með þér. Þú lest nokkra titla af handahófi: Macho Priest, Alligator Confidential, Private Mongo, La Petite Lune.

Þú rennir lauslega yfir aftanátextann á nokkrum hylkjum. Síðan ferðu með Fists of Glory að afgreiðsluborðinu og brosir vandræðalega til stúlkunnar.


Þegar heim er komið popparðu og hellir kóki í bjórglas. Myndin hefst á yfirlitsmynd af Rómarborg. Síðan þrengist sjónarhornið hægt að ofan uns linsan staðnæmist við andlit þitt. Við tekur örlagaþrungin saga af stríðshetju sem sprangar ýmist um orustuvöllinn eða hangir í baðhúsum Rómarborgar.



Þér leiðist myndin. Besta senan þykir þér vera ástarsenan með Charlize Theron. Þú spólar til baka og horfir á hana þrisvar sinnum í röð.

Poppið er búið og þig langar í harðsoðin egg. Þú opnar ísskápinn og sérð að eggjahólfið er tómt. Þú bræðir með þér að skjótast út í búð, skýst á klósettið og rekst á köttinn þinn í vaskinum. Þú sturtar niður og fyllir skál kattarins af fóðri, en hann hunsar þig og kúrir áfram undir krananum, svo að þú getur ekki með góðu móti þvegið þér um hendurnar.

Þegar þú gengur fram í anddyri til að fá þér ferskt loft sérðu að nýjasta útgáfa af Time er í bréfalúgunni: Þú ert á forsíðunni.



Þú gleymir öllum áformum um að kaupa egg, dregur eintakið úr lúgunni og sest fram í stofu til að lesa greinina um þig.


(2010.)

5.9.12

Kaþarsis

Ég fer í fríið nú í kvöld og og verð til tíunda september. Orðið „frí“ felur hér meðal annars í sér „Internetfrí“, svo að ég mun hvorki rita nokkuð inn á þessa síðu né skoða tölvupóstinn minn, sem mér finnst mjög hreinsandi öðru hverju.

Sjáumst!

x x x

Að ferðast með 90 kíló af pappírsblöðum

Mér er sjaldan hrósað fyrir gáfur. Þegar ég fluttist aftur heim til Reykjavíkur frá Lundúnum fyrir nokkru síðan tók ég með mér 97 kíló af farangri, sem mér tókst á yfirnáttúrulegan hátt að klöngrast með í gegnum neðanjarðarlestakerfið og þaðan út á Heathrow. Þrjár ferðatöskur, einn bakpoki, eitt stykki „man purse“-hliðartaska, dúfugítarinn minn og vegabréfið. Svitinn bogaði af mér í svo stríðum sraumum að fólki skolaði aftur út úr lestarvögnunum, svamlandi fyrir lífi sínu, öskrandi.

Ég öðlaðist þó endurvakta trú á tegundarbræður mína og -systur, þar sem ekki brást að í hvert skipti sem ég þurfti að klífa stigaþrep stökk til mín verndarengill, bauðst glaður til að ljá mér fulltingi sitt. „Ekkert mál! Ég skal hjálpa þér.“ En svo þegar verndarengillinn greip um handfang ferðatöskunnar runnu á hann tvær grímur, enda mætti ætla að nú hefði hann komist í tæri við ungan mann sem flakkaði um undirheima Lundúna með ferðatöskur úttroðnar af eðalmálmum.

Innihaldið var annars þetta: götóttar, grænar gallabuxur, tvær sexí skyrtur, þrjú sokkapör, fjórar nærbuxur, fimm bolir, sjötíu bækur, ein ritvél, póstkort frá Vigdísi Finnbogadóttur og vínylplata með Billy Ocean.



Þegar ég gekk í gegnum tollinn heima, – af einhverjum ástæðum er alltaf leitað á mér í tollinum heima, menn setjast niður í mestu makindum með nýlagað kaffi og taka til við að rekja upp sokkana mína, lesa dagbækurnar mínar, máta af mér skyrturnar – spurði einn tortrygginn maður með hökuskegg hvort ég væri nokkuð með nýkeyptar rafeindagræjur í töskunum. Spurningunni fylgdi þungt högg með flötum lófa, heldur glannalegt, í bláa koffortið sem ég hafði keypt á Camden Lock-markaðnum, og högginu fylgdi einkennilegur skjálfti í undirhöku tollvarðarins, mjög ör.

„Ég held ekki. Þetta er sextíu og átta ára gömul ritvél.“

Við þetta svar skalf undirhakan enn hraðar.

Ég lét mér þessa reynslu að kenningu verða. Það hefur alltaf verið vandamál hjá mér á ferðalögum að burðast með of mikinn pappír, bæði eigin minnisbækur og annarra manna skrif, og of lítið af fötum, enda þykir mér gaman að skrifa, gott að vera ber.

En nú er ég að fara í ferðalag á mjög framandi slóðir, óvíst hvort ég snúi aftur óbrenglaður. Og tek með mér lítið af bókum: „Listina að elska“, sem er einhvers konar furðuleg blanda af heimspekiriti og sjálfshjálparbók, ljóðaþýðingar eftir Jóhann Hjálmarsson og svo einhverja leiðinlega enska skáldsögu. Og svo Kyndilinn minn, sem geymir orðið ansi margar bækur. Og hann, elsku Kyndillinn, varð mér einmitt tilefni þessara hugleiðinga.

Þetta er nefnilega sniðug græja á ferðalögum, þótt mér finnist enn heldur dapurlegt að rýna í þennan grámóskulega skjá, sem er á flestan hátt mjög daufleg og „ólífræn“ reynsla. Hins vegar er gott að lesa á skjáinn, þ.e. textinn skýr, og þetta léttir burðinn á langferðum. Með öðrum orðum hef ég tekið þessa veikindalegu, litlu græju í sátt, enda held ég að Stephen Fry hitti naglann á höfuðið með þessu:




Ég veit ekki hvort það sé tilviljun, en ég hef reyndar líka alltaf verið lyftuhræddur maður, kýs heldur að feta mig upp stigagang. Enda ungur enn, fæturnir sprækir, hjartað fullt af ærslum. Ég hugsa þó að lyftur verði síðar hluti af lífi mínu, eða um svipað leyti og ég hyggst byrja að spila gamlingjaíþróttina golf: nánar tiltekið undir lok lífs míns. Og ég ætla að vera orðinn alveg rosalega gamall þegar ég byrja að spila golf.

Viska tepokanna

Tepokarnir mínir eru miklir spekingar.

Tepoki morgunsins sagði: „Friends speak openly with each other.“

Það held ég að sé alveg rétt hjá honum.

Tepoki gærdagsins sagði eitthvað í líkingu við: „Endurance is the talisman of life.“

Það held ég að sé líka alveg rétt.



Tveir líkamar


Tveir líkamar augliti til auglitis
eru stundum tvær öldur
og nóttin haf.

Tveir líkamar augliti til auglitis
eru stundum tveir steinar
og nóttin auðn.

Tveir líkamar augliti til auglitis
eru stundum rætur
samanfléttaðar í nóttinni.

Tveir líkamar augliti til auglitis
eru stundum rýtingar
og nóttin elding.

Tveir líkamar augliti til auglitis
eru tvær stjörnur sem falla
á auðum himni.


– Eftir Octavio Paz, í þýðingu Jóhanns Hjálmarssonar

3.9.12

Leikhúsferðir

Ég hef ekki farið í leikhús síðan ég sá fjögurra og hálfs tíma sýningu um brjálaðan einræðisherra á kambódísku. Það geri ég aldrei aftur.

Sýningin fjallaði um Khmer rouge, eða „Rauðu khmerana“, kommúníska skæruliða í Kambódíu sem náðu völdum þar í landi árið 1975 undir forystu hins klikkaða Pol Pots, sem var, eins og þessi mynd gefur skýrt til kynna, ógeðugur náungi:



Áðurnefnd leiksýning var mjög þreytandi og leiðinleg. Auk þess að skilja ekki orð, þurfti ég að hlýða á konuna sem lék Pol öskra samfleytt í fjórar klukkustundir. Það virtist aldrei hvarfla að henni að leika hlutverk sitt frekar en að öskra það. Rödd hennar var einhvers konar samblanda af rödd og sög.

(Skömmu eftir að ég sá verkið um Rauðu khmerana var mér boðið á fimm klukkustunda leikverk á pólsku, síðan daginn eftir á þriggja og hálfs klukkustunda einleik á spænsku. (Þetta er satt.) Í báðum tilvikum sagði ég pent nei.)

En nú sé ég að það á að setja aftur upp í Þjóðleikhúsinu írskt leikrit sem nefnist „Með vasa fulla af grjóti“. Ég man að ég sá þetta verk í ársbyrjun 2001 og þótti það stórskemmtilegt. Sennilega er þetta ein af mínum eftirminnilegri leikhúsferðum, enda skemmti ég mér oftast ekki í leikhúsi.

En mig langaði sumsé að hvetja fólk til að sjá þetta verk. Sömu leikarar og síðast endurtaka hlutverk sín: Hilmir Snær og Stefán Karl. Ætti að vera skemmtilegt.





Þættir úr daglegu lífi 4#



„Ást á umferðarljósum“

2.9.12

Vitsmuna-masókistinn

Ég er að lesa geigvænlegan 900 blaðsíðna hnullung sem kom fyrst út árið 1945: A History of Western Philosophy eftir Bertrand Russell, en þrátt fyrir að bókin sé í senn bæði læsileg og skemmtileg, reynir lesturinn á þolrifin, sem stafar þó frekar af persónulegum komplexum mínum en annmörkum á smíði Russells. Mitt eintak er úr sextándu útgáfu, gulnað og með hundseyru, mjög fallegt, og ég fann það í lyktríku kjallaragreni fornbókabúðar sem ég held dálítið mikið upp á, en þar hellir eigandinn alltaf upp í mig kaffi um leið og ég birtist inn úr gættinni, brosandi út að eyrum.

Svona leit Bertrand Russell annars út og varla neitt ágreiningsmál að þar fór ákaflega spakur maður:



Hann er mikið öndvegisrit, þessi langhundur eftir Russell, og reyndar mest selda heimspekibók 20. aldar ef mér skjátlast ekki. Ég mæli með henni, einkum fyrir þá sem njóta þess að finna öðru hverju til yfirþyrmandi vitsmunalegrar minnimáttakenndar.



1.9.12

Þættir úr daglegu lífi 3#


Vöðva- og útvarpsmenning Íslendinga


Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að fara í „ræktina“, sem fram að þeirri stundu hafði virkað fullkomlega hlægileg iðja: af hverju ekki að nota bara krana til að lyfta þungum hlutum eða hlaupa þá frekar úti í súld og hraglanda eins og alvöru, íslenskt karlmenni? (Sem ég var þó að sjálfsögðu ekki.) Eftir talsverðar bollaleggingar braut ég loks odd af oflæti mínu, fyrst og síðast af þeirri ástæðu að mig verkjaði statt og stöðugt í bakið, en auk þess óttaðist ég að bágt líkamlegt ásigkomulag horrenglunnar myndi bitna á arnsúg draumóramannsins, og á þessum tíma var mér afskaplega umhugað um að vera bæði einlægur bon vivant og virka jafnframt mjög heillandi intellektúal sama hvernig á mig væri litið. En fyrst þurfti ég greinilega að efla vöðvabyggingu líkamans, sem ég veigraði mér þó við að gera, enda þekkja allir hið þekkta lögmál: þeim mun stærri vöðvar, því minni heili.

Þökk sé knáum vini mínum tókst mér smám saman að læra þau handtök sem tíðkuðust á meðal lóðvitra manna, fyrst skjálfandi eins og piparkökukarl, en síðan gat ég fikrað mig áfram sjálfur um rangala vöðvamusterisins, uns fólk var byrjað að taka andköf af aðdáun þegar ég stökk skyndilega úr sæti mínu á einhverju af kaffihúsum bæjarins, reif mig úr að ofan, skjannahvítur og sætur, gljáandi af hraustlegum svita, og gerði fimmtíu armbeygjur uppi á borði milli ljóða.

Undanfarið hef ég þó ekki getað sótt vöðvamusterin mjög samviskusamlega, enda er ég eins og er staddur í erlendri borg þar sem ég starfa við mjög leynilegt, en jafnframt mjög skemmtilegt, verkefni, og þar kostar ein ferð í líkamsræktarhof hálf mánaðarlaun eplatínslumanns. Þú, lesandi góður, þarft þó ekki að örvænta um horfur búks míns, því að ég er undir þeirri heillastjörnu fæddur að þurfa ekki að gera nema tíu armbeygjur aðra hverja viku til að haldast betur vaxinn en allir þeir karlmenn sem ég hef um daga mína hitt, og það þrátt fyrir að fæðukúrinn hjá mér byggist ekki á öðru en espressóum, stöku vínlögg og skonsum með rabarberjasultu!

Þá kem ég loks að kjarna þessarar greinar, sem er raunar alls ekki grískrar-styttu-líkamsvöxtur minn, heldur þolraunirnar sem ég hef þurft að glíma við á langri armbeygjuvegferð minni í kroppahöllunum, og þá á ég ekki við líkamlegt erfiði, heldur andlegt: að þurfa að hlusta þar á útvarpið.

Þar sem ég fell í hóp þeirra manna sem megna ekki að bora agnarsmáum heyrnartólum djúpt inn í eyrun á mér áður en ég geri tíu aftur-á-bak-heljarstökks-skrúfur í röð á dýnu, hef ég neyðst til að hlusta á útvarpið undanfarin ár, sem væri allt í lagi ef um væri að ræða Rás 1, eða jafnvel Rás 2, eða einhverja kínverska útvarpsstöð þar sem ég skil ekki orð; hins vegar er af einhverjum ástæðum alltaf kveikt á öðrum stöðvum í vígi lóðsins: X-inu, FM957, Flash FM.

Ég fór dálítið að velta þessu fyrir mér um daginn þegar ég stóð á höndum upp við vegg og gerði armbeygjur í handstöðu eins og Rocky gerir í samnefndum kvikmyndum -- þeirri staðreynd að að* þessum útvarpsstöðvum, sem ég nefndi hér að ofan, standa (bissness)menn sem ráða sjálfviljugir í vinnu aðra menn við að tala þar daglangt í hljóðnema, segja allt sem þeir hugsa og þeim býr í brjósti, fyrir laun, raunverulegar peningaupphæðir, á vettvangi sem nær til býsna margra, og samt hef ég aldrei -- og þá er ég ekki að reyna að hljóma áhugaverður, ögrandi eða skemmtilegur -- aldrei heyrt þessa menn segja nokkurt áhugavert, ögrandi eða skemmtilegt.

Á meðan ég velti þessu fyrir mér flögraði hugur menn enn annað – þá var ég hættur að gera Rocky-æfinguna og byrjaður að hlaupa á bretti með 25 kílóa handlóð í hvorri hendi, á 22,5 kílómetra hraða sem er einmitt sá hraði sem mjög góður maraþonhlaupari hleypur á – þarna á ofsahraða á hlaupabrettinu velti ég því sem sagt fyrir mér hvernig skyldi standa á því að frá því að ég byrjaði fyrst að lesa dagblöð, þá tveggja ára, hef ég á hverju ári rekist á grein eftir pattaralegan, „frjálslyndan“ pabbastrák (sem aðhyllist jafnan þá óskilgreindu lífsstefnu „einstaklingshyggja“), þar sem stungið er upp á því að Ríkisútvarpið verði einkavætt, þ.e. gert að sambærilegu batterýi og hinar stöðvarnar, enda skjóti skökku við á 21. öldinni að verja ríkisfjármunum í annan eins óþarfa og menningarstarfsemi. (Mér finnst raunar að pabbastrákurinn pattaralegi – sem við skulum héðan í frá kalla „P.P.“ – hugsi alltof smátt, og ætti miklu heldur að skrifa greinar í erlend blöð, hvetja allt skynugt fólk í útlöndum til að leggja í leiðinni niður ríkisreknar stöðvar á borð við BBC í Bretlandi, RF í Frakklandi, CDF í Þýskalandi, DR í Danmörku, og svo framvegis, þá yrði nú sparað.) Viðkomandi greinarhöfundur, P.P., er ævinlega með bústnar, blóðrjóðar, allt að því fjólubláar, kinnar, hefur greinilega setið oft í mjúkum leðurstólum og borið á sig mikið krem. Ég er ekki sammála tillögum P.P., þótt hann daðri reyndar við vissan sannleika í skrifum sínum, því að hugsanlega mætti breyta – efla – íslenska útvarpsmenningu, en þá á allt annan hátt; það myndi að minnsta kosti skila okkur víðsýnni og lærðari vöðvabollum.



* Já, ég veit: hræðilega ljót tvítekning á „að“, sorrí!