O, jæja, hugsaði ég. Frí máltíð er frí máltíð...
Ég lagði á mig dágott ferðalag, bæði ofan- og neðanjarðar, frá Camdenbæ og að Kingslandvegi 296, rétt hjá Hackney-hverfinu. Á leiðinni týndi ég treflinum mínum. Samkvæmur sjálfum mér náði ég ekki á ákvörðunarstað fyrr en klukkan 20:37, eða rúmum einum og hálfum klukkutíma of seint. Það hvarflaði að mér að skjótast inn í kjörbúð eftir ódýrasta vínglundrinu sem þar stæði til boða, en ákvað að slíkra erinda mætti skjótast síðar ef þörf krefðist, og stóð því brátt fyrir utan Kingslandsveg 296 (sem virtist að hruni kominn), norpandi, vansæll og trefilslaus.
Hurðinni var hrundið upp af fítónskrafti og Þorsteinn kippti mér inn eins og langþráðri póstsendingu. Ég hafði gleymt því hversu langur hann var. Hann var langleitur með langt, liðað hár, langt krákunef og ótrúlega langa fingur, sem hlupu upp og niður bakið á mér þegar hann kreisti mig og kjassaði, eins og við værum gamlir kumpánar úr einhverju þessara stríða sem menn eru alltaf að heyja og hefðum ekki séð hvor annan í háa herrans tíð, báðir komnir með sældarlega bumbu, drykkfellda konu, börn, skuldir, hús, skjaldböku og kött. Augun, mjög löng, hvikuðu hingað og þangað, mjög órólega, eins og í leit að einhverju dýrlegu kraftaverki tilverunnar sem orðið gæti hvar sem er og hvenær sem er og maður þyrfti stöðugt að vera á varðbergi til að missa ekki af því.
„Monsieur Sverrir! Gott að fá þig!“
Hann brosti breitt út að sínum löngu eyrum og það var mjög þröngt þarna í anddyrinu, við vöfðumst hvor um annan eins og amöbur. Hann danglaði kumpánlega í aðra öxlina á mér, alltof fast, og skipaði mér að vaða inn, „helst á skítugum skónum!“, sem hefði ekki verið mikið vandamál fyrir mig, en ég sparkaði þeim nú samt af mér, henti jakkanum á stól og ætlaði að losa um trefilinn, áttaði mig samstundis á því að ég hafði týnt honum og varð mjög hryggur, sem var sálarástand mér ekki alveg ókunnugt. Mér til stórs léttis reyndist ég ekki eini kvöldverðargesturinn. Á stofugólfinu sat á stórri, hippalegri mottu ung stúlka, Alison frá Wales, sem Þorsteinn kynnti fyrir mér sem kærustuna sína (síðar um kvöldið myndi hann hvísla því að mér taugaóstyrkri, titrandi röddu að hann hefði „pikkað hana upp í Reykjavík síðasta sumar“, á skemmtistaðunum Bakkusi, blikka mig síðan og glotta skakkt). Hún vann við að gera þöglar heimildarmyndir og var með ljóst, litað hár.
„Hæ!“ sagði hún og kyssti mig ótrúlega blautum kossi, fyrst á hægri kinn, síðan á vinstri.
Á mottunni sátu einnig tveir ungir menn. Annar hét Robert Fraser, kanadískur strákur sem vann líka við kvikmyndagerð, einkum stutt- og heimildarmyndir, og ætlaði aftur heim til Kanada á næsta ári (þessi saga gerðist og var skrifuð í desember, 2010) til að hefja nám í kvikmyndaskóla í Vancouver og gera áróðursmynd gegn hvalveiðum. Hann var með blíðustu rödd sem ég hafði heyrt. Og hann hlustaði ákaft á allt sem aðrir sögðu. Hlutverk hans í lífinu var fyrst og síðast að leggja til eyru svo aðrir gætu létt á hjartanu. Ég kunni strax vel við hann. Hinn náunginn, Pete, var músíkant og pródúser. Hann spilaði með hljómsveitinni Temmg og var nýkominn heim úr tónleikaferð um Frakkland og Bandaríkin. Hann var með þykka, dökka skeggrót, úfið hár sem var aðeins tekið að þynnast og hipsteralega bjórvömb, greinilega maður sem fór víða og kunni að njóta lífsins lystisemda: víns, eiturlyfja, ferðalaga. Upp úr dúrnum kom að hann hugðist fljúga morguninn eftir til Íslands að hitta þar stúlku nokkra, Unnfríði að nafni, sem hann hafði kynnst fjórum árum fyrr í kajaksiglingu niður Amasonfljótið. Þau höfðu mælt sér mót í Reykjavík og hugðust halda þaðan til Húsavíkur í hús foreldra hennar.*
„Heldurðu að við sjáum norðurljósin ekki pottþétt þarna úti í rassgati?“
„Alveg pottþétt,“ sagði ég.
Þegar hann talaði um þessa Unnfríði lyftist hann upp af gólfinu. Augun ljómuðu eins og tvær stórar ljósaperur. Hann sagði að íslenskar stelpur væru með þann mest „sexí“ enska hreim sem hann hefði heyrt.
„Ólíkt ykkur strákunum. Ykkar hreimur er alls ekkert sexí.“
Þorsteinn barmafyllti glösin af kampavíni. „Ekkert droll! Við erum með níu flöskur og langt á eftir áætlun!“
Við sátum fimm á mottunni í búddastellingu og spjölluðum um það sem ungt fólk spjallar um á meðan það drekkur vín á gólfmottum í búddastellingu. Mér hefur aldrei þótt kampavín gott og því drakk ég tvöfalt hraðar en venjulega. Þorsteinn fyllti á glasið hjá mér eftir hvern sopa. Ég sá fram á örlagaríkt kvöld.
„Ef þú kemur auga á mús læturðu mig vita,“ sagði Þorsteinn.
„Þær eru algjör plága!“ Alison tók vænan, dapurlegan sopa af kampavíninu. „Mér var sagt að mannúðlegast – dýrúðlegast – væri að drekkja þeim.“
„Svo að ég drekki þeim,“ bætti hún við og hikstaði.
„Það er hræðilegt!“ Ég gat ekki hugsað mér verri dauðdaga en að drukkna, nema þá kannski ef stærðarinnar risi sliti mig í sundur.
„Jamm, kannski er það ómannúðlegt – ódýrúðlegt,“ sagði Þorsteinn. „Ég lem þær yfirleitt bara í köku.“
„Einu sinni kom hann heim blóðugur á höndunum,“ sagði Alison stolt. „Við mætum þeim oft frammi á ganginum.“
„Það er líka hálfgerð illska að drepa þær ekki,“ skaut Þorsteinn inn, þungbrýnn. „Því að þá er maður í rauninni að segja: Ekki mitt vandamál, ég læt nágrannann bara sitja uppi með þetta. Nei, það verður að drepa þær!“
„Af hverju segirðu að betra sé að drekkja þeim?“ spurði Robert Fraser, áhyggjufullur.
„Því fylgir sælutilfinning að drukkna,“ sagði Alison. „Ég hélt að það vissu nú allir. Líkaminn dælir endorfíni um allan kroppinn.“
„Sumir eru háðir því að drekkja sér,“ sagði Þorsteinn.
„Þeim finnst það æðislegt,“ sagði Alison.
Robert Fraser kunni augsýnilega ekki að meta þessar hugleiðingar og breytti því um umræðuefni: „Er einhver rökrétt ástæða fyrir því að Christian Slater er ekki vinsæll lengur?“ spurði hann, feimnislega.
Við héldum áfram að vinna á kampavíninu og ræddum um hrap Christians Slater af stjörnuhimninum og ég hugsaði um mýsnar. Ég vorkenndi þeim. Á einhverjum tímapunkti varð mér litið framan í Alison (sem var að ræða við Robert Fraser um ljóðrænar heimildarmyndir sem fjölluðu um – heyrðist mér – sokka) og fannst hún raunar ekki svo ólík mús. Hún var með dálítið útskagandi framtennur og skaut höfðinu reglulega fram á meðan hún talaði. (Nei, þau voru að ræða ljóðrænar heimildarmyndir um – ekki sokka – heldur Ingvar Kamprad, stofnanda IKEA.) Ég sá fyrir mér litlar mýs í vatnsfylltum bala, svamlandi fyrir lífi sínu. Úr plötuspilaranum flæddi rispuð Dixieland-tónlist.
Pete reyndist vera einn af þessum tónlistarmönnum sem vita allt um snúrur. Hann rak ásamt lesbíupari stúdíó á Gamlastræti. Þegar ég sagði honum að ég semdi lög og texta lyftist hann upp af gólfinu.
„Þá verðurðu að koma einhvern tímann við og taka upp lag eða tvö. Söngur á íslensku er það fallegasta sem ég veit. Mjög sexí.“
„Já, ég er kannski ekki alveg þannig söngvari,“ sagði ég. „Ég get eiginlega bara sungið eina nótu.“
„Hvaða nótu?“
„F#.“
„Ókei. Ég hef aldrei heyrt F# sungna á íslensku.“
„Þá er ég þinn maður.“
Við borðuðum sojabollur með heimagerði karrýsósu og spaghettí í súrsætri sósu með sojabollum.
„Ég gæti aldrei hugsað mér að borða dýr,“ sagði Alison.
„Ekki ég heldur,“ sagði Þorsteinn.
Ég sá þau fyrir mér berja litlar mýs til dauða, útbíuð í engifertægjum, grískri jógúrt og quinoa, og tók eftir því að ég borðaði þrisvar sinnum hraðar en Robert Fraser. Hann sat við hlið mér og tuggði hvern bita af natni. Hann gerði ekki upp á milli munnbita, heldur tuggði þá alla jafn hratt, jafn oft, jafn ástúðlega.
„Trúir fólk almennt á álfa á Íslandi?“ spurði hann, dreyminn.
„Kannski í sveitinni,“ sagði ég. „Ég veit ekki hvernig þetta er í sveitinni.“
Þegar kampavínsflöskurnar kláruðust opnuðum við hvítvínsflösku. Þegar hvítvínsflaskan kláraðist opnuðum við rauðvínsflösku og þegar rauðvínsflaskan kláraðist opnuðum við ginflösku og þegar ginflaskan kláraðist sagði Þorsteinn: „Nú þurfum að fara út í búð að kaupa rommflösku!“
„Ég kem með þér,“ sagði ég.
Við hlupum út í Tesco á horninu. Kuldinn streymdi niður hálsmálið á mér eins og eins og ísköld vatnsbuna.
Þorsteinn trúði mér fyrir því að hann væri að skrifa bók. „Ég er næstum búinn með fjórðung. Þá ætla ég að senda bókina á útgáfufyrirtækið heima og biðja þá um að gefa mér peninga til að klára hana.“
„Jahá. Finnst þér það ekki skelfileg bölvun að þurfa stöðugt að skrifa?“
„Nei, mér finnst það æðislegt.“
„Ég hata flest sem ég skrifa.“
„Ég elska ALLT sem ég skrifa.“
Inni í Tesco kippti ég ódýrri flösku af Beaujolais úr hillunni. Við búðardiskinn bað Þorsteinn um þrjár Jack Daniels-flöskur til viðbótar. Hann fálmaði iðandi eftir aurum í vösum frakka síns, sem flaksaðist í kringum hann eins og skikkja, en hendurnar stungumst beint í gegnum götótta vasana.
Þar fór fría máltíðin, hugsaði ég.
Þegar við snerum aftur inn hafði Alison sofnað áfengisdauða á gólfmottunni.
Þorsteinn var orðinn svo fullur að ekkert sem hann sagði væri hægt að rita án upphrópunarmerkis. „Ég sit í herberginu mínu allan daginn og skrifa! Ég hitti aldrei neinn! Förum út á eftir og GERUM eitthvað! Hey, Pete, tökum kókaín!“
„Ef þú átt kókaín skal ég taka kókaín,“ sagði Pete. „Annars þarf ég að vakna snemma í fyrramálið.“
„Ég á ekki kókaín! En ég á klaka!“
Pete stóð upp til að ná í klaka fyrir rommið. Á meðan rogaðist Þorsteinn með Alison, víndauða og hrjótandi, á herðunum niður stigann að rúminu þeirra, eins og kartöflupoka. Um leið og hann sendi frá sér yfirlýsinguna: „Ég ber hana bara niður!“ skriplaði honum fótur á skítugum sokk í fjórða þrepi og steyptist niður brattann, með kærustuna sína skoppandi á bakinu, enn sofandi.
Þegar hér var komið sögu óskaði ég þess af öllu hjarta að ég væri með minnisbókina mína. Ég geng alltaf með minnisbók. Á morgnana klæði ég mig í nærbuxurnar og tek síðan upp minnisbókina. En þetta kvöld var ég minnisbókarlaus og hafði týnt treflinum mínum.
„Við erum ókei!“ heyrðist kallað af neðri hæðinni! „Engar áhyggjur, vinir! Við erum ókei!“
Pete hafði kveikt sér í jónu. Hann skenkti öllum romm, líka Alison, þótt hún virkaði ekki líkleg til stórræða, hrjótandi á neðri hæðinni. Ég heyrði músaþrusk inni í veggjunum.
Þorsteinn brölti upp stigann, vankaður.
„Ha, ha, ha,“ sagði hann. „Nú er partí!“
Við drukkum rommið og töluðum um þögnina sem listrænt hugtak, umræðuefni sem Robert Fraser hafði bryddað upp á, mjög feimnislega.
Eftir hálftíma sagði Pete: „Jæja, ég vil ekki missa af fluginu í fyrramálið,“ og bjóst til brottfarar. Þegar hann faðmaði mig strukust skeggbroddarnir við hálsakotið á mér og ég flissaði eins og japönsk skólastelpa.
„Þá erum það bara við þrír! Gengið!“ sagði Þorsteinn þegar Pete var farinn á vit íslensku ástarinnar. „Nú málum við bæinn rauðan!“
Ég og Robert Fraser reyndum að koma honum í skilning um að eftir miðnætti á miðvikudagskvöldi væru allir pöbbar lokaðir.
„Verið ekki svona svartsýnir! Ég sit í herberginu mínu allan daginn og geri aldrei neitt! Við erum á leiðinni ÚT!“
Hann hrinti okkur í átt að útidyrunum, með sínum löngu handleggjum.
„Bíðið á meðan ég næ í peninga!“
Hann hrúgaði 20 punda-seðlum í götótta frakkavasana.
„Væri ekki nær að þú stingir þessu frekar í buxnavasana?“ spurði Robert Fraser, mjög kurteislega.
Við ráfuðum lengi um nágrennið, en játuðum okkur loks sigraða og tókum stefnuna aftur heim, loppnir af kulda.
Við gengum aftur upp Kingsland Road, sem var óralöng gata og teygðist nú út í hið óendanlega. Mér var svo kalt á hálsinum að ég gat ekki hugsað um neitt annað en týnda trefilinn minn.
Lundúnir litu út eins og uppvakningar hefðu gert þar innrás og annaðhvort hrakið burt íbúana eða drukkið úr þeim heilann.
Þorsteinn pírði augun tryllingslega í allar áttir. „Hey, þarna inni logar ljós! Ég heyri raddir! Fólk er að halda partí!“
„Þetta er ung móðir að vagga barninu sínu í svefn,“ hvíslaði Robert Fraser.
Skömmu síðar gekk á móti okkur langur og mjór blökkumaður. Hann var klæddur í óásjálegan hermannajakka og dró annan fótinn þegar hann gekk. Þegar hann kom auga á okkur hýrnaði yfir honum.
„Hey, strákar! Hæ, hæ! Viljið þið kaupa af mér alsælu?“
Ég og Robert Fraser hristum höfuðið. Við héldum áfram að ganga. Eftir tíu, fimmtán skref rann upp fyrir okkur að Þorsteinn var ekki lengur við hliðina á okkur. Við litum um öxl og sáum að hann stóð á spjalli við slánann. Síðan glennti hann upp munninn og ullaði. Sláninn lagði pillu á hina löngu tungu Þorsteins. Þorsteinn kyngdi.
„Vinur! Þú færð þessa prufu frítt,“ sagði blökkumaðurinn. „Og tvær í viðbót á tíu pund!“
Þorsteinn lét hann fá tuttugu punda-seðil.
„Ég á ekki tíu-punda seðil til að gefa til baka,“ sagði dópsalinn. „En ég læt þig þá bara fá fjórar pillur í staðinn!“
Hann rétti Þorsteini fjórar pillur.
„Nei, ég vil bara tvær. Láttu mig fá tíu pund til baka.“
„Félagi! Ég á ekki tíu punda-seðil!“
„Þú skuldar mér tíu pund.“
„Ég get ekki gefið þér til baka, félagi! En heyrðu! Ég læt þig bara fá tíu pund næst þegar við hittumst! Ég er alltaf hér á ferðinni, félagi! Engar áhyggjur, félagi! Og þú mátt samt fá fjórar pillur núna.“
„Nei, ég vil fá tíu punda-seðil til baka. Núna.“
Þeir stóðu nú svo þétt hvor upp við annan að nefbroddarnir snertust. Þorsteinn hallaði sér aftur og stangaði slánann, sem stangaði á móti. Þeir æptu báðir af sársauka. Síðan féllu þeir í götuna og veltust þar um í sorglegum glímubrögðum. Ég og Robert Fraser hlupum til þeirra og veltum slánanum klaufalega af Þorsteini.
Sláninn tók höltrandi á rás út í nóttina.
„Fávitar!“ kallaði hann. „Helvítis geðsjúku fávitar!“
Þorsteinn brölti á fætur og ráfaði fram og aftur um gangstéttina, viti sínu fjær af geðshræringu. „Andskotinn,“ sagði hann. „Helvítis fífl! Hann tók peningana mína. Og hann lét mig gleypa pilluna!“
Hann þuldi þetta í sífellu: „Hann lét mig gleypa pilluna! Hann lét mig gleypa pilluna!“
„Hvað varstu að spá?“
„Hann lét mig gleypa pilluna!“
Hann ráfaði inn í skuggalegt húsasund. Þar stakk hann löngum fingri sínum niður í kokið, langt og þrútið, og kúgaðist. „Hann lét mig gleypa pilluna!“ umlaði hann á milli þess sem hann seldi upp. Robert Fraser stumraði yfir honum og klappaði honum á bakið, af móðurlegri umhyggju. Brátt streymdu matarleifar og vín í óslitinni bunu á stéttina.
„Svona, já,“ sagði Robert Fraser. „Láttu þetta gossa. Svona, já. Einmitt svona. Já. Svona.“
Við náðum að drösla gestgjafa okkar aftur að inngangi íbúðarinnar. Á dyraþrepunum missti hann lykilinn að minnsta kosti tíu sinnum áður en Robert Fraser tók að sér að opna dyrnar.
Þorsteinn valt inn um anddyrið, hnaut um körfubolta og steyptist kollskít inn á mitt stofugólfið. Þar stóð hann samstundis upp og sagði: „Hann lét mig gleypa pilluna!“ Síðan rak hann sig í hvert einasta glas á gólfinu.
Við Robert Fraser fylgdum honum niður stigann.
„Ég er farinn að sofa,“ tilkynnti hann þegar við stigum inn í svefnherbergið.
Hann klæddi sig úr öllum fötunum.
„Góða nótt.“
„Ehm. Góða nótt.“
Hann lompaðist á rúmið og lá þar nakinn ofan á Alison, sem hvíldi stjörf undir sænginni. Rassinn á Þorsteini var mjög hvítur í ljósastaurabirtunni sem lýsti inn um gluggann.
„Ég held ég fari líka að sofa,“ sagði Robert Fraser.
„Ég líka.“
Við sátum andartak þöglir hlið við hlið á gestadýnunni. Svo – eins og eftir handriti – byrjuðum við báðir að hlæja.
Ég lagðist á dýnuna. Robert Fraser fylgdi fordæmi mínu, lagðist andfætis við mig. Ég leit til vinstri, á tærnar á honum. Þær krepptust, svo slaknaði á þeim, ég heyrði hrotur.
Handan við fæturna, inn af baðherberginu, barst tíst. Ég pírði augun og leit undir vaskinn, sá þar litla, óttaslegna mús skima í kringum sig. Vatnsdropar drupu úr krananum niður í vaskinn og mynduðu reglubundinn takt. Andartak horfðist ég í augu við músina. Fyrir ofan hana hélt vatnið áfram að dropa í vaskinn. Robert Fraser hraut eins og sögunarmylla og ég leit aftur til hægri á rassinn á Þorsteini sem var orðinn enn hvítari í ljósastaurabirtunni og mér fannst ég næstum heyra hjarta þessa litla, skelkaða nagdýrs vinstra megin við mig slá í takt við driplið og ég lokaði augunum og sá aftur fyrir mér mýs sem svömluðu fyrir lífi sínu í bala fullum af vatni. Ég hugsaði um sælutilfinninguna sem fylgir því að drukkna, fann áfengið svífa aftur á líkamann, og þegar ég opnaði augun var músin horfin.
* Ég komst síðar að því að Unnfríður er frænka gamals vinar míns, Herberts Á. Óskarssonar, blaðamanns. Eftir því sem ég best veit er Pete enn á Íslandi.