11.9.12

Fjarskipti


Það kemur þér á óvart að rekast á ljósmynd af sjálfum þér í stórri yfirlitsbók um kvikmyndir, Cinema Now, þar sem þú ert í hlutverki rómverskru stríðshetjunnar Aemiliusar Luliusar Licinianusar. Þú ert með herskáan glampa í augum og samanbitnar, blóðugar tennur, en spennir greipar um voldugt sverð, færður í skínandi gullpils og gylltan hjálm. Kvikmyndin ber titilinn Fists of Glory, eða Dýrðarhnúar, og var gerð árið 2009 í Hollywood. Þangað minnistu þess ekki að hafa komið.

Á síðum Cinema Now eru Fists of Glory helgaðar fimm síður. Þar gefur að líta fjölmargar smærri ljósmyndir – þú kemur fyrir á þeim flestum – af stórfenglegum orustusenum frá blómaskeiði rómverska heimsveldisins. Á einni þeirri stekkurðu á fáki út úr logandi húsi, með grátandi konu í fanginu:



Í meginmálinu stendur að þú hafir hlotið Golden Globe-verðlaun fyrir leik þinn í myndinni, auk tilnefningar til Óskarsverðlauna. Þá er tekið fram og og skáletrað að þú hafir slegið öll fyrri launakröfumet í Hollywood.

Bókin Cinema Now var afmælisgjöf frá frænku þinni. Þú reynir að hringja í hana til þess að grennslast fyrir um málið, en hún svarar þér ekki. Þú leggur á og skimar eftir Golden Globe-verðlaunastyttunni, en sérð hana hvergi.



Þú hnýtir á þig skóna og ferð í jakkann. Örlítill úði fellur af himni, svo að þú tekur með þér regnhlíf.

Þú spennir regnhlífina upp um leið og þú stígur út; í sömu andrá fer um þig römm vindhviða og feykir regnhlífinni út í buskann.

O, jæja, hugsarðu. Ég get nú alltaf keypt nýja regnhlíf.



Þú arkar af stað út á vídjóleigu og gengur fremur hratt fram hjá langri þyrpingu dökklitra trjáa, sem af einhverjum ástæðum minnir þig á hóp af bíræfnum þorpurum.

Á vídjóleigunni húkir bústinn karl með æðsprungnar kinnar á bak við afgreiðsludiskinn. Stelpa með tíkó blæs tyggjókúlur og sópar gólfið svo letilega að þig syfjar. Þú geispar og teygir úr þér, kæruleysislega.

„Komið þið sæl,“ segirðu.

„Já, daginn,“ segir sá feiti.



Stelpan blæs tyggjókúlu sem springur með gjöllum hvelli.

„Eigið þið nokkuð kvikmyndina Fists of Glory?“

„Amm, auðvitað. Hún er þarna.“

Sá feiti bendir á rekka fullan af kvikmyndum. Hakan sekkur djúpt í brjóstkassann og axlirnar renna saman við slapandi kinnarnar. Fyrir ofan rekkann hangir borði með nafninu þínu. Í rekkanum eru að minnsta kosti sjö eintök af Fists of Glory, auk annarra mynda með þér. Þú lest nokkra titla af handahófi: Macho Priest, Alligator Confidential, Private Mongo, La Petite Lune.

Þú rennir lauslega yfir aftanátextann á nokkrum hylkjum. Síðan ferðu með Fists of Glory að afgreiðsluborðinu og brosir vandræðalega til stúlkunnar.


Þegar heim er komið popparðu og hellir kóki í bjórglas. Myndin hefst á yfirlitsmynd af Rómarborg. Síðan þrengist sjónarhornið hægt að ofan uns linsan staðnæmist við andlit þitt. Við tekur örlagaþrungin saga af stríðshetju sem sprangar ýmist um orustuvöllinn eða hangir í baðhúsum Rómarborgar.



Þér leiðist myndin. Besta senan þykir þér vera ástarsenan með Charlize Theron. Þú spólar til baka og horfir á hana þrisvar sinnum í röð.

Poppið er búið og þig langar í harðsoðin egg. Þú opnar ísskápinn og sérð að eggjahólfið er tómt. Þú bræðir með þér að skjótast út í búð, skýst á klósettið og rekst á köttinn þinn í vaskinum. Þú sturtar niður og fyllir skál kattarins af fóðri, en hann hunsar þig og kúrir áfram undir krananum, svo að þú getur ekki með góðu móti þvegið þér um hendurnar.

Þegar þú gengur fram í anddyri til að fá þér ferskt loft sérðu að nýjasta útgáfa af Time er í bréfalúgunni: Þú ert á forsíðunni.



Þú gleymir öllum áformum um að kaupa egg, dregur eintakið úr lúgunni og sest fram í stofu til að lesa greinina um þig.


(2010.)