30.9.12

Mitt fólk

Íslendingar geta – rétt eins og fólk af öðru þjóðerni – verið ákaflega forpokaðir og smásálarlegir.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV, gerist til dæmis sekur um algenga og frekar þreytandi rökvillu í nýlegum skrifum sínum. (Færslan heitir „Að fyrirlíta Íslendinga“.)

Jónas fer ekki fögrum orðum um íslenska stjórnsýslu (skiljanlega). Eins talar hann illa um samlanda sína. Hann segir meðal annars:

„Kjósendur blessa svínaríið með því að haga sér eins og fífl. Maður fer að skammast sín fyrir að vera Íslendingur og endar með að fyrirlíta þjóðina, sem leyfir svínaríið.“

Mér þykir auðvitað, eins og öðrum sem lesa þetta brot, fallegra að rita „[k]jósendur [...] hegða sér eins og fífl“, en það er önnur saga (og hvorttveggja auðvitað ókei).

Það sem ég hegg fyrst og síðast eftir er hversu barnaleg fullyrðingin er.

Ef við tökum orð Jónasar enn frekar úr samhengi og skoðum einungis fyrri málsgreinina – „Kjósendur blessa svínaríið með því að [hegða] sér eins og fífl“ – vakna ýmsar spurningar. Hvaða kjósendur eru það nákvæmlega sem hegða sér eins og fífl? Allir kjósendur, geri ég ráð fyrir. Og hvað felst þá í því að hegða sér eins og fífl? Svína fyrir aðra á rauðu ljósi og segja kærustunni sinni upp með sms-i, meðal annars.

Síðari hlutinn – „Maður fer að skammast sín fyrir að vera Íslendingur og endar með að fyrirlíta þjóðina, sem leyfir svínaríið“ – vekur enn fleiri álitamál í annars hægvirku höfði mínu.

Við getum byrjað á að gera ráð fyrir því að nafnorðið „maður“ vísi hér til Jónasar.

Jónas er því þessi „maður“ sem skammast sín.

Þá fæðist næsta spurning:

Hvað telur Jónas að felist í því að vera Íslendingur?

Í fyrri hluta færslunnar gefur hann vísbendingu:

„Hvar, sem ég lít, vellur spilling, græðgi og heimska. [Þið takið eftir því að Jónas virðist ferðast um land sitt sem e.k. alsjáandi, réttsýnt auga.] Embættismenn, staðnir að heimsku og spillingu, rotta siga saman um lögbann og kærur til lögreglu. Slitastjórnarmenn fara hamförum í græðgi. Gömlu útrásarbófarnir sem komu þýfinu til aflandseyja eru komnir aftur með hjálp Seðlabankans. [Ég þekki nokkra stráka sem vinna í Seðlabankanum.] Kvótagreifar stjórna Morgunblaðinu [Morgunblaðið – kemur það enn út?] og Sjálfstæðisflokknum til óhæfuverka. Verkfræðingar og vísindamenn [allir verkfræðingar og vísindamenn] komast ætíð [NB: ætíð.] að niðurstöðum, sem henta bófum.“

Af þessari klausu má ráða að dæmigerður Íslendingur er – í huga Jónasar – spilltur embættis- eða slitastjórnarmaður, gamall útrásarbófi, kvótagreifi, verkfræðingur eða vísindamaður.

Auk þess kjósandi og fífl, auðvitað.

Þetta þurfum við að skoða betur.

Ég þekki nokkra kjósendur.

En þekki ég fífl?

Sárafá, ef nokkur. Mín reynsla styður frekar þá kenningu að fólk sé almennt ágætt inn við beinið (þótt það hegði sér kannski stundum eins og fífl, auðvitað).

Verkfræðinga og vísindamenn þekki ég nokkra, en ekki veit ég hvaða „niðurstöður“ það eru sem þeir komast – NB: allir, ætíð – að, bófum til heilla. En þetta getur Jónas sjálfsagt útskýrt.

Þá eru eftir þrír hópar (ef ég x-a í svigann merkir það að ég þekki fólk úr eftirfarandi hópum, annars ekki):

Slitastjórnarmenn        (  )
Gamlir útrásarbófar     (  )
Kvótagreifar                (  )

Af þessu fæ ég ekki annað ráðið en að Jónas leggi allt aðra merkingu í hvað felist í því að vera Íslendingur en ég.

Yfirlýsingar hans hljóma líka dálítið eins og hann hafi aldrei stigið út fyrir landsteinanna. Heldur einhver, í raun, að spillta stjórnmála- og valdamenn sé einungis að finna á Íslandi? Ef hann ætlar að miða álit sitt á mannkyninu við framferði valdafólks ætti hann að færa út kvíarnar og ekki láta við það sitja að fyrirlíta Íslendinga, heldur hata allt mannkynið.

Ég held reyndar að stærsta ástæða íslensks embættismannaklúðurs sé ekki illska, spilling eða græðgi, heldur ónóg þekking, almennur bjánaskapur og vanhæfni. Við höfum vaxið mjög hratt sem þjóð og í íslensku stjórnkerfi eru sárafáir, ef einhverjir, sem vita hvað þeir eru að gera.

Þetta þýðir þó ekki að Íslendingar séu fífl. Og ég biðla til Jónasar – af virðingu og von um skilning – að hann kalli foreldra mína, vini, bræður, ömmur, ættmenni, fyrrverandi kærustur, kunningja, drykkjufélaga, gamla skóla- og fótboltafélaga, ekki fífl, einungis vegna þess að í íslenskum valdastöðum finnast manneskjur sem aldrei hafa sest niður til að gera ærlega hreingerningu í sálarkirnunni, ólíkt mínu fólki. Því mitt fólk er hið ágætasta fólk og ég líð ekki að það sé kallað fífl af þeim sem hafa ráfað svo langt inn í einstræti stjórnmálaþófsins að þeir sjá ekki heiminn eins og hann er í raun: stærri en svo að við getum vísað til fólks sem „kjósenda“ og af blygðunarlausu yfirlæti stimplað það fífl, án þess að taka afleiðingunum.

Því að sá sem talar svona hlýtur sjálfur að uppskera fyrir vikið annan og verri stimpil: mannhatari.