Það hvarflar ekki að mér að koma kynbræðrum mínum til varnar, til þess finn ég ekki til nógrar samstöðu með þeim. Þó langar mig að skjóta því inn í umræðuna hversu ógeðslegar íslenskar stelpur geta líka verið. Bara svona til gamans!
Oft er til dæmis kvartað yfir því að íslenskir karlmenn séu svo ágangsharðir með krumlunum að ölkærum stúlkum sé hvergi vært. Þetta er án alls vafa rétt, þótt ég hafi sem betur fer aldrei fengið að kenna á groddaskap þeirra, enda túlkar fólk mig oftast ekki sem kvenkyns. (Með fáeinum undantekningum þó.)
Á hinn bóginn hef ég margoft lent í því að fílefld kvenkrumla grípur þjösnataki um aðra hvora rasskinnina á mér, stundum af slíkum ofsa að orkan sem leysist skyndilega úr læðingi nægir til þess að líkami minn fleytir kerlingar eftir bjórlöðrandi dansgólfinu.
Ýmsir samferðamanna minna hafa sömu sögu að segja.
Þar sem ég vil ekki að hafa þessi orð mjög mörg vík ég bara strax að kjarna málins, sem er reyndar giska einfaldur:
Vandinn er sá að íslenskur almenningur hegðar sér almennt eins og tímgunaróðar skepnur á strætunum við öldurhúsin. Það er engan veginn einskorðað við ljótara kynið. Sá sem enn er haldinn barnslegum ranghugmyndum um dularfullan og töfrum slunginn þokka kvenna þarf ekki að gera annað en leggja leið sína um miðbæ Reykjavík síðla helgarnætur.
Lokapunktur í tengslum við kynjaumræðunana sem grasserar vítt og breitt um íslenska vefheima ætti því kannski að vera þessi: Í okkur öllum býr bæði stelpa og strákur, þótt misgrunnt sé á hvoru þeirra. Og öll ættum við að sýna hvert öðru lágmarksvirðingu, helst rúmlega það.