18.9.12

Að eima skáldsögur

Baltasar Kormákur hefur gert nokkrar fínar myndir. Og nú segja allra-málefna-vitringar á borð við Illuga Jökulsson og Egil Helgason að nýjasta mynd hans, Djúpið, sé „fín“, „afar sorgleg og hetjuleg“, „lágróma og einlæg“.

Eins og flestir vita fjallar myndin um selmennið Guðlaug sem vann þá ómannlegu þrekraun að synda sex klukkustundir í söltum sjó og ná loks landi í Vestmannaeyjum, þar sem hann óð klettaskorna strönd og síðan hraun til byggða, nær dauða en lífi. Guðlaugur setti sig víst ekki upp á móti gerð myndarinnar, en kom heldur hvergi nálægt henni, og svo svífur yfir vötnum minningin um skipfélaga hans sem drukknuðu þessa hræðilegu nótt. Því er vonandi að Illugi og Egill hafi rétt fyrir sér og vel hafi tekist til, enda um að ræða viðkvæman atburð sem allir Íslendingar þekkja.


Áðan las ég svo að Baltasar – hugsanlega ölvaður af velgengni sinni og (verðskulduðu) lofi – ætli sér að gera kvikmynd um sjálfa „bók íslenskra bókmennta“, Sjálfstætt fólk. Það verk hefur reyndar aldrei staðið mér neitt sérstaklega nærri, þótt ég viðurkenni fúslega að um „meistaraverk“ sé að ræða í ýtrustu merkingu þess orðs, án þess að skilja þó nákvæmlega hvað ég eigi við með því.

En þótt textinn sé (náttúrlega) magnaður, höfðar sagan ósköp lítið til mín. Bjartur er frekar leiðinlegur fauskur og bókin svo alltof löng. Mér finnast aðrar bækur eftir HKL miklu skemmtilegri; til dæmis Dagar með munkum. Síðan er Skáldatími fjörugur, enda Halldór svo skemmtilega hrokafullur og ástfanginn af sjálfum sér. Eina bókin eftir hann sem er virkilega spennandi sem saga (og byggist ekki 90% á stílsnilld) er Salka Valka. Ég held að hún myndi henta hvíta tjaldinu miklu betur, enda spratt hugmyndin fyrst í kolli Halldórs sem kvikmyndahandrit: „A Woman in Pants“, ef ég man rétt – sjálfsagt mjög ögrandi titill í þá daga. Þá ætlaði Halldór sér að slá í gegn í Hollywood, sem gekk – sem betur fer – ekki eftir. Gaman væri ef Baltasar tæki frekar upp það kefli.

Mér finnst annars alltaf eitthvað pervískt við þá tilhneigingu manna að eima 500 blaðsíðna skáldsögu niður í 100 mínútna bíómynd; það er eins og að ætla sér að búa til eina fljótgleypta samloku úr þrjátíu rétta hlaðborði og kalla samlokuna síðan „hlaðborð“. Þessu mæti snúa við: hver tekur að sér að skrifa 500 blaðsíðna skáldsögu upp úr 100 mínútna bíómynd?


Enginn!

Og þegar ég fer að ímynda mér Sjálfstætt fólk sem bíómynd gerða á öðrum áratug 21. aldar kvisast af einhverjum ástæðum um mig ískaldur kjánahrollur. Íslenskt kvikmyndagerðarfólk er sérstök tegund af mannfólki, og sjálfsagt andhverfa harðgerðra, íslenskra bónda, sem er önnur tegund af mannfólki.

(Sem á auðvitað ekkert að koma í veg fyrir að myndin verði gerð – Spielberg veit sjálfsagt ekkert um hvernig það er að vera geimvera sem strandar í smábæ í Bandaríkjunum.)

Ég sé fyrir mér stikluna (trailer-inn): „Þessi jól“ – árið er 2015 eða eitthvað – „mun þvermóðskufullur bóndi læra lexíu ævi sinnar...“

Sviphvass, veðraður maður stikar lotinn yfir þúfur og mela við draumkennda tónlist eftir múm. Í kringum hann skoppar sprækur hundur, sem flaðrar ákaflega upp um bóndann, en uppsker ekkert nema ávítur og tóbaksfruss.

Og yfir skjáinn færist textinn: SJÁLFSTÆTT FÓLK!

Klippt: og nýtt lag, að þessu sinni poppaðra, eftir Mugison. Anna Sóllilja brosir; sólskinsgeisli lýsir upp fagurt andlit hennar.

Kannski Mugison gæti jafnvel leikið Bjart?


Ég held að smásögur henti – af augljósum ástæðum – miklu betur til kvikmyndaaðlögunar en skáldsögur.

Dæmi um vellukkaðar bíómyndir eru til dæmis The Shawshank Redemption (sem skrifuð var út frá Rita Hayworth and Shawshank Redemption eftir Stephen King, sögu sem flokkast reyndar sjálfsagt frekar sem nóvella en smásaga) og Memento, en þar samdi leikstjórinn Christopher Nolan handrit út frá ágætri smásögu eftir bróður sinn, Jonathan, og gerði þar með sína einu góðu mynd. Og svo var Ungfrúin góða og húsið ágæt, en hún var einmitt byggð á langri smásögu, eða nóvellu, eftir HKL.


Annars verður gaman að sjá hver afraksturinn verður.

Fyndnast er að hugsa til þess þegar letihaugar í framhaldsskólum þreyta íslenskupróf eftir nokkur ár: „Lastu Sjálfstætt fólk?“ „Nei, maður, ég horfi bara á myndina.“