23.9.12

Brjóstumkennanlega dópsalagengið

       Til heiðurs öllum regnvotum, beinköldum dópsölustrákum

Í götunni minni stundar dópsalagengi eitt starfsemi sína, nótt sem nýtan dag. Liðsmenn þess eru hræddir töffarar með hettur, ungir að árum, raddirnar enn skrækar, leitandi og karakterlausar, hlátrasköllin tíð og hvell og af þeim toga sem gera öll vitsmunaleg störf hlægileg. Þess vegna fylla þeir mig mjög oft mjög tilvistarlegri angist: þá langar mig að hlaupa út og sparka þeim út í hafsauga. En ég geri það ekki, vegna þess að ég er góður strákur.

Eftir að hafa hlustað á þá pípa og gala og prumpa í allt kvöld fékk himinninn hins vegar nóg, að minnsta kosti skolaði hann þeim burt, mjög snögglega.

Og nú eru þeir horfnir, allir nema einn, sem hímir þarna kuldalegur, skjálfandi á götuhorninu, yfirgefinn, einmana, í úrhellisregninu.

Áðan vorkenndi ég honum svo sárlega að það hvarflaði að mér að bjóða honum hingað inn í hlýjuna, hella jafnvel upp á te handa greyið skinninu. Samstundis áttaði ég mig þó á því að það gengi aldrei upp, enda má ekki jaska hinu stóra jafnvægi hlutanna, einhver þarf að standa dópsalavaktina, jafnvel í þrumuveðri.

Aumingja, aumingja, brjóstumkennanlegi, litli dópsalinn í brjóstumkennanlega, litla dópsalagenginu.