18.9.12

Vondur skáldskapur, verri selskapur


núorðið halda mýsnar
að við búum saman í þessari íbúð

„ég er sá
sem greiði leiguna!“ æpi ég
og steyti að þeim hnefann

ein býr inni á baðherbergi
önnur gerir morgunæfingar
í þvottakörfunni

sú þriðja fylgir mér út úr húsi
þegar ég fer í spekingslega göngutúra á morgnana

ég leyfi þeim að lepja te
úr keramikpotti
bý til nöfn á þær:
    ólafur liljurós
    selma lagerlöf
    ahab skipstjóri

á næturnar stíga þær
dans á tökkum ritvélarinnar
og borða
bestu uppköstin mín