Ég hef ekki farið í leikhús síðan ég sá fjögurra og hálfs tíma sýningu um brjálaðan einræðisherra á kambódísku. Það geri ég aldrei aftur.
Sýningin fjallaði um Khmer rouge, eða „Rauðu khmerana“, kommúníska skæruliða í Kambódíu sem náðu völdum þar í landi árið 1975 undir forystu hins klikkaða Pol Pots, sem var, eins og þessi mynd gefur skýrt til kynna, ógeðugur náungi:
Áðurnefnd leiksýning var mjög þreytandi og leiðinleg. Auk þess að skilja ekki orð, þurfti ég að hlýða á konuna sem lék Pol öskra samfleytt í fjórar klukkustundir. Það virtist aldrei hvarfla að henni að leika hlutverk sitt frekar en að öskra það. Rödd hennar var einhvers konar samblanda af rödd og sög.
(Skömmu eftir að ég sá verkið um Rauðu khmerana var mér boðið á fimm klukkustunda leikverk á pólsku, síðan daginn eftir á þriggja og hálfs klukkustunda einleik á spænsku. (Þetta er satt.) Í báðum tilvikum sagði ég pent nei.)
En nú sé ég að það á að setja aftur upp í Þjóðleikhúsinu írskt leikrit sem nefnist „Með vasa fulla af grjóti“. Ég man að ég sá þetta verk í ársbyrjun 2001 og þótti það stórskemmtilegt. Sennilega er þetta ein af mínum eftirminnilegri leikhúsferðum, enda skemmti ég mér oftast ekki í leikhúsi.
En mig langaði sumsé að hvetja fólk til að sjá þetta verk. Sömu leikarar og síðast endurtaka hlutverk sín: Hilmir Snær og Stefán Karl. Ætti að vera skemmtilegt.