2.9.12

Vitsmuna-masókistinn

Ég er að lesa geigvænlegan 900 blaðsíðna hnullung sem kom fyrst út árið 1945: A History of Western Philosophy eftir Bertrand Russell, en þrátt fyrir að bókin sé í senn bæði læsileg og skemmtileg, reynir lesturinn á þolrifin, sem stafar þó frekar af persónulegum komplexum mínum en annmörkum á smíði Russells. Mitt eintak er úr sextándu útgáfu, gulnað og með hundseyru, mjög fallegt, og ég fann það í lyktríku kjallaragreni fornbókabúðar sem ég held dálítið mikið upp á, en þar hellir eigandinn alltaf upp í mig kaffi um leið og ég birtist inn úr gættinni, brosandi út að eyrum.

Svona leit Bertrand Russell annars út og varla neitt ágreiningsmál að þar fór ákaflega spakur maður:



Hann er mikið öndvegisrit, þessi langhundur eftir Russell, og reyndar mest selda heimspekibók 20. aldar ef mér skjátlast ekki. Ég mæli með henni, einkum fyrir þá sem njóta þess að finna öðru hverju til yfirþyrmandi vitsmunalegrar minnimáttakenndar.