Merkilegt nokk.
Skemmst er frá því að segja að mér hefur litist illa á fyrstu þrjá þættina. Ég held þó að það hljótist frekar af því að ég hafi verið óheppinn með einstaka þætti en að ekkert sé í syrpuna alla varið, enda hafa í áranna rás komið að gerð þeirra fríður hópar karla og kvenna sem ég held mikið upp á, auk annarra sem ég held ekkert upp á, til dæmis David Sedaris (sem ég held mikið upp á), Sarah Vowell (sem ég held ekkert upp á), Russell Banks (sem ég held mikið upp á), Dave Eggers (sem ég held ekkert sérstaklega mikið upp á), David Rakoff (sem ég held ekkert upp á), Tobias Wolff (sem ég ætti sjálfsagt að halda meira upp á), Anne Lamott (sem ég held dálítið upp á), Michael Lewis (sem ég veit ekkert hver er), Michael Chabon (sem ég held mikið upp á), Nick Hornby (sem ég hélt einu sinni upp á), Alex Kotlowitz (sem ég held ekkert upp á), Dan Savage (sem ég veit ekkert hver er), David Foster Wallace (sem mig langar að halda mikið upp á en get það ekki), Spalding Gray (sem ég held ekkert upp á), Gay Talese (sem ég held ekkert upp á), Aimee Bender (sem ég held ekkert upp á), Lydia Davis (sem ég hélt einu sinni upp á en finnst nú leiðinleg), Junot Diaz (sem ég ætla bráðum að byrja að halda mikið upp á), Mike Birbiglia (sem ég held ekkert upp á) og Shalom Auslander (sem ég veit ekkert hver er).
Nýjasti þáttur This American Life heitir „Back to School“ og fjallar um skólakerfið í Bandaríkjunum, með áherslu á Chicago-borg, þar sem 87% nemenda koma af „fátækum heimilum“ samkvæmt útreikningum tölfræðivísra. Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir brottfall ungs fólks úr skóla og efla námsgetu þess? var leiðarstefið í þættinum að þessu sinni.
Og: Hvers vegna vegnar sumum börnum betur en öðrum?
Stjórnandinn heitir því skringilega – og kvenlega – nafni Ira Glass. Í þættinum kom meðal annars fram vinur hans, sem heitir hinu eitursvala nafni Paul Tough, en sá var að gefa út bók með þeim ofur-bandaríska titli, How Children Succeed, og því um að gera að grípa gæsina og auglýsa ritið í vinsælum útvarpsþætti hjá félaga sínum.
Ira Glass, útvarpshetja. |
En hvers vegna gengur sumum betur að læra en öðrum?
Eftir því sem ég best gat skilið ræðst námsgeta fólks einkum af sjálfsstjórn þess – til dæmis því hvort það geti beðið í tíu mínútur eftir sykurpúða – en jafnframt því hvort það þurfi að óttast að einhver sé að fara að skjóta það í höfuðið.
Nefnd voru til sögunnar börn sem búa í hverfum þar sem ofbeldi – mjög oft heimilisofbeldi – er daglegt brauð. Sum þessara barna hafa séð morð framin með köldu blóði á leið sinni heim úr „hopp-í-skarðið“. Og svo furða menn sig á því hvers vegna þeim gangi erfiðlega að leggja á minnið latneska safnbeygingu, en lengi vel var talið að ástæða þess væri asmi.
Til leiks steig skrækrödduð kona, einhvers konar læknir. Hún taldi – og þá voru tuttugu mínútur liðnar af þættinum og ég hafði margoft öskrað upp yfir mig svo að skvettist úr kaffibollanum: „Stress! Stress! Svarið er stress!“ – að stress gæti haft áhrif á námsgetu barna. Einkum þeirra sem hafa séð fólk skotið í höfuðið með UZI og eiga föður sem drekkur vín og lemur þau.
Hlustendum til aukinnar fræðslu var nefnt dæmi um barn nokkurt sem bjó í mjög hættulegu hverfi. Foreldrar þess skildu það, af einhverjum ástæðum, oft eftir eitt í húsinu til langs tíma, án nokkurrar gæslu. Barnið var svo hrætt að það reyndi að negla fyrir gluggana og víggirða húsið, en þetta dugði ekki til að halda fjarri öllum óprúttnu náungunum sem brutust þar inn næstum daglega og stálu öllu steini léttara, meðal annars klósettpappírnum. Barnið var undirokað af streytu, ótta og áhyggjum og gekk því illa að leggja nöfn látinna forseta á minnið – sem lækninum þótti stórmerkilegt.
Sérstaklega fannst mér þó þreytandi Nóbelsverðlaunahafinn James Heckman. Þrotlausar rannsóknir hans og aðstoðarfólks undanfarin tíu ár hafa leitt það í ljós að öguð börn, þ.e. einstaklingar sem búa yfir (lágmarks)sjálfstjórn, eru líklegri til að ná árangri í lífinu en hvatvíst fólk sem fórnar framtíðaráformum sínum blindað af skammlífri umbun andartaksins.
Í þessu samhengi var nefnt hið þekkta sykurpúðapróf, þar sem lítil börn eru látin líða sálfræðilegar vítisraunir og það tekið upp á vídjó. „Hér er sykurpúði,“ er sagt við þau. „Og hér er bjalla. Og nú ætla ég að fara út úr herberginu, en ef þú getur ekki beðið eftir mér hringirðu bjöllunni og þá kem ég og gef þér sykurpúðann. En ef þú bíður í tíu mínútur, þá kem ég aftur af sjálfsdáðum og gef þér tvo sykurpúða.“
Krakkarnir eiga misauðvelt með þetta. En mér skilst að þeir sem borði sykurpúðana strax leiðist síðar út í glæpi og endi á framfærslu ríkisins.
Heildarniðurstaða þáttarins var á þá leið að stressuð börn eigi erfitt með að einbeita sér að námsbók, enda hafi þau áhyggjur af öðru, til dæmis því að einhver brjótist inn til þeirra og steli öllum klósettpappírnum. Þá kom fram að fólk með góða sjálfstjórn nái frekar langt í lífinu – sem að mati Bandaríkjamannanna táknaði alltaf góð laun og fátt annað – en þeir sem láta hvatvísina hlaupa með sig í gönur og eru sólgnir í sykurpúða. Þetta sögðu okkur hámenntaður læknir, mikilsvirtur rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi.