En ég er að komast æ meira á þá skoðun að við eigum ekki að láta Geir vera. Peter Singer tekur til að mynda gott dæmi í nýrri bók sinni, The Life You Can Save, af manni sem á leið til vinnu sinnar stendur frammi fyrir því hvort hann eigi að bjarga lífi barns sem er við það að drukkna (og skemma þar með nýja skó og bía út jakkafötin sín) eða láta barnið eiga sig og mæta til vinnu á réttum tíma.
Auðvitað á maðurinn að bjarga barninu! segja flestir.
En af hverju? Á sama tíma deyja árlega milljónir barna undir fimm ára aldri. Við gætum hæglega bjargað þeim. Og það með miklu smærri fórn en þeirri sem nemur skóm og jakkafötum.
Algengt er að fólk segi: „Ég vinn fyrir laununum mínum og hef því rétt á að eyða þeim í það sem mér sýnist, enda á ég það skilið. Ég legg hart að mér.“
En þessu má svara með: „Þú fæddist þar sem tækifærin eru á hverjum strái. Eiginlega ætti frekar að teljast hálfgert afrek ef þú næðir ekki að landa góðu starfi og öruggum tekjum miðað við aðstæður þínar. Þú ert ekkert sérstakur, heldur 97% heppinn, 3% duglegur. Og hana nú!“
Auðvitað er þó margt til í því að við eigum skilið að njóta ávaxta erfiðis okkar. Hins vegar er því ekki heldur að neita að meginástæða þess að Vesturlandabúum býðst að leggja hart að sér og „eiga þar með skilið“ að kaupa sér ljúffenga gos- og kaffidrykki þegar vatnið úr krananum er fullboðlegt, felst hvorki í aðdáunarverðum dugnaði þeirra né einstökum hæfileikum, heldur í þeirri einföldu staðreynd að samfélög okkar – þar sem við vorum svo heppin að fæðast – bjóða upp á réttu stökkpallana til árangurs. Við höfum aðgang að góðu skólakerfi, heilbrigðisþjónustu og matvörubúðum. Við getum fengið styrki til náms, „frumkvöðlastarfs“, jafnvel listsköpunar. Meðalaldur okkar er hærri en áttatíu ár, en víða í fátækum löndum er hann enn undir 49 árum. Þar deyr eitt af hverjum fjórum börnum áður en það nær fimm ára aldri, en færri en eitt af hverjum þúsund á Vesturlöndum.
Þegar á okkur dynur „kreppa“, þýðir það að líkamsræktarfrömuðir fara í færri skíðaferðir og ungmenni endurnýja síður fartölvurnar sína. En þetta er ekki fátækt, heldur dásamlegt lúxusvandamál sem ætti frekar að gleðja okkur en hryggja. Um tvö prósent mannkyns deila nú með sér um helmingi af heildarauðæfum jarðar, en tíu prósent um 85 prósentum þeirra. Í síðari flokknum eru sjálfsagt bæði þú og ég, jafnvel þó svo að við þurfum að hugsa okkur tvisvar um áður en við kaupum okkur þriðja kaffibolla dagsins og lítum ekki á okkur sem sérlega ríkt fólk.*
Um helmingur mannkyns deilir síðan með sér einu prósenti prósenti af auðlindum manna. Helmingur mannkyns. Einu prósenti. Þar af búa um 1,4 milljarður manna við svokallaða „ýtrustu fátækt“, en ég get ekki einu sinni sett mig í spor jafn bágstadds fólks. Ég hef bara séð það á ljósmyndum og í bíómyndum.
En það er þó einmitt þetta sem sérhver siðferðilega þenkjandi maður ætti að gera: Að setja sig í spor annarra. Reyna að skilja hvernig öðrum líður. Og sá sem gerir það fer að finna til með öðrum og vilja hjálpa þeim. Jafnvel líta svo á að honum beri skylda til þess, sama hvað hann „á sjálfur skilið“.
Hjá hinum ýtrustu fátæklingum skellur ekki á „kreppa“. Þar er hugsanlega borðuð ein máltíð á dag og móðirin þarf þá að velja hvort það er hún sem fær að fylla á magann eða barnið hennar. Þegar sonurinn veikist af malaríu eru ekki hægt að seilast inn í talnaskápinn eftir sparifénu til að greiða fyrir hann spítalavistina, heldur deyr strákurinn hægum, kvalafullum dauðdaga, og svo þarf að hyggja að því hvaðan næsta máltíð komi, daginn eftir.
Ég held að markmið bókmennta og heimspeki, sem mótsvars við öfgakenndum tæknitrúarbrögðum hinnar miklu rafeindaaldar, sé að spyrja spurninga á borð við: Hvernig á ég að haga lífi mínu? Og svo annarrar enn beinskeyttari: Er ég góður maður?
En hugsunarhátturinn hjá okkur er orðinn svo brenglaður að „listamenn“ leggja ekki einu sinni lengur upp með að skapa eitthvað sem færir öðrum upplyftingu og trú á fegurð lífsins, heldur einungis „listamönnunum“ sjálfum „heimsfrægð“.
Eins mætti helst ætla að auðkýfingurinn Dennis Tito hafi látið skjóta sér út í geim – hann er fyrsti „geimtúristinn“ – einungis svo að fátæklingar jarðarinnar gætu beint kinnfiskasognum andlitum sínum til stjarnanna og hann öskrað niður á móti: „Sjáið! Þetta er það sem ég eyði peningunum mínum í!“
Ofanfarandi hugleiðingum má sjálfsagt svara með mjög snubbóttum hætti: „Ég hugsa um mig, og þú hugsar um þig, og þá eru allir ánægðir. Láttu mig vera.“
En ekkert sprettur af engu; á að láta þá vera sem njóta góðs af eymd og volæði annarra?
Ég mæli með bók Singers fyrir þá sem hafa áhuga á því að velta þessu fyrir sér, án þess þó að ég vilji hvetja fólk til þess að selja húsin sín og lýsa stríði á hendur „kapítalismanum“. En hann er einn þeirra fáu heimspekinga sem spyr spurninga sem hafa raunverulega þýðingu fyrir daglegt líf manna og líka ágætis penni.
Grænmetisætan og heimspekingurinn Peter Singer klappar mjög stóru svíni. |
* Þess má geta að ég tók mér hlé við að skrifa þetta til að rölta út á nýstofnað, flott kaffihús, þar sem ég fékk mér rosalega góðan 2,5 evru kaffibolla.