11.9.12

Giovanni Larsson, hugsuðurinn í virkinu

Á Ítalíu rakst ég áhugaverðan mann sem kvaðst heita Giovanni Larsson. Hann var hálfur Ítali, hálfur Svíi. Hann var mjög vinalegur viðmóts, en í andlitinu sá ég þó stundum grilla í einhverjar myrkari hliðar, einhverja djöfla í augunum. Stundum kippti konan hans mjög snöggt í ermina á honum og hló hátt upp úr þurru. Þá drakk ég úr teyg úr vínglasinu mínu og þóttist mjög upptekinn af því að skoða stjörnurnar.

Við sátum á torgi þar sem heimamenn í smábænum Lucca komu saman til að borða langdreginn kvöldverð. Þeir sem enn treystu sér til dönsuðu við brokkgengan undirleik sérkennilega samanspunninnar hljómsveitar þar sem menn komu af öllum aldri og úr öllum þyngdarflokkum. En aldur veislugesta var almennt mjög hár.

Nema hvað svo sat þarna einn ljóssleginn, náhvítur Íslendingur, með appelsínugult hár og eldrautt skegg, enn ungur, og auðvitað hrókur alls fagnaðar.

Ævisaga Giovanni Larssons, málglaðasta borðnauts míns, var eins og tekin beint upp úr þriggja vasaklúta eldhúsróman. Faðir hans var af sænskum ættum og kynntist barnsmóður sinni í Ameríku, en var svo sendur á vígvöllinn, sem var um 1940. Unga konan nýtti fyrsta tækifæri sem gafst til að forða sér frá Bandaríkjunum með kornungan son sinn og setjast að í Lucca, þar sem Giovanni hefur síðan búið allt sitt líf. Hann vann áður í banka, en situr nú á skólabekk, lærir sögu. Vissi margt um Ísland.

„Móðir mín dó þegar ég var unglingur,“ sagði hann og bandaði kæruleysislega frá sér með hendinni, mjög ítalskt, eins og það væri daglegt brauð að missa móður sína. „Í slysi,“ bætti hann við án þess að útskýra það frekar.

Í kjölfarið lagðist hann í viðamiklar rannsóknir og tókst að hafa uppi á fjölskyldu föður síns í Bandaríkjunum. „En þá reyndist faðir minn einnig dáinn,“ sagði hann og bandaði aftur frá sér með hendinni. „Hann dó ungur,“ bætti hann við. „Í slysi.“

Fjölskylda föðurins bjó nú í Utah, fylkinu sem var stofnað af mormónum. „Og þegar þau höfðu einu sinni klófest mig,“ sagði Giovanni, „vildu þau alls ekki sleppa mér aftur! Þau vildu að ég gerðist mormóni. En ég sagði: O, nei! Og lét mig hverfa.“

Giovanni Larsson flúði aftur til Lucca, þessa litla, notalega bæjar sem mig var tekið að gruna að væri eini griðastaður hans á jarðríki. (Til gamans má geta þess að þorpið er girt fjögurra kílómetra löngum virkisvegg, fimm hundruð ára gömlum.)



Þjónarnir færðu okkur á pappadiskum hvern réttinn á eftir öðrum. Vínflöskurnar tæmdust og Giovanni Larsson sat ekki á skoðunum sínum. Einkum greip ég á lofti flokkun hans á mannfólki, en hann er þess fullviss að tegund okkar skiptist upp í örfáa útvalda annars vegar – svokallaða illuminati – og svo sauðsvartan almúgann hins vegar, eða þrælana. Hinir fáu útvalda brugga ráð saman og stjórna okkur hinum. Þessu til stuðnings vitnaði Giovanni Larsson til skrifa bresks sagnfræðings, David Icke, sem mér sýnist vera breskur brjálæðingur með áhuga á samsæriskenningum.

Þegar ég skaut því svo inn í samræðurnar á öðrum tímapunkti, ég man ekki hvers vegna, að ég hefði um skeið búið í Lundúnum, sagði Giovanni Larsson: „Ah! Þangað hef ég margoft komið. Vinur minn bjó í Paddington, sem er negrahverfið í Lundúnum. Þar er bókstaflega allt morandi í negrum.“ Þá fór um mig kaldur hrollur, gamla pólitískt-réttsýna, þótt ég áttaði mig strax á því að orðið „negri“ væri í meðförum Giovanni Larssons mjög hlutlaust, rétt eins og „pasta“ eða „terlínbuxur“.

„Já, ég var dálítið lítið í Paddington,“ sagði ég og skipti yfir í aðra sálma.

Við skildumst með virktum og Giovanni óskaði mér allra heilla á lífsleiðinni. „Gangi þér vel með skrifin,“ sagði hann og óskaði mér enn og aftur til hamingju með að kalla mig rithöfund. „Til hamingju! Til hamingju!“

Ég rölti eftir múrveggnum aftur á gistiheimilið og hugsaði um hversu skrítið það væri að búa alla sína ævi innan virkisveggja. En kannski er það ekki svo ósvipað því að búa á eyju lengst úti í Atlantshafi, ég veit það ekki.