5.9.12

Að ferðast með 90 kíló af pappírsblöðum

Mér er sjaldan hrósað fyrir gáfur. Þegar ég fluttist aftur heim til Reykjavíkur frá Lundúnum fyrir nokkru síðan tók ég með mér 97 kíló af farangri, sem mér tókst á yfirnáttúrulegan hátt að klöngrast með í gegnum neðanjarðarlestakerfið og þaðan út á Heathrow. Þrjár ferðatöskur, einn bakpoki, eitt stykki „man purse“-hliðartaska, dúfugítarinn minn og vegabréfið. Svitinn bogaði af mér í svo stríðum sraumum að fólki skolaði aftur út úr lestarvögnunum, svamlandi fyrir lífi sínu, öskrandi.

Ég öðlaðist þó endurvakta trú á tegundarbræður mína og -systur, þar sem ekki brást að í hvert skipti sem ég þurfti að klífa stigaþrep stökk til mín verndarengill, bauðst glaður til að ljá mér fulltingi sitt. „Ekkert mál! Ég skal hjálpa þér.“ En svo þegar verndarengillinn greip um handfang ferðatöskunnar runnu á hann tvær grímur, enda mætti ætla að nú hefði hann komist í tæri við ungan mann sem flakkaði um undirheima Lundúna með ferðatöskur úttroðnar af eðalmálmum.

Innihaldið var annars þetta: götóttar, grænar gallabuxur, tvær sexí skyrtur, þrjú sokkapör, fjórar nærbuxur, fimm bolir, sjötíu bækur, ein ritvél, póstkort frá Vigdísi Finnbogadóttur og vínylplata með Billy Ocean.



Þegar ég gekk í gegnum tollinn heima, – af einhverjum ástæðum er alltaf leitað á mér í tollinum heima, menn setjast niður í mestu makindum með nýlagað kaffi og taka til við að rekja upp sokkana mína, lesa dagbækurnar mínar, máta af mér skyrturnar – spurði einn tortrygginn maður með hökuskegg hvort ég væri nokkuð með nýkeyptar rafeindagræjur í töskunum. Spurningunni fylgdi þungt högg með flötum lófa, heldur glannalegt, í bláa koffortið sem ég hafði keypt á Camden Lock-markaðnum, og högginu fylgdi einkennilegur skjálfti í undirhöku tollvarðarins, mjög ör.

„Ég held ekki. Þetta er sextíu og átta ára gömul ritvél.“

Við þetta svar skalf undirhakan enn hraðar.

Ég lét mér þessa reynslu að kenningu verða. Það hefur alltaf verið vandamál hjá mér á ferðalögum að burðast með of mikinn pappír, bæði eigin minnisbækur og annarra manna skrif, og of lítið af fötum, enda þykir mér gaman að skrifa, gott að vera ber.

En nú er ég að fara í ferðalag á mjög framandi slóðir, óvíst hvort ég snúi aftur óbrenglaður. Og tek með mér lítið af bókum: „Listina að elska“, sem er einhvers konar furðuleg blanda af heimspekiriti og sjálfshjálparbók, ljóðaþýðingar eftir Jóhann Hjálmarsson og svo einhverja leiðinlega enska skáldsögu. Og svo Kyndilinn minn, sem geymir orðið ansi margar bækur. Og hann, elsku Kyndillinn, varð mér einmitt tilefni þessara hugleiðinga.

Þetta er nefnilega sniðug græja á ferðalögum, þótt mér finnist enn heldur dapurlegt að rýna í þennan grámóskulega skjá, sem er á flestan hátt mjög daufleg og „ólífræn“ reynsla. Hins vegar er gott að lesa á skjáinn, þ.e. textinn skýr, og þetta léttir burðinn á langferðum. Með öðrum orðum hef ég tekið þessa veikindalegu, litlu græju í sátt, enda held ég að Stephen Fry hitti naglann á höfuðið með þessu:




Ég veit ekki hvort það sé tilviljun, en ég hef reyndar líka alltaf verið lyftuhræddur maður, kýs heldur að feta mig upp stigagang. Enda ungur enn, fæturnir sprækir, hjartað fullt af ærslum. Ég hugsa þó að lyftur verði síðar hluti af lífi mínu, eða um svipað leyti og ég hyggst byrja að spila gamlingjaíþróttina golf: nánar tiltekið undir lok lífs míns. Og ég ætla að vera orðinn alveg rosalega gamall þegar ég byrja að spila golf.