1.9.12

Vöðva- og útvarpsmenning Íslendinga


Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að fara í „ræktina“, sem fram að þeirri stundu hafði virkað fullkomlega hlægileg iðja: af hverju ekki að nota bara krana til að lyfta þungum hlutum eða hlaupa þá frekar úti í súld og hraglanda eins og alvöru, íslenskt karlmenni? (Sem ég var þó að sjálfsögðu ekki.) Eftir talsverðar bollaleggingar braut ég loks odd af oflæti mínu, fyrst og síðast af þeirri ástæðu að mig verkjaði statt og stöðugt í bakið, en auk þess óttaðist ég að bágt líkamlegt ásigkomulag horrenglunnar myndi bitna á arnsúg draumóramannsins, og á þessum tíma var mér afskaplega umhugað um að vera bæði einlægur bon vivant og virka jafnframt mjög heillandi intellektúal sama hvernig á mig væri litið. En fyrst þurfti ég greinilega að efla vöðvabyggingu líkamans, sem ég veigraði mér þó við að gera, enda þekkja allir hið þekkta lögmál: þeim mun stærri vöðvar, því minni heili.

Þökk sé knáum vini mínum tókst mér smám saman að læra þau handtök sem tíðkuðust á meðal lóðvitra manna, fyrst skjálfandi eins og piparkökukarl, en síðan gat ég fikrað mig áfram sjálfur um rangala vöðvamusterisins, uns fólk var byrjað að taka andköf af aðdáun þegar ég stökk skyndilega úr sæti mínu á einhverju af kaffihúsum bæjarins, reif mig úr að ofan, skjannahvítur og sætur, gljáandi af hraustlegum svita, og gerði fimmtíu armbeygjur uppi á borði milli ljóða.

Undanfarið hef ég þó ekki getað sótt vöðvamusterin mjög samviskusamlega, enda er ég eins og er staddur í erlendri borg þar sem ég starfa við mjög leynilegt, en jafnframt mjög skemmtilegt, verkefni, og þar kostar ein ferð í líkamsræktarhof hálf mánaðarlaun eplatínslumanns. Þú, lesandi góður, þarft þó ekki að örvænta um horfur búks míns, því að ég er undir þeirri heillastjörnu fæddur að þurfa ekki að gera nema tíu armbeygjur aðra hverja viku til að haldast betur vaxinn en allir þeir karlmenn sem ég hef um daga mína hitt, og það þrátt fyrir að fæðukúrinn hjá mér byggist ekki á öðru en espressóum, stöku vínlögg og skonsum með rabarberjasultu!

Þá kem ég loks að kjarna þessarar greinar, sem er raunar alls ekki grískrar-styttu-líkamsvöxtur minn, heldur þolraunirnar sem ég hef þurft að glíma við á langri armbeygjuvegferð minni í kroppahöllunum, og þá á ég ekki við líkamlegt erfiði, heldur andlegt: að þurfa að hlusta þar á útvarpið.

Þar sem ég fell í hóp þeirra manna sem megna ekki að bora agnarsmáum heyrnartólum djúpt inn í eyrun á mér áður en ég geri tíu aftur-á-bak-heljarstökks-skrúfur í röð á dýnu, hef ég neyðst til að hlusta á útvarpið undanfarin ár, sem væri allt í lagi ef um væri að ræða Rás 1, eða jafnvel Rás 2, eða einhverja kínverska útvarpsstöð þar sem ég skil ekki orð; hins vegar er af einhverjum ástæðum alltaf kveikt á öðrum stöðvum í vígi lóðsins: X-inu, FM957, Flash FM.

Ég fór dálítið að velta þessu fyrir mér um daginn þegar ég stóð á höndum upp við vegg og gerði armbeygjur í handstöðu eins og Rocky gerir í samnefndum kvikmyndum -- þeirri staðreynd að að* þessum útvarpsstöðvum, sem ég nefndi hér að ofan, standa (bissness)menn sem ráða sjálfviljugir í vinnu aðra menn við að tala þar daglangt í hljóðnema, segja allt sem þeir hugsa og þeim býr í brjósti, fyrir laun, raunverulegar peningaupphæðir, á vettvangi sem nær til býsna margra, og samt hef ég aldrei -- og þá er ég ekki að reyna að hljóma áhugaverður, ögrandi eða skemmtilegur -- aldrei heyrt þessa menn segja nokkurt áhugavert, ögrandi eða skemmtilegt.

Á meðan ég velti þessu fyrir mér flögraði hugur menn enn annað – þá var ég hættur að gera Rocky-æfinguna og byrjaður að hlaupa á bretti með 25 kílóa handlóð í hvorri hendi, á 22,5 kílómetra hraða sem er einmitt sá hraði sem mjög góður maraþonhlaupari hleypur á – þarna á ofsahraða á hlaupabrettinu velti ég því sem sagt fyrir mér hvernig skyldi standa á því að frá því að ég byrjaði fyrst að lesa dagblöð, þá tveggja ára, hef ég á hverju ári rekist á grein eftir pattaralegan, „frjálslyndan“ pabbastrák (sem aðhyllist jafnan þá óskilgreindu lífsstefnu „einstaklingshyggja“), þar sem stungið er upp á því að Ríkisútvarpið verði einkavætt, þ.e. gert að sambærilegu batterýi og hinar stöðvarnar, enda skjóti skökku við á 21. öldinni að verja ríkisfjármunum í annan eins óþarfa og menningarstarfsemi. (Mér finnst raunar að pabbastrákurinn pattaralegi – sem við skulum héðan í frá kalla „P.P.“ – hugsi alltof smátt, og ætti miklu heldur að skrifa greinar í erlend blöð, hvetja allt skynugt fólk í útlöndum til að leggja í leiðinni niður ríkisreknar stöðvar á borð við BBC í Bretlandi, RF í Frakklandi, CDF í Þýskalandi, DR í Danmörku, og svo framvegis, þá yrði nú sparað.) Viðkomandi greinarhöfundur, P.P., er ævinlega með bústnar, blóðrjóðar, allt að því fjólubláar, kinnar, hefur greinilega setið oft í mjúkum leðurstólum og borið á sig mikið krem. Ég er ekki sammála tillögum P.P., þótt hann daðri reyndar við vissan sannleika í skrifum sínum, því að hugsanlega mætti breyta – efla – íslenska útvarpsmenningu, en þá á allt annan hátt; það myndi að minnsta kosti skila okkur víðsýnni og lærðari vöðvabollum.



* Já, ég veit: hræðilega ljót tvítekning á „að“, sorrí!