31.10.12

Enn af visku tepokanna

Tryggingafélögin ættu að fagna speki tepokans míns í kvöld:

„There is no such thing as an accident.“


Nýtt frumvarp til stjórnskipunarlaga

1. Allir mega brosa. :)

2. Allir eiga saman hálendið! :D

3. Á laugardögum er nammidagur. :)

4. Bannað er að semja frumvarp til stjórnskipunarlaga án þess að bjóða Ómari Ragnarsyni að vera memm.

5. Allir eiga saman fiskinn í sjónum! :D

6. Allir eiga ekki að þurfa að vera veikir. :(

7. Þetta er stjórnarskráin og stjórnvöldum ber að fara eftir henni. Þetta er hér tekið fram, því að það er ekki endilega víst að stjórnvöld hefðu fattað það annars.

Dýr

Í þeim kafla frumvarps til nýrra stjórnskipunarlaga, sem nefnist Mannréttindi og náttúra, segir:

 „Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð [...].“

Verði ný stjórnarskrá lögleidd má því búast við því að í kjölfarið verði settir langir lagabálkar á borð við Hvernig koma á fram við Labradorinn sinn og Ekki gleyma að gefa gullfisknum þínum korn.

Stórkostleg saga af verðmætasköpun

Líkt og alþjóð veit, vinnur mannauður Íslands vinnur nú hörðum höndum að verðmætasköpun.

Nefndur mannauður lætur engan bilbug á sér finna, heldur skapar verðmæti við hvert færi sem gefst.

Íslenskum stjórnvöldum þykir jafnframt brýnt að huga að menningu þjóðarinnar.

Þetta kemur skýrt fram í þriðju málsgrein 24. gr. nýs uppkasts til stjórnskipunarlaga:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar [...] heilsu [...].“

28.10.12

Ályktun um tónlist

Mörgum finnst gaman að hlusta á tónlist.

Mér finnst það stundum dálítið skemmtilegt, líka.

En ég hef líka tekið eftir því að síðan ég varð tvítugur hefur tónlistarsmekkur minn ekki breyst neitt. Ég hef ekki heldur uppgötvað neitt nýtt sem mér finnst skemmtilegt að heyra.

Þegar ég skrifa hlusta ég til dæmis annaðhvort á Graceland með Paul Simon eða The Unforgettable Fire með U2 eða Kind of Blue með Miles Davis eða Love Supreme með John Coltrane eða Mozart (platan Mozart for Meditation er þar efst á lista). Allt er þetta dót sem ég uppgötvaði fyrir löngu. Ég hlusta aldrei á neitt annað.

Ef ég reyni fer mér að leiðast.

Ég hef heyrt aðra lýsa sömu reynslu. Eftir tvítugt er vonlaust að uppgötva nýja tónlist.

Af þessu dreg ég þá ályktun að það sé mjög mikilvægt að kynnast sem mestri góðri tónlist fyrir tvítugt.

Veisla í farangrinum

Í gær endurlas ég eina af bestu bókum Ernests Hemingway, A Moveable Feast, eða Veislu í farangrinum eins og hún nefnist í íslenskun Laxness. Ég man að ég las útgáfu Halldórs fyrir löngu, löngu, þá sex ára, eða níu ára, eða ellefu ára, ég man það ekki, en ég man þó að mér fannst bókin þá strax dásamlega skemmtileg og skrítinn og líflega samin, enda þótt ég skildi auðvitað ekki mikið. Best man ég lyktina af þvælda harðspjalda-eintakinu mínu og að ég muðlaði Ballerina-kex á meðan ég las, eins og ég gerði mikið í þá daga.


Nokkrum árum síðar las ég A Moveable Feast svo í frumútgáfunni og fannst hún þá langtum síðri bók en mig minnti – rétt eins og þegar ég álpaðist einhvern tímann til að glugga í Candide Voltaires á ensku, sem er ekki hægt eftir að hafa lesið Birting H.K.L. (Auðvitað á maður samt helst að lesa þá bók á frönsku ef maður getur.) En ég ákvað sumsé að Hemingway væri stórlega ofmetinn lúsablesi og ekkert svo ýkja merkilegur.

En í gær endurlas ég Veislu í farangrinum í einnu setulotu, dáleiddur. Mikið er hún fín. Alltaf þegar ég sannfærist um að nú sé ekki lengur hægt að skrifa neitt merkilegt á íslensku þarf ég líka ekki annað en að glugga í bók eftir Laxness eða þýðingu, til dæmis útgáfu hans af Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar sem ég er líka með hér hjá mér í París og er önnur dásamlega hlý og einlæg bók, heldur þó lengri en Veisla í farangrinum og kannski full-löng – þessa dagana finnast mér bækur helst ekki eiga að vera neitt alltof langar, kannski einmitt vegna þess að ég hef strögglað við svo marga doðranta undanfarið, Infinite Jest, Fjallkirkjuna, Önnu Karenína, eitthvað svona dót, bækur til að rota fyllibyttur.

Allavega: ég beit það í mig fyrir dálítið löngu að hata Ernest Hemingway. Undanfarin ár hef ég brugðist við með orðunum: „Hann er nú bara ofmetinn miðjumoðsglópur!“ í hvert skipti sem einhver tekur að ausa verk hans lofi. Sjálfsagt stafar þessi þrákelki mín af hinum nöturlegu örlögum sem hann hlaut eftir að hann skaut sig í höfuðið með haglabyssu: nú talar fólk talar meira um manninn sem skrifaði bækurnar en bækurnar sjálfar. En bækurnar halda gildi sínu – það rifjaðist upp fyrir mér í gær.

Ég las mjög mikið af honum frekar snemma og þá ýmist í frumútgáfum eða íslenskum þýðingum. A Farewell to Arms, sem Laxness þýddi sem Vopnin kvödd en ég og tveir danskir vinir mínir, sem námu um þær mundir íslensku við Háskólu Íslands, endurþýddum sem Bless, bless, handleggir löngu síðar, fengum handritið svo aldrei útgefið (sem betur fer), og svo man ég að ég stalst stundum niður í kjallara til að lesa Gamli maðurinn og hafið þegar ég vann við að selja brauðristar. Síðan voru það fyrsta skáldsagan frá 1926, The Sun Also Rises, sem var ekki nógu góð þótt hún lofaði góðu um framhaldið, og The Garden of Eden sem kom út að Hemingway látnum og ég las um borð í lest á leið til Rómar. Mig minnir að í þeirri bók hafi E.H. sagt frá ástarþríhyrningi og söguhetjur bardúsað fátt annað en að baða sig í sjónum og panta sér áfenga drykki og tala í mjög fleyguðum setningum. Og margar smásagna hans eru auðvitað prýðilegar, þeirra frægust sjálfsagt Hills Like White Elephants þar sem „ísjakatæknin“ svokallaða nýtur sín til fulls.

Nú hefur Forlagið endurútgefið Veislu í farangrinum. Betri bók gefur Forlagið ekki út þetta árið, þótt vonandi gefi það líka út einhverja aðra góða bók þetta árið. Við sögu koma margar þekktar persónur, Ezra Pound, Gertrude Stein, James Joyce, og síðast en ekki síst F. Scott Fitzgerald og eiginkona hans, Zelda, sú alræmda kvensnift bókmenntanna; kaflinn þar sem Scott „veikist“ er einn af hápunktunum. Annars er yfir bókinni allri einhver angurvær og tregablandinn, en jafnframt svo ljúfur og vinalegur, tónn, og hún er skemmtileg, léttleikandi, fjörug, fyndin, einlæg, ég mæli með henni.

Þegar Hemingway fékk Nóbelinn árið 1954 segir sagan að hann hafi sent Kiljan símskeyti og beðist afsökunar á því að hirða af honum verðlaunin. Halldór þurfti því að bíða ári lengur eftir að röðin kæmi að honum. Þegar þessir tveir menn leiða saman hesta sína er annars ekki að spyrja að útkomunni – mér finnst að flestir ættu að lesa Veislu í farangrinum, helst bara strax í dag.

27.10.12

Fögnum nú, öll sem eitt

Iðjusamasti og vandvirkasti höfundur Íslands þessa dagana hefur gefið út nýja bók, skáldsögu að þessu sinni. Því fagna ég – og hvet þig til að fagna því einnig.

Og lesa bókina, auðvitað.

24.10.12

Jólagjafirnar

Vertu snemma í að kaupa jólagjafirnar.

Kauptu þær

núna.

Staða tannkremsins í nútímasamfélagi

Ef ég les enn eitt greinarkornið um skáldskap/ljóðabók sem hefst á vangaveltum um STÖÐU LJÓÐSINS og það HVORT LJÓÐIÐ SÉ KANNSKI DAUTT, steypi ég mér bugaður í mjög djúpa gjá. Eða: ég steypi mér kannski ekki bugaður í mjög djúpa í gjá, en ég ætla að minnsta kosti ekki að lesa þá grein til enda. Þetta er líka svo ótrúlega kjánalegt, krakkar! Að skrifa grein ber vott um líf. Að eitthvað sé gert að umfjöllunarefni greinar ber vott um að líf sé í umfjöllunarefninu. Að ljóðabækur séu gefnar út ber vott um að menn yrki ljóð og að einhverjir lesi þau jafnvel – sérvitringar, geðsjúklingar, pirraðir ungir menn, einmana konur og fangar.

Svo að við víkkum aðeins út sjónarhornið, þá hugsa ég að fáir myndu til dæmis halda því fram að kvikmyndagerð nútímans sé spruðlandi af lífi sem listform (þótt hún sé markaðsfræðilega enn býsna lífleg). Eða hver lítur svo á að það að fara í bíó jafngildi því að sækja listviðburð?

Enginn!

Hið sama mætti segja um tónlist. Allir sem ég þekki eru tónlistarmenn. Að semja tónlist í dag er vissulega leið til að fá listræna útrás, en voðalega lítið nýtt og merkilegt gerist. Þetta snýst yfirleitt bara um að halda gott partí eða að draga upp mynd af sér sem viðkvæmum og taugaveikluðum.

Myndlist? Einhver?

Mér finnst eiginlega að eina listformið þar sem menn eru enn að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt sé skáldsögugerð. Sem er líka auðvitað það form sem er víðfeðmast og býður upp á flesta möguleika, þar er hægt að spanna allt – eða ætti að vera hægt að spanna allt. Framúrstefnulegar bækur geta jafnvel verið skemmtilegar – stundum.

En framúrstefnuleg tónlist er oftast álíka leiðinleg og framúrstefnulegar bíómyndir – og framúrstefnuleg myndlistarverk gætu drepið sel.

Einu sinni ranghvolfdi mjög drukkin stelpa í sér augunum og spurði mig: „Af hverju í ósköpunum ertu að skrifa ljóð? Ljóð!“ Hún sagði þetta orð – „Ljóð!“ – eins og það væri alveg merkingarlaust, enda verður það frekar merkingarlaust ef við hellum í okkur mörgum lítrum af bjór og endurtökum það svo mjög oft í röð: „Ljóð! Ljóð!“

En hún fattaði þetta bara ekki. Fyrir mér eru ljóð meira lifandi en flest annað, enda eru þau stór hluti af lífi mínu. Og um það snýst þetta að lokum: einstaklinga, ekki fjöldann. En í neyslugeggjuninni trompa sölutölur og sýnileiki allt annað og út frá slíkum viðmiðunum er ljóðið auðvitað álíka dautt og bumbubaninn eða diskó.

Sem þýðir þó ekki að við sem einstaklingar séum einnig dauð og höfum ekki lengur tilfinningar í brjóstinu. Að lesa góð ljóð lætur mér ekki líða eins og ljóðið sé dautt – þvert á móti* lætur það mér líða eins og það sé sprellifandi. Og það sem meira er um vert: góð ljóð eru áminning um að ég – og þú – erum líka sprelllifandi.


* Fróðleiksmoli dagsins: „Þvert á móti“ er vond íslenska, enda sletta úr dönsku: tværtimod.

23.10.12

„Og þar héldu vændiskonur æsku minnar til“

Listamaður einn með bláa derhúfu og yfirvaraskegg sagði mér að litlir bakgarðar á kirkjulóðum væru draumkenndir staðir þar sem skrítnir hlutir gerðust – og allt gæti gerst.

Frönskunám. Sjötti kafli

Við hlið mér situr nú vingjarnlegur náungi frá Lýbíu.

Hann muldrar málfræðiæfingar dreymnum, seiðandi rómi í eyra mér. Hann hallar sér svo nálægt mér að ég finn heitan og rakan andardráttinn á hálsinum.

Ég skil ekki orð af því sem hann segir, en ég svara með því sem mér dettur í hug að segja, og það virðist duga honum.

Hann er vinur minn frá Lýbíu.

Stjórnarskrá

Mér finnst að stjórnarskrá eigi að vera stutt – eins stutt og hægt er.

Allt að því ljóðræn.

Menn eiga að geta lært hana utanbókar og þulið fyrir munni sér á myrkum vetrarkvöldum á leiðinni heim eftir fyllerí.

22.10.12

Tepokinn segir

„Miklir menn hafa hjartalag barns.“

21.10.12

Í gær

Nokkrir menn lokuðu mig inn í klefa og létu mig lesa ártöl í hátalakerfi:

„... 202876 fyrir Krist. 202875 fyrir Krist. 202874 fyrir Krist...“

Lesturinn ómaði yfir laufþungan, regnvotan almenningsgarð:

„... 202873 fyrir Krist. 202872 fyrir Krist. 202871 fyrir Krist...“

Þetta var kannski það leiðinlegasta sem ég hef gert.

Lýstu mig upp



lýstu mig upp
að utan og innan
örvaðu hjartsláttinn
og komdu svo nær til að finna' hann

lýstu mig upp
svo ég stígi yfir strikið
og stefni fram á við
án þess að hugsa of mikið

lýstu mig upp
í huga og hjarta
og hreinsaðu burt
allar ástæður til að kvarta

lýstu mig upp
svo ég sjái til sólar
þegar svart er og dimmt
og ekkert á henni bólar

lýstu mig upp
svo ég stígi yfir strikið
og stóli á innblásturinn
og augnablikið



* Ljósmynd: Jóhann Smári Karlsson.

19.10.12

Brandarinn mikli

Fyrr í dag hrökklaðist ég í vesaldómi mínum inn á Starbucks, og þegar afgreiðslustrákurinn krafði mig um nafn til að rita á götumálið mitt, kvaðst ég heita Batman.

Honum stökk ekki bros, heldur ritaði þetta stórum stöfum á götumálið.

BATMAN.

Skömmu síðar, þegar kaffið mitt var komið í götumálið sem á stóð BATMAN, kallaði annar afgreiðslustrákur: „Batman! Kaffi Batmans er tilbúið!“

Honum stökk ekki heldur bros.

Ég tók við götumálinu og gekk út.

Frönskunám. Fimmti kafli

Sænsku stelpurnar tvær sem eru með mér í bekk virðast ekki geta troðið því inn í hausinn á sér að ég skil það sem þær segja á sænsku.

Og ef ég reyni að tala við þær á dönsku flissa þær bara og horfa á mig eins og ég sé geðveikur.

Kannski er ég geðveikur.


18.10.12

Frönskunám. Fjórði kafli

Þegar ég tala íslensku er röddin í mér oft býsna djúp.

Þegar ég tala ensku dýpkar hún enn.

Þegar ég reyni að tala frönsku verður hún ÓGEÐSLEGA djúp.

Að safna sæði stórmenna

Seint verður sagt um breska rithöfundinn og orustuflugmanninn Roald Dahl sagt að hann hafi á síðum bóka sinna dregið upp margslungnar og djúpar persónulýsingar. En sögurnar hans eru oft býsna skemmtilegar, alltaf mjög læsilegar, og stundum frekar fyndnar. Þar er Uncle Oswald frá 1979 engin undantekning. Titilpersónan er mesti kvennabósi sem sögur fara af og hefur barnungur sængað með tugum kvenna. Meðan á námsdvöl hans í París stendur finnur hann upp öflugasta frygðarvaka allra tíma og þá eru honum allir vegir færir. Hann selur ástarlyf þetta í töfluformi til efri stéttar Parísarborgar og efnast vel. En hann lætur auðvitað ekki þar við sitja. Síðar fær hann föngulega samstarfskonu sína til að táldraga frægustu menn Evrópu, meðal annars Monet, Stravinsky, Picasso, Freud og Proust, með hjálp ástarlyfsins. Hún lætur þá gæða sér á súkkulaði-trúfflum sem innihalda frygðarvakann og í kjölfarið tryllast þeir og nauðga henni. Þau Oswald hyggjast svo selja sæðið úr stórmennum Evrópu (þau safna sæðinu í smokka) og komast í álnir.

Bókin er svo smekklaus og yfirgengileg að lesandinn lítur fram hjá afbrigðilegheitunum, að vísu dálítið rjóður og trekktur á taugum, og hlær að allri vitleysunni, svo langt er farið yfir strikið. Dahl byggir Oswald frænda lauslega á Ítalanum Giacomo Girolamo Casanova de Seingalt, sem hefur í síðari tíð einkum orðið þekktur fyrir stóðlífi sitt (nafnið Casanova er auðvitað löngu orðið samnefnari fyrir „kvennaflagari“), þótt sjálfur hafi Giacomo einungis litið á kynlífsiðkun sína sem aukagetu. Fyrst og síðast var hann ævintýramaður, heimspekingur og cosmopolite. Hann ritaði á frönsku, með ýmsum ítölskuslettum, stórskemmtilega ævisögu í mörgum bindum, Histoire de ma vie (Saga lífs míns), og sú bók er víst ein gleggsta heimild sem til er um líf og siði efri stétta evrópsks samfélags á átjándu öld. Verkið skrifaði hann hniginn að aldri, hafði þá gerst bókasafnsfræðingur tékkneska greifans Joseph Karl von Waldstein. Í Tékklandi fannst Casanova svo leiðinlegt að vera að hann tók að rifja upp æviminningar sínar.

Sagan segir að Roald Dahl hafi ekki heldur verið við eina fjölina felldur. Hann gegndi til dæmis stöðu bólfaraspæjarara bresku þjóðarinnar í síðari heimsstyrjöldinni – að mér skilst. Einhvers staðar las ég líka að hann hefði þá einkum haft það hlutverk að fleka eiginkonur háttsettra manna í Bandaríkjaher, í von um að geta veitt upp úr dísunum mikilvægar upplýsingar þegar þær gættu ekki að sér á koddanum. Einhverju sinni hafði honum tekist að tæla eina slíka upp í rúm til sín, en guggnaði síðna þegar á hólminn var komið. Hann afsakaði sig, tiplaði fram og hringdi til breskra yfirmanna sinna. „Ég get þetta ekki,“ á hann að hafa sagt. „Ég get þetta ekki núna.“

„Roald! Hugsaðu um velferð þjóðar þinnar og skríddu aftur upp í rúm!“ var sagt á hinni línunni.

Svoleiðis var nú það.

Roald Dahl kunni
ekki síður að meta hunda
en konur.

Iðjusemi

Ég las það í bók eftir Frank O'Connor, The Lonely Voice, að hann hefði stundum skrifað fimmtíu uppköst að smásögunum sínum, áður en hann sendi þær frá sér.



Það finnast mér vera mörg uppköst.

17.10.12

Kryppa iPöddunnar

Á þessari lauslátu öld er nauðsynlegt að vita hvar gengið er að góðu útvarpsefni vísu.

Undanfarið hef ég komið mér upp þeim ávana að hlusta á hlaðvarp (podcast) á strunsi mínu um hina nöturlegu og gráu borg, París.

Til dæmis eru þættir Péturs Gunnarssonar um Roussaeu mjög fínir. Þeim má hala niður hér.

Pétur er þeirri gáfu gæddur að tala hægt, skýrt og óþvingað, en aldrei eins og hann sé að TALA Í ÚTVARPIÐ.

Hið sama verður þó ekki sagt um alla starfsmenn RÚV, en þá er hægt að nýta sér besta eiginleika iPöddunnar, og slökkva á henni.

16.10.12

Orð vikunnar...

... er kjabbi!

Hetjur rafeindaaldar

Konungur nördanna – George Lucas – er kallaður mesti listamaður nútímans í þessari grein.

Ekki leynir sér að höfundur greinarinnar, Camille Paglia, elskar listamanninn heitar en eigið líf.

Svona lítur Lucas út á stundu þar sem einhver tók ljósmynd af honum, en hefði betur sleppt því:

Lucas notar hárgel frá Shockwave.

Sjálfsagt er viðeigandi að tæknilúðinn mesti sé jafnframt mesti listamaðurinn dagsins í dag. Þar með skipar hann sér sess við hlið hinnar stóru hetju nútímans, Steve heitins Jobs, hippíska tæknifrumkvöðulsins sem einnig var dálítið nördalegur.

Hetjur rafeindaaldar hljóta líka að vera dálítið nördalegar. Einu sinni notuðu hetjur spjót, nú nota þær snúrur. 

Hins vegar veit ég svo sem ekki hvort sú fullyrðing að George Lucas sé mesti listamaður nútímans standist skoðun. Ég man þó að mér fundust gömlu Stjörnustríðs-myndirnar rosa skemmtilegar sem barn. Ég horfði á þær aftur og aftur með vinum mínum. Mér fundust þær næstum því jafn skemmtilegar og mér fundust nýju Stjörnustríðsmyndirnar leiðinlegar sem unglingur. 

Jar Jar Binks – mest pirrandi
persóna kvikmyndasögunnar – á
dauðastundinni.

Frönskunám. Þriðji kafli

Þá hef ég formlega hafið frönskunám í Svartaskóla og tengist þar með Sæmundi fróða órjúfanlegum menntaböndum sem ganga í gegnum aldirnar.

Með mér í tímum eru nokkrir kynlegir kvistir, og ýmissa þjóða kykvendi.

Nánar tiltekið sækja sér þarna frönskuþekkingu fulltrúar eftirfarandi þjóða:
- Litháens (ofmeikuð móðir og geðsýkislegur sonur hennar)
- Venezúela (einn feitur og feiminn)
- Svíþjóðar (tvær gellur, önnur með svínslegt nef)
- Taívans (fuglsleg og hlédræg)
- Nígeríu (mjög hláturmild)
- Rússlands (hún brosir stundum til mín eins og hún ætli sér að drepa mig)
- Bandaríkjanna (hún er svo stressuð að einu sinni kleip hún mig mjög fast í handlegginn og hló mjög hvellt inn í eyrað á mér)
- Kína (þegar hún talar koma engin hljóð – engin)
- Grikklands (hann svarar ÖLLUM spurningum kennarans, og mjög hratt til að vera fyrstur, og mjög hátt til að það heyrist snjallast í honum, og ALLTAF vitlaust)

Þetta er ágætt.

Í fyrsta tímanum kynnti sig allir og endurtóku nöfn hinna, eins og gert er í leikskóla.

Líkt og útlendinga er siður hlógu allir hátt og dátt að mínu nafni og ranghvolfdu augunum.

Síðan skrifaði kennarinn það á töfluna:
SVERRIR 

og allir voru látnir endurtaka það til að æfa sig: „SVERRIR! SVERRIR! SVERRIR!“

nema bara að það hljómaði einhvern veginn svona: “SEJRLESAJR! POSEAOFJ! LKEFLJEL!“

Með dálæti á náttborðum

Einar hafði dálæti á náttborðum. Í huga hans endurspeglaði fjöldi náttborða í hverju samfélagi stig velferðarinnar þar. Náttborð voru – í huga Einars – velmegunarborð (en það kallaði hann stundum náttborð í gamni, velmegunarborð) sem enginn þurfti á að halda, en allir gátu þó notið – „og þurftu þá þar með kannski á að halda!“ bætti hann oft við hlæjandi, og hló þá kannski þar til ískraði í lungunum, einhvern veginn svona: „hnjooooí, hnjooooí, hnjooooooí.“ Þegar hann steig inn á nýtt heimili tók hann alltaf fyrst eftir því hvort í húsinu væri náttborð og þá hversu mörg, ef svo var, og síðan laumaðist hann til að kanna áferð hvers náttborðs fyrir sig – hvers velmegunarborðs fyrir sig. Honum fannst gott að handleika náttborðin, þefa af þeim, kyssa þau jafnvel þegar enginn sá. Sjálfur átti hann ekkert náttborð, þótt það stæði allt til bóta.

Án titils

Í dag hafa Amazon, Starbucks, Delance Place, Transparent Language, Waterstones, IcelandAir, Lumosity og Wordsmith sent mér tölvupósta.

Þá hefur Atlantsolía sent mér sms.

Engir aðrir.

Tilhugsunin um náttborð

Oft er talað um það að þessi eða hin bókin eigi heima „á hverju náttborði“.

Ég rak mig á það um daginn að ég hef sjálfur aldrei átt slíkan innanstokksmun – svonefnt „náttborð“.

Ég held að mig langi líka ekkert í náttborð og að ég sé eiginlega feginn því að hafa aldrei átt náttborð.

Mér finnst tilhugsunin um náttborð ógeðsleg.

Náttborð.

Interrobang...

... heitir greinarmerki sem er samruni upphrópunarmerkis og spurningarmerkis:

! + ? = ‽

Þetta finnst mér skemmtilegt af því að ég er svo vitlaus.

Og er það ekki bara allt í lagi‽

Eigingjarnir, ungir menn

        Dálítið samhengislaus – sorrí! – pistill um sjálfhverfu okkar

Einu sinni sat ég tíma í heimspekilegum forspjallsvísindum („fílunni“), sem var skásti kúrsinn sem ég tók í lögfræði, enda fjallaði hann ekki um lögfræði.

Þar hjó ég sérstaklega eftir því þegar einn kennarinn sagði eitthvað á þessa leið:

„... og svo, kæru nemendur mínir, er til kenning sem segir að allir menn séu inn við beinið eigingjarnir og því hljótist öll breytni þeirra af þessari eðlislægu eigingirni þeirra, sem er einkum vinsæl hugmynd meðal ungra manna...“

Ég og vinir mínir hlógum glottuleitir að orðum hins einfalda kennara, sem var greinilega orðinn gamall og meyr. „Auðvitað eru allir menn eigingjarnir!“ hvískruðum við okkar á milli, drungalegum röddum. „Hann er bara bjáni að halda eitthvað annað!“

Rökin fyrir skoðun okkar voru einföld:
a. flestir menn gera það sem þeir vilja á einn eða annan hátt, eða virkar þeim í hag,
b. ef þeir gera eitthvað sem út á við virkar helst gert fyrir aðra, fórna til dæmis eigin lífi til að bjarga limum annarrar manneskju, er það einungis vegna þess að þeir gætu ekki lifað með því að hafa ekki aðhafst neitt. Þar með er þetta það sem þeir vilja, etc.
c. Svona mætti áfram spinna listilegar, mjög margslungnar og sannfærandi rökfléttur, en ég nenni því ekki.
Enda hef ég líka löngu snúist á sveif með gamla, meyra kennaranum.

Ég held að nútímasamfélag manna geri hins vegar mikið til að telja okkur trú um hið gagnstæða: þ.e. að allir menn séu eigingjarnir. Frá því að við komumst til vits og ára er hamrað inn í okkur að við séum naflar alheimsins og allt gert til að auka einstaklingsvitund okkar, jagast á fráleitum hugmyndum eins og „ást við fyrstu sýn“, „snilligáfu“, „öskubusku-sögum“, við tökum öll sömu prófin* til að gá hvert okkar sá gáfaðast, það er meira að segja til eitthvað sem heitir einstaklingshyggja (individualismus – mjög fyndið orð), kenning sem orkar einkum sterkt á þá sem halda að þeir séu merkilegri en þeir eru í raun og sannleika. Síauknar kröfur auglýsingabransans/ háskólasamfélagsins/skemmtanaiðnaðarins (sem er í raun allt sama batterýið) um „velgengni“, „frægð“, „viðurkenningu“, „flottan starfsferil“ o.s.frv., ýta svo enn undir þá heimskulegu hugmynd að hamingjan felist í „velgengni“, „frægð“, „viðurkenningu“, „flottum starfsferli“ o.s.frv., og gera okkur þar með enn óhamingjusamari, enda stöndum við okkur aldrei jafn vel og við gætum staðið okkur. Það er frekar ótrúlegt að hugsa til þess – og við skiljum það sjálfsagt ekki, þótt ég sé að skrifa það nú og þú að lesa það – að enn eru til á jörðinni samfélög með engu öngþveiti, engu ritmál, engri reikningsfræði, engum nöfnum yfir valdhafa og stjórnendur; engum skuldum, reikningum, betlurum, þrotabúum, dánarbúum (þ.e. engum peningum!); og svo framvegis. Í riti frá 16. öld segir Erasmus frá Rotterdam frá hollenskum hópi fólks – sjálfsagt fjölskyldu – sem hírðist í þröngu sambýli, drakk úr sömu súpuskál, kleip af sama brauðhleif, kannski fimmtán manns sem hegðuðu sér næstum eins og ein vera (baðstofan í torfbæjunum íslensku kemst sjálfsagt nálægt þessu), en í dag eru til miðaldra menn (og voru auðvitað líka til þá í einhverri mynd) sem eiga 800 fermetra einbýlishús þrátt fyrir að þeir hafi kannski aldrei gert neitt sérstaklega merkilegt (ég er með nöfn í huga), og búa þar ásamt fallegri, ungri eiginkonu sinni sem þykist elska þá, en er í rauninni að sofa hjá mér.

En þarna hljóp ég aðeins fram úr sjálfum mér...

Það sem ég vildi sagt hafa!

Er sumsé:

Að ég held ekki lengur að allir menn séu eigingjarnir.

En þá vaknar önnur spurning:

Er ég þar með orðinn „gamall og meyr“?


* Skólastofnanir hafa verið til í vel rúmlega tvö þúsund ár, en mig minnir að einkunnakerfið (í sinni fyrstu mynd) sé ekki nema rúmlega tvö hundruð ára – ég gæti gúglað það, en til þess er ég of latur. Sjálfsagt hafa gáfnaljós byrjað að stimpla nemendur með tölustöfum í kjölfar þess að hugmyndir um „höfundinn“ tóku að mótast og menn verða dálítið ástfangnari af sjálfum sér, með auknum frítíma, frekari lífsgæðum, etc. Í dag má ekki einu sinni stela lagstúfi frá poppsöngvara án þess að hann hafi af manni aleiguna í málaferlum, en á 16. öld kippti Montaigne til dæmis heilu klausunum orðréttum eða lítillega breyttum úr skrifum eftirlætis grísku höfundanna sinna og setti inn í eigin ritsmíðar og það taldist til fyrirmyndar-vinnubragða. Nú er þetta hins vegar orðið þannig að höfundar halda sjálfir úti „aðdáendasíðum“ fyrir aðdáendur sína; til dæmis rambaði ég í eymd minni um daginn inn á síðu Stefáns Mána á FB og sá að þar hafði kona ein ritað að einhver bók eftir hann væri mjög góð bók og að hún hefði notið þess að lesa hana. Sú athugasemd konunnar hafði fengið eitt „læk“ – frá Stefáni Mána.

14.10.12

Sagan um fiskimanninn

Fiskimaður einn reri til sjós á hverjum morgni. Hann dró björg í bú, seldi síðan það sem eftir var veiðinnar til kaupmannsins í þorpinu. Með þessu móti gat hann framfleytt fjölskyldu sinni og séð til þess að börnin níu yxu úr grasi, glöð, rjóð og pattaraleg.

Þegar hann hafði lokið sjóstörfunum át hann daglega hádegisverð með konu sinni og börnunum níu, glöðum, rjóðum og pattaralegum, en varði síðan því sem eftir lifði dags í að spila á gítarinn, mála fjöll og rölta um nálægar sveitir. Þegar börnin komu heim úr skólanum lék hann við þau myllu og FIFA 2012, en las fyrir þau sögur á kvöldin. Síðustu stundir dagsins voru helgaðar eiginkonu hans, sem hann elskaði heitar en iljarnar á sér.

Næsta morgun vaknaði hann svo aftur snemma, reri til sjós, svoleiðis gekk þetta í hringi.

Dag einn kom kaupmaðurinn í þorpinu að vitja hans. „Þú veiðir besta og feitasta fisk sem ég hef um ævi mína bragðað!“ sagði kaupmaðurinn, sem var feitur og fallegur. „Ef þú seldir mér meiri fisk yrðum við báðir ríkir menn!“

„Ég sel þér allan þann fisk sem ekki fer í að næra mig og fjölskyldu mína,“ sagði fiskimaðurinn og lagði frá sér gítarinn.

„Þá verðurðu að veiða meiri fisk!“ sagði kaupmaðurinn og fylgdist undrandi með fiskimanninum undirbúa myllu við börnin sín, sem voru að koma heim úr skólanum.

„Ég veiði þann fisk sem ég þarf til að geta lifað góðu lífi, en ekki meira en það,“ sagði fiskimaðurinn.

„En þú gætir lifað enn betra lífi ef þú veiddir enn meiri fisk úr sjónum!“ sagði kaupmaðurinn og brosti út að eyrum. „Þú vinnur of lítið, karl minn. Ef þú ynnir meira gætirðu byggt þér stærra hús, keypt þér hljómmeiri gítar og gefið konu þinni tískuflíkur frá París.“

Fiskimaðurinn brosti. Hann vissi að þetta var rétt hjá kaupmanninum, en bandaði samt frá sér hugmyndinni eins og hverri annarri vitleysu.

„Þú gætir líka lagt til hliðar heilmikið fé, sem myndi gera þér fært að lifa öruggu og afslöppuðu lífi á efri árum.“

„Hvernig þá?“

„Ja, þú gætir til dæmis, þegar þú sest í helgan stein, róið til sjós í morgunsárið þér til ánægju, en varið afgangi dagsins í að spila á gítarinn þinn, leika myllu og FIFA 2012 við börnin þín, eytt kvöldunum með konunni þinni...“

Farfugl

        (vor 2011, gömul upptaka)

taktu í höndina á mér
og hífðu mig upp
úr þessari botnlausu gjá
geym mig geym mig hjá þér
og gerðu mér fært að búa til raunveruleika úr þrá

og eins og farfugl
á flugi inn í nóttina
mun ég fylgja þér
gegnum hvað sem er hvað sem fyrir ber
eins og farfugl
á flugi inn í nóttina
ef þú finnur í þér taug sem treystir mér

þú ert erfið erfið erfið
og allir heilvita menn
myndu halda sig frá þér
en svo þegar ég sé þig sé þig sé þig
virðist svarið blasa við = ég á að vera hjá þér

og eins og farfugl
á flugi inn í nóttina...

ég leyni því ekki
að lífsbrautin er hál
en um leið og þú leggur á minnið
að við getum ekki allt
þá verður þetta ekkert mál

ég sem og sem og sem
um þig söngva og ljóð
eins og rómantískur bjáni
því ég veit ég veit ég veit
að það er aðeins eins bókstafs munur á óláni og láni

og eins og farfugl
á flugi inn í nóttina...

13.10.12

Úr dagbók

Fyrr í dag gekk ég um fagran kynjaskóg, baðaðan haustlitum, ásamt franskri stórfjölskyldu sem tók mig, af einskærri gæsku sinni, að sér, svo að ég lenti ekki á villigötum, en í þeim fríða hópi var á meðal annarra mjög ljúf, vangefin kona á fertugsaldri, sem ræddi við mig á þessa leið:

„Kúkú!“

„Kúku.“

„(...)“

„(...)“

„Kúkú!“

„Kúku.“

„(...)“

„(...)“

„Kúkú!“

Sól skein í heiði og litir skógarins voru dásamlega margbreytilegir. Ég týndi fjólubláa sveppi sem litu út fyrir að vera mjög eitaðir og á eftir ætla ég að borða þá.

Í fjarska blésu menn frjálslega í lúður, því að þeir vildu skjóta elgdýr.


Hótun til lesenda

Nýlegri klámbók, Fimmtíu blæbrigðum af gráum lit, lýsir Forlagið meðal annars með orðunum „áleitin og ómótstæðileg skáldsaga“ og klykkir svo út með skipun: „sem þú leggur ekki frá þér fyrr en að lestri loknum“. (Áh. mín.)

Óheppilegt

Um bók eftir Hallgrím Helgason, sem kom út í fyrra, segir á bókarkápu: „Ekki hægt að loka þessari bók“, sem hlýtur að vera óheppilegt fyrir þann sem opnar hana.

Spennandi plötuútgáfa

Í tölvupósti einum, sem einhver sendi mér í dag án þess að ég viti af hverju, segir svo um nýútkomna plötu íslensks tónlistarmanns*:

„On his new release, Born to Be Free, Borko captures the essence of both calmness and complexity with a sense of charismatic vibrancy.“ [Mín greinarmerkja- og stafsetning.]

Þessi lýsing virkar kannski ekki svo ýkja klikkuð við fyrsta lestur, en hún er hins vegar stjörnubiluð ef að er gáð, einkum ef úthaldsgóður lesandi rennir yfir hana aftur:

„On his new release, Born to Be Free, Borko captures the essence of both calmness and complexity with a sense of charismatic vibrancy.“

Og síðan aftur:

„On his new release, Born to Be Free, Borko captures the essence of both calmness and complexity with a sense of charismatic vibrancy.“

Og síðan aftur:

„On his new release, Born to Be Free, Borko captures the essence of both calmness and complexity with a sense of charismatic vibrancy.“

Og síðan aftur:

„On his new release, Born to Be Free, Borko captures the essence of both calmness and complexity with a sense of charismatic vibrancy.“

Þetta mætti sjálfsagt íslenska svo:

„Á nýrri hljómplötu, „Fæddur til frelsisins“, fangar Borko í senn kjarna rólegheitanna og þess sem er margslungið, en ýjar jafnframt að því að hann sé heillandi persónuleiki.“

Mér finnst það nokkuð vel að verki staðið, ef Borko hefur tekist að fanga „kjarna rólegheitanna“ með nokkrum mínútum af hljóði, en auk þess „kjarna hins margslungna“, og það án þess að koma öðrum fyrir sjónir sem þorpari.


* Ég tek fram að ég hef ekki hlustað á plötu Borko, og ég er viss um að hún er hin fínasta smíði, sem tengist efni þessarar færslu líka ekki neitt.

Án titils

        (Eric Chevillard)

Fluga ein lenti á nefinu á mér. Þetta pirraði mig hvorki né angraði, en ég var þakklátur böðlinum sem hafði nýverið hoggið af mér höfuðið.

10.10.12

Bjartsýnisblús

ljúft er að líða illa
– lífið er pyntingagræja –
en stundum er líka stórráð
að stökkva’ út á götu og hlæja

gott er að grenja úr sér lungun
– gubba af tilvistarkvíða –
en stundum er líka stórráð
að stökkva' út á götu og #!!%

dásamlegt verður að drepast
– deyja og afþakka kransa –
en stundum er líka stórráð
að stökkva’ út á götu og dansa

Stórborgarlífið

Nú hefur götunni minni í París, rue Jean et Marie Moinon, verið lokað af lögreglubílum. Þetta er ekki einsdæmi, enda stundar dópsalagengi starfsemi sína hér í götunni, auk þess búa ýmsar vafasamar persónur í næsta nágrenni, melludólgar, gleðikonur, fleiri. Lögreglumenn með vélskotabyssur hafa raðað sér upp hér skammt frá glugganum mínum og innan úr einu greninu berast móðursýkisleg, dýrsleg öskur, skræk og óttaleg. Sírenur gelta í fjarska. Á meðan held ég áfram að hripa niður ljóð og gera nokkrar armbeygjur til að liðka mig. Quinoa-korn malla í potti í eldhúskróknum. Kvöldið er rétt að hefjast.

Lemúrinn...











... er býsna fín íslensk síða.

Tímalykkjarinn

Um daginn sá ég kvikmyndina Looper með Bruce Willis og Jeff Daniels og öðru frægu fólki sem ég man ekki hvað heitir.

Í myndinni lítur Jeff Daniels alveg eins út og slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek:

Daniels.
Žižek.

Tímalykkjarinn* var á víxl mjög hæg og mjög hröð. Á köflum var spennan alveg óbærileg! Þá reis ég hálfur upp úr sætinu og greip í ráðvinglan minni þjösnataki um permanett konunnar fyrir framan mig, sem brást ókvæða við þegar ég neitaði að bjóða henni á stefnumót í framhaldinu.

Ég hafði annars gaman af þessari mynd, að minnsta kosti á meðan á henni stóð. Ég vara viðkvæma þó við því að Bruce Willis drepur að þessu sinni fólk af víðara aldursbili en hann er vanur.



* Tímalúpparinn? Tímahnykillinn? Tímasvindlarinn? Tímabeygjarinn? Tímabrjóturinn? Tímaþjófurinn? Tímillinn? Tommi tími? Tímahlykkjarinn? Tímarottan?

Morgunverður meistarans

Kaffilús, vatnslögg og mjólkurdreitill.

9.10.12

... (og bólur) boð á undan sér

Þegar ég vaknaði í morgun sá ég mér til hryllings að gríðarstór, dökkrauð (eiginlega fjólublá) bóla hafði vaknað til lífsins á lærinu á mér.

Svona er lífið nú ógeðslegt.

Áðan settist ég svo í hægindastól til að lesa viðtal, fann þá nístandi sársauka í lærinu. Húslykillinn hafði stungist í gegnum buxnavasann og beint í bóluna fjólubláu, sem nú gubbaði dimmrauðu blóði á lærið.

Já, krakkar mínir. Ekki gera slysin...

8.10.12

Hvað er trefill?

Einu sinni rétti ég upp hönd í íslenskutíma, þá fimmtán ára gamall, og spurði:

„Kennari, hvað er trefill?“

Kennarinn, sem gerði á þessum tímapunkti náms- og þroskaferils míns þá kröfu að ég vissi hvað trefill væri, sagði: „Fyrirgefðu?“

„Hvað er trefill?“

Það jók enn á undrun kennara míns, Ingibjargar, að ég bar orðið mjög undarlega fram, treee-fihl, frekar en að notast við hina venjubundnu framsögn, tre-vidl.

„Trefill er hálsklútur, úr ull, silki, e.þ.h.,“ sagði Ingibjörg kennari.

Hér rann upp fyrir mér ljós. „Ah. Trefill!“ sagði ég.*

Síðan þá hef ég átt marga trefla.


Á menntaskólaárunum fór ég til dæmis í gegnum „ég er listræn, ung spíra í gamaldags sjóarafrakka og með trefil, alltaf sjúgandi upp í nefið“-tímabilið (eins og svo margir gera), þar sem ekki var óalgengt að sjá mig bogra fram á eitthvert klístrað tréborð í djúpum þönkum, mjög fölur og gáfumannslegur. Þá átti ég vænt treflasafn.

Þeim treflum hef ég síðan flestum týnt. Ég hef týnt treflum í skólum, á pöbbum, í starfsviðtölum, á skipi. Einu sinni reyndi gömul kærasta að kyrkja mig með trefli.

Notaður, gamall trefill ljáir ungum
mönnum gáfulegt yfirbragð.

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað ég svo að kominn væri tími til að fara með trefilsáhuga minn upp á næsta stig. Ég hafði þá nýverið lesið yfir mjög langa og krefjandi háskólaritgerð um íbúðamarkaðinn í Færeyjum og fengið ríflega greitt fyrir verkið af höfundi ritsmíðarinnar, metnaðarfullum, lesblindum áhættufjárfesti, og því splæsti ég nú í rándýran silkitrefil í nýaldar-snobb-búðinni Merci, á Beaumarchais-búlívarði.

Næstu dagar liðu í dásamlega algleymi ástar minnar og trefilsins, sem var gulur.

Tveimur dögum síðar settist ég inn á kaffihús, tók þar af mér trefilinn og hugsaði: „Ef ég legg trefilinn á þennan stól, þá mun ég gleyma honum.“

Daginn eftir keypti ég mér nýjan trefil í Merci og lifði svo á baunum næstu þrjár vikurnar, eða þangað til ég týndi Merci-trefli II.

Nú er ég staddur í Lundúnum og á um sárt að binda. Ég er strax kominn með kvef og byrjaður að barma mér, enda trefilslaus.

Bágt er sér að barma á haustin.

Í kvöld held ég aftur til Parísar, með lest.

Ég mun leggja í ferðalagið berhálsa, kaldur, blautur og sjúgandi upp í nefið.

Um háls minn mun ég bera ýmsa drauga af treflum fortíðar.



Ég vona að það verði ekki dragsúgur í lestarvagninum.


* Þess má til gamans geta að trefill getur einnig merkt „skilningssljór maður, heimskingi“.

6.10.12

Flauelsbuxur til að yrkja ljóð í

áðan keypti ég mér
skínandi fínar
grænar
flauelsbuxur
stærð 32/31
á 19,90 bresk pund
í búðinni sívinsælu
H&M

þetta er fyrsta ljóðið
sem ég yrki
í þessum
flauelsbuxum

Hverjir sögðu...?

„Við viljum fransbrauð! Við viljum fransbrauð! Við viljum fransbrauð!“

Gæfumerki

Í gær skeit á mig dúfa.


Þetta er ekki einsdæmi.

5.10.12

Mannkynssagan

Stundum óttast ég að allt í mannkynssögunni hafi nú þegar skeð og það eina sem við getum nú gert sé að finna upp ný tæki til að gera á nýjan hátt það sem við gerum nú þegar á annan hátt (sendiboði, bréfdúfa, póstþjónusta, tölvupóstur), (stór sími, minni sími, enn minni sími, mjög lítill sími sem gerir mjög margt annað líka). Síðan ferðumst við um vettvang hinna sögufrægu atvika og skoðum þá, einkum í gegnum myndavélarlinsu, svo að við getum skoðað þessa staði aftur þegar við komum heim, til dæmis í tölvunni, þar sem við getum spilað „slideshow“ fyrir vini okkar.

Stundum sjáum við líka frægt fólk og þá segjum við öðrum frá því, til að við getum sannað fyrir öðrum að við höfum raunverulega séð hinn fræga.

Ljósmyndin gæti þá litið út eitthvað á þessa leið:

Ljósmyndin sem við
gætum hafa tekið.

„Ég sá Brad Pitt í gær,“ myndum við til dæmis segja. Og: „Hann hélt á barni,“ og félagi okkar veit samstundis um hvað málið snýst.

4.10.12

Stuð í stórborginni

Það er gott að vera kominn aftur til Lundúna.

Hér þekkir mig hver kjaftur.

Hver kjaftur.

Til dæmis tók glaðbeitti (hýri) kaffiþjóninn á The Café í Foyles bakföll af gleði þegar hann sá mig.

„Hæææh!“

Vömbin dúaði glaðhlakkalega upp og niður, upp og niður, upp og niður.

„Halló,“ sagði ég.

„Flottur bolur!“

Bolurinn.


„Takk.“

„Ertu að reyna að heilla mig með þessum flotta bol?“

„Já, ég meina, nei. Já.“

„Heyrðu nú mig! Það þýðir ekkert að borga mér með Evrum!“

„Æ, sorrí. Ég er svo mikill heimsborgari...“

„He, he, he. Þú ert nú enginn heimsborgari.“

„(...)“

„Gott að sjá þig!“

„Sömó.“

Eins grét ungverska stúlkan í The London Review Bookstore fögrum tárum þegar hún sá mig og kreisti næstum því úr mér líftóruna. Síðan spurði hún hvað drifið hefði á daga mína undanfarna mánuði.

„Ekkert.“

„Það er frábært!“

Pítsusalarnir í Ecco hafa notað peningana sem ég og blaðamannastjarnan Heiðar Lind Hansson ókum til þeirra í hjólbörum á sínum tíma til að endurinnrétta veitingastaðinn. Ítalska stúlkan brosti allan hringinn og spurði hvort ekki mætti bjóða mér San Pellegrino-svaladrykk til að skola niður öllu hveitinu.

„Með sítrónubragði, takk.“

Í kvöld hyggst ég svo kjassa vini mína í Camden, tannlausa rónann og afríska kássumanninn á markaðnum.

Kássan.

Hert öryggisgæsla á baðherbergjum Starbucks

Nú er ég nýkominn til Lundúnaborgar, að hitta þar leirkarl.

Sá er mikið gæskunnar gólem, réttsýn og göfuglyndur.

Fljótlega eftir að við leirkarlinn höfðum faðmast „hæ“ þurfti ég að pissa.

Við leirkarlinn leituðum því skjóls frá skarkala stórborgarinnar inni á kaffihúsinu Starbucks, með það fyrir augum að ég gæti nýtt mér þar baðherbergisaðstöðuna.

Ég tók eftir því að hurðin var læst þegar ég rak höfuðið í hana.

Miði á veggnum sagði: „Nú er bannað að fara á klósettið nema maður kaupi sér kaffibolla. Ef þú keypaðir þér kaffibolla máttu ýta á takkann. Njóttu dagsins!“

Ég ýtti á takkann og þá spilaðist örstuttur lagbútur, mjög fjörugur, og ég dillaði mér í takt.

Mjög mjó rödd smaug út um glufu og sagði: „Þrýstu á hurðina... núna.“

„Ha?“

„Þrýstu á hurðina... núna.“

„Ha?“

„ÞRÝSTU Á HURÐINA, SVERRIR... NÚNA!“

Ég þrýsti á hurðina og slapp inn í heilög vé hins öryggisvarða salernis.

Þegar ég sneri aftur, léttur í spori, gladdi leirkarlinn mig með ameríkanó og kexköku.

Frönskunámið: Framhaldssaga. Annar hluti

Í gær tók ég skriflegt próf í frönsku. 

Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég verð með Kínverjunum í hópi. 

3.10.12

Hver ástarsaga er draugasaga

Ég held orðið dálítið upp á bandaríska rithöfundinn David Foster Wallace. Á of stuttri ævi gaf hann út tvær skáldsögur, auk þess smásagna- og greinasöfn, og vann lengi að þriðju skáldsögunni. Hann er nú talinn einn merkasti rithöfundar samtíðarinnar þar í landi, og það með réttu, ef marka má auðmjúklegar skoðanir mínar.

Hann þjáðist frá unglingsaldri af öfgakenndum svitaköstum, einkum á almannafæri, og gekk því jafnan með höfuðklút til að svitinn streymdi ekki í stríðum straumum niður ennið, í augun o.s.fr.

Á íslensku kallast svona bandana
held ég „buff“ og virðast vera mjög í tísku
hjá fólki undir fjögurra ára aldri.

Einnig barðist hann við alvarlegt þunglyndi (eins og mörg skrifa hans bera með sér) og lagðist nokkrum sinnum inn á spítala, þurfti til að mynda að gera hlé á námi sínu við Amherst College oftar en einu sinni til að leita sér lækninga, en þar var hann afburðanemandi, hlaut styrki, dúxaði o.s.fr. Þá stríddi hann við drykkjuvandamál, reykti auk þess maríúana af mikilli samviskusemi frá ungum aldri, en tókst síðar að vinna bug á þeirri fíkn og sótti upp frá því AA-fundi, allt að 5x/viku. Í þekktustu skáldsögu sinni, Infinite Jest, byggir hann mikið á þessari reynslu.

Þegar hann dó (hann hengdi sig árið 2006) hafði hann unnið að þriðju skáldsögu sinni, The Pale King, í heilan áratug. Sú bók fjallaði um leiða (e. boredom.) í margbreytilegri mynd. Ég hugsa undanfarna áratugi hafi dauði fárra bandarískra listamanna snert jafn-marga jafn-djúpt þar í landi (og þá á ég einungis við þá sem urðu raunverulega hryggir), kannski Michael Jackson veiti honum einhverja samkeppni.

Hugsanlegt er að síðasta skáldsaga – sú sem fjallaði um leiðindin – hafi riðið honum að fullu, enda viðfangsefnið ekki sérlega upplífgandi.

Um bjórakrasíu og nútímabrölt manna segir þar meðal annars:

„To function effectively in an environment that precludes everything vital and human is the key to modern life.“

Og:

„If you are immune to boredom there is literally nothing you cannot accomplish.“

Þetta skynjaði ég stundum á eigin skinni þegar ég var að læra lögfræði við Háskóla Íslands.

Þekkasta bók Wallace heitir Infinite Jest og er hvorki meira né minna en 1.200 blaðsíður. Sú kom út árið 1996, minnir mig. Ég nenni svo sem ekki að rekja söguþráðinn, enda til lítils, get þess þó að í söguheiminum er meðal annars til bíómynd sem er svo skemmtileg að fólk vill helst ekki gera neitt annað en að horfa á hana, og deyr að lokum.

Wallace vildi gefa Infinite Jest undirtitilinn „a failed entertainment“, sem útgefendunum fannst af einhverjum ástæðum ekki söluvænlegt. (Auk þess er bókin alls ekki misheppnuð afþreying; hún er mjög skemmtileg.) Wallace hafði áhyggjur af því hversu sólgnir samlandar sínir voru orðnir í innihaldslausa afþreyingu og hafði þá kannski mestar áhyggjur af sjálfum sér, enda var hann dolfallinn sjónvarpsfíkill. „Ef ég á sjónvarpstæki, þýðir það að ég horfi á það öllum stundum,“ sagði hann einu sinni í viðtali. „Þess vegna á ég ekki sjónvarpstæki.“

Hann hélt því fram að meginmarkmið bókmenntanna væri að slá á einmanaleika hvers manns. Ef það gengi eftir, væri einhverju náð. Á sínum yngri árum var hann mjög tilraunaglaður og vitsmunalegur, sem sést glöggt á fyrstu skáldsögunni, The Broom of the System, og smásagnasafninu Girl with Curious Hair, en síðar breytti hann um stefnu, eða þegar hann tók að vinna að Infinite Jest, hætti þá að fíflast með metafiksjón-pælingar í anda fyrri átrúnaðargoða sinna, Thomas Pynchon, John Barth, fleiri, og vildi nú hafa einlægnina að leiðarljósi. Stundum var Infinite Jest jafnvel nefnd í sömu andrá og grugg-tónlistarstefnan, Nirvana og fleiri pínlega einlægir listamenn, og þá kölluð grunge fiction, Wallace(i) til bæði undrunar og kvíða, enda sór hann sig ekki beinlínis inn í þann hóp, þótt hann deildi kannski stundum með þeim vissum einkennum, vissi raunar harla fátt um Kurt Cobain og þá kappa alla.

Þarsíðustu helgi las ég, með nokkurri eftirvæntingu, nýútkomna ævisögu hans, Every Love Story Is a Ghost Story, eftir náunga sem heitir D.T. Max, ólmur í að fletta ofan af bókmenntasnillingnum og átrúnaðargoði hundruða bólugrafinna gleraugnagláma í Bandaríkjunum, velta mér upp úr breyskleika hans og sanna fyrir mér að hann væri einungis mennskur, svona eins og maður gerir. Ævisaga þessi reyndist mjög læsileg og því húrraði ég í gegnum hana, fyrst og síðast þó vegna þess til hversu sterkrar tengingar ég finn við Wallace sjálfan, en ekki vegna þess að höfundurinn hafi heillað mig neitt sérstaklega – ég sá fyrir mér dálítið leiðinlegan, aðeins of þungan, fausk.

Satt að segja hafði ég eiginlega á tilfinningunni að D.T. Ford væri fyrst og síðast umhugað um að enginn gæti staðið hann að ranghermi eða -færslum um líf og störf DFW. Ford leyfir sér sjaldan, ef nokkurn tímann, að kafa undir yfirborðið; með öðrum orðum er engin ljóðræna í textanum, sem minnir stundum á vandaða skólaritgerð. Wallace skrifaði til dæmis 1.200 blaðsíðna bók (Infinite Jest) til að gera upp sakirnar við móður sína – hjá þessum höfundi var sumsé um móðurmorð, ekki föðurmorð, að ræða – en lesandi Every Love Story Is a Ghost Story fær litlar sem engar skýringar á því hvað nákvæmlega hafi hvílt svona þungt á hjarta DFW að þessu leyti; hvers vegna þurfti hann að útkljá málin við móður sína með jafn-drastískum hætti? Eins sængar Wallace með svona fjögur þúsund milljón konum (sem kom mér sannarlega á óvart, þar sem ég hafði séð hann fyrir mér sem e.k. nútíma-Tolstoy, hreinlyndan, göfugan, réttsýnan, sem hann svo sem var á vissan hátt, þótt breytnin hafi ekki alltaf verið í samræmi við lífsreglurnar og hugsunina, eins og gengur...) – getur verið að hann hafi hrökklast kvenna á milli vegna einhverra móðurkomplexa, eða var það vegna þess að hann var hinn dæmigerði þjáði snillingur? Þessu pælir Ford ekkert í, enda er hann leiðindafauskur sem hefur alls ekki nógu djúpan áhuga á kynlífi náungans og sálardjöflum, og dæmir sig þar með úr leik sem góður ævisagnaritari.

Skemmtilegustu brotin eru beinar tilvitnanir í bréf Wallace, en hann skrifaðist í áranna rás á við marga nútímarisa bandarískra bókmennta, s.s. Jonathan Franzen og John DeLillo, auk þess sem oft er vitnað til bréfaskipta hans við aðalritstjóra sinn, Michael Pietsch.

Lokaorð þessarar færslu heyrði ég einu sinni falla af vörum Wallace í sjónvarpsviðtali og greip þau þá strax á lofti:

„Look man, we'd probably most of us agree that these are dark times, and stupid ones, but do we need fiction that does nothing but dramatize how dark and stupid everything is? In dark times, the definition of good art would seem to be art that locates and applies CPR to those elements of what's human and magical that still live and glow despite the times' darkness.“

Loks finnst mér þetta lúkk hans skemmtilega kæruleysislegt:



2.10.12

Heyrnartól fortíðar

Á hverjum degi tek ég – líkt og þú – að minnsta kosti eina vonda ákvörðun.

Hin misráðna ákvörðun dagsins í dag (hvað mig varðar) fléttast saman við sögu heyrnartóla lífs míns.

Í áranna rás hef ég átt fáein heyrnartól, misgóð, eins og gengur, sem er mjög áhugavert fyrir þig.

Þau fyrstu sem ég minnist með hlýju voru brynvarin. Einnig prýddi þau mjög öflugur hljóðeinangrandi búnaður, sem lokaði alveg fyrir hávaða heimsins. Þau skemmdi vinur minn, Dóri Geirason, líkt og svo margt annað í lífi mínu. Þetta gerði hann af einskærri illsku sinni, rétt eins og þegar hann ljóstraði upp sögulokunum í kvikmyndinni The Sixth Sense, þrátt fyrir að ég féllist á kné og grátbæði hann um að gera það ekki. „Bruce Willis er dauður allan tímann,“ sagði hann. Ég skil ekki hvernig honum tókst að brjóta brynvörðu heyrnartólin, þar sem hann er afar veikburða; sjálfsagt efldi illskan viljastyrkinn.

Næstu heyrnartólum stal ég frá bróður mínum, Kristjáni ketti, sem stal þeim frá föður okkar, Nonna Noll. Þau voru – líkt og aðrar eigur bróður míns – algjört drasl, en entust mér engu að síður gegnum sært og sútt: útskriftir úr Háskólum, sambandsslit, löng ferðalög, gjaldþrot, sagna- og ljóðaskrif, andvökunætur, leiðinlega fundi og göngutúra í rigningunni.

Þegar þau gáfu upp öndina fyrir um ári síðan neyddist ég til að festa kaup á nýjum. Og áðan – hér kem ég aftur að vondu ákvörðun dagsins – afréð ég að betra væri að ganga en hjóla á kaffihúsið Kooka Boora, þar sem afgreiðslustrákurinn spyr alltaf: „Það sama og venjulega?“ og ég segi alltaf: „Nei.“

Ég gekk sumsé um göturnar með þýða rödd Árna Bergmann(s?) í eyrunum*, þegar snúra heyrnartólanna minna flæktist ALVEG FÁRÁNLEGA KLAUFALEGA utan um lítinn, grænan staur fyrir utan veitingahús eitt. Fólkið sem sat þar úti að snæðingi rak upp öskur, þjónninn þurfti að pumpa aspas upp úr koki ljótustu kerlingar sem ég hef séð og á meðan ég stjáklaði sneyptur burt, rjóður, flissandi móðursýkislega, rann upp fyrir mér hvað ég hafði gert.

Ég hafði drepið heyrnartólin mín. Ég drap þau með gáleysi mínu.

Þeir sem eru viðkvæmir kunna að vilja líta annað:

[hér ætla ég að setja inn ljósmynd af heyrnartólunum, en þá þarf ég líka að taka hana fyrst]

Hin vonda ákvörðun dagsins var með öðrum orðum: að ákveða að ganga á kaffihúsið Kooka Boora með Árna Bergmann í eyrunum í stað þess að hjóla, sem þýðir að nú get ég ekki hlustað á heildar-plötusafn Eltons John, sem ég var að klára að hala niður ólöglega af Internetinu, fyrir svona, eins og, tíu sekúndum, eða eitthvað.

* Mikið eru þættir Árna um Chekhov frá 2010 annars skemmtilegir, fyrir þá sem hafa áhuga á því. (Nú get ég reyndar ekki klárað að hlusta á þá.)

Mín augu eru aðeins ætluð þér

skýin dorma fölvanga og freðin
fuglar hrynja af himni í blómabeðin
mín augu eru aðeins ætluð þér
mín augu eru aðeins ætluð þér

sverrir norland tyllir sér á tærnar
tígrisdýrið brýnir á sér klærnar
mín augu eru aðeins ætluð þér
mín augu eru aðeins ætluð þér

eflaust er til mörg hver myndardama
máske er hér viðstaddur alveg sláandi gelluher
en mér er svo sem alveg sama
mín augu eru aðeins ætluð þér

kannski máninn standi úti á stræti
eða stökkvi milli húsþaka á öðrum fæti
mín augu eru aðeins ætluð þér
mín augu eru aðeins ætluð þér

sólin stígur hliðar saman hliðar
og sígur svo alveg örmagna til viðar
mín augu eru aðeins ætluð þér
mín augu eru aðeins ætluð þér

eflaust er til margur myndargæi
máske er hér viðstaddur heimsins fríðasti töffaraher
en ég er svo sem líka allt í lagi
og mín augu eru aðeins ætluð þér


(2010)

1.10.12

Rokkstjörnudraumurinn

Mig dreymdi – mér til ólýsanlegrar skelfingar – að ég væri staddur á sviði með hljómsveitinni Metallica.

Ég átti að spila á gítarinn.

Sem var ekki gott vegna þess að ég kann engin Metallica-lög. Ég held að í þessari hljómsveit spili tveir á gítar, en þarna átti ég bara að sjá um þetta allt, einn.

Það tók svona hálftíma fyrir okkur strákana að hrökkva í gang. Á meðan risu áhorfendurnir úr sætum sínum og tjölduðu umhverfis sviðið, þolinmæðin uppmáluð.

Brátt flugu fingur mínir upp og niður hálsinn. Þegar söngvarinn átti að hefja söng sinn stökk hann afsíðis á klósettið, en sneri brátt aftur og rak upp rosalegt öskur.

Skömmu síðar ók strætó upp að sviðinu. Út úr bílnum hentust tveir skjaldsveinar með líkkistu og bókaútgefandi í riddaraklæðum. Skjaldsveinarnir opnuðu líkkistuna og þaðan stökk enn einn riddarinn.

Bókaútgefandinn (taugaóstyrk kona á miðjum aldri) sagði: „Halló! Ég rek bókaútgáfu sem sérhæfir sig í riddarabókmenntum og ég vona að þið skiljið hversu mikið er hér í húfi. En ég taldi að þetta væri gott tækifæri fyrir mig til að kynna útgáfuna og að ég gæti ekki látið mér það úr greipum ganga.“

Allt í kringum sviðið lágu áhorfendur nú í svefnpokum, hálfir út úr tjöldum sínum.

Við spiluðum langt inn í nóttina.

Særingamaðurinn

Í gærkvöld sá ég aftur hina þekktu hrollvekju The Exorcist. Ekki skemmdi fyrir að sitja í bíósal.

Ég minnist þess að hafa fyrst séð þessa mynd ungur að árum, tólf eða þrettán ára gamall, ásamt þremur vinkonum mínum uppi í gömlu, brakandi rúmi, síðla haustnætur. Ég æpti langskrækast af öllum áhorfendunum það kvöld og sór (já, einmitt) þess dýran eið að sjá þessa mynd aldrei aftur.

Ég er hins vegar mjög ístöðulaus og nú, rúmum áratug síðar og vonandi einhverri lífsreynslu ríkari, fannst mér Særingamaðurinn mjög góð(ur), en þó engan veginn jafn ógnvekjandi og mig minnti. Myndin er eiginlega fyrst og fremst gott persónudrama, svo ótal margt annað á seyði en hryllingurinn.

Margar sögur hafa spunnist í kringum gerð myndarinnar. Vinsælt er að halda því fram að á framleiðslunni hafi hvílt „bölvun“. Til dæmis kviknaði víst í aðalleikmyndinni, sem þurfti að endurgera hið snarasta. Þá dó einn leikarinn, Jack MacGowran, úr kvefi skömmu eftir að myndin var frumsýnd. En ég veit samt ekki hvort við eigum nokkuð að lesa of mikið í það. Djöfullinn hefur ábyggilega eitthvað annað (og skemmtilegra) að gera en að trufla kvikmyndagerðarmenn.

Max von Sydow er annars flottur sem særingamaðurinn:



Þess má svo geta að nýlega kom út ný mynd eftir leikstjórann, William Friedkin. Sú heitir Dráps-Jói. Mér finnst hún ekki virka eins skemmtileg og Særingamaðurinn.

Hvað?

Stundum líður mig* eins og mig langi í eitthvað, en ég veit ekki nákvæmlega hvað.

*hér á að standa „mér“.

Ástarsaga

„Elskarðu mig?“
„Nei.“
„Nei.“
„Nei.“
„Nei.“
„Nei.“
„Nei.“
„Eskarðu mig?“

Mennska karldýrið

Eitt af lykileinkennum mennska karldýrsins er hvernig það leggur sig stöðugt í líma við að koma öðrum fyrir sjónir sem: „kúl“.