8.10.12

Hvað er trefill?

Einu sinni rétti ég upp hönd í íslenskutíma, þá fimmtán ára gamall, og spurði:

„Kennari, hvað er trefill?“

Kennarinn, sem gerði á þessum tímapunkti náms- og þroskaferils míns þá kröfu að ég vissi hvað trefill væri, sagði: „Fyrirgefðu?“

„Hvað er trefill?“

Það jók enn á undrun kennara míns, Ingibjargar, að ég bar orðið mjög undarlega fram, treee-fihl, frekar en að notast við hina venjubundnu framsögn, tre-vidl.

„Trefill er hálsklútur, úr ull, silki, e.þ.h.,“ sagði Ingibjörg kennari.

Hér rann upp fyrir mér ljós. „Ah. Trefill!“ sagði ég.*

Síðan þá hef ég átt marga trefla.


Á menntaskólaárunum fór ég til dæmis í gegnum „ég er listræn, ung spíra í gamaldags sjóarafrakka og með trefil, alltaf sjúgandi upp í nefið“-tímabilið (eins og svo margir gera), þar sem ekki var óalgengt að sjá mig bogra fram á eitthvert klístrað tréborð í djúpum þönkum, mjög fölur og gáfumannslegur. Þá átti ég vænt treflasafn.

Þeim treflum hef ég síðan flestum týnt. Ég hef týnt treflum í skólum, á pöbbum, í starfsviðtölum, á skipi. Einu sinni reyndi gömul kærasta að kyrkja mig með trefli.

Notaður, gamall trefill ljáir ungum
mönnum gáfulegt yfirbragð.

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað ég svo að kominn væri tími til að fara með trefilsáhuga minn upp á næsta stig. Ég hafði þá nýverið lesið yfir mjög langa og krefjandi háskólaritgerð um íbúðamarkaðinn í Færeyjum og fengið ríflega greitt fyrir verkið af höfundi ritsmíðarinnar, metnaðarfullum, lesblindum áhættufjárfesti, og því splæsti ég nú í rándýran silkitrefil í nýaldar-snobb-búðinni Merci, á Beaumarchais-búlívarði.

Næstu dagar liðu í dásamlega algleymi ástar minnar og trefilsins, sem var gulur.

Tveimur dögum síðar settist ég inn á kaffihús, tók þar af mér trefilinn og hugsaði: „Ef ég legg trefilinn á þennan stól, þá mun ég gleyma honum.“

Daginn eftir keypti ég mér nýjan trefil í Merci og lifði svo á baunum næstu þrjár vikurnar, eða þangað til ég týndi Merci-trefli II.

Nú er ég staddur í Lundúnum og á um sárt að binda. Ég er strax kominn með kvef og byrjaður að barma mér, enda trefilslaus.

Bágt er sér að barma á haustin.

Í kvöld held ég aftur til Parísar, með lest.

Ég mun leggja í ferðalagið berhálsa, kaldur, blautur og sjúgandi upp í nefið.

Um háls minn mun ég bera ýmsa drauga af treflum fortíðar.



Ég vona að það verði ekki dragsúgur í lestarvagninum.


* Þess má til gamans geta að trefill getur einnig merkt „skilningssljór maður, heimskingi“.