5.10.12

Mannkynssagan

Stundum óttast ég að allt í mannkynssögunni hafi nú þegar skeð og það eina sem við getum nú gert sé að finna upp ný tæki til að gera á nýjan hátt það sem við gerum nú þegar á annan hátt (sendiboði, bréfdúfa, póstþjónusta, tölvupóstur), (stór sími, minni sími, enn minni sími, mjög lítill sími sem gerir mjög margt annað líka). Síðan ferðumst við um vettvang hinna sögufrægu atvika og skoðum þá, einkum í gegnum myndavélarlinsu, svo að við getum skoðað þessa staði aftur þegar við komum heim, til dæmis í tölvunni, þar sem við getum spilað „slideshow“ fyrir vini okkar.

Stundum sjáum við líka frægt fólk og þá segjum við öðrum frá því, til að við getum sannað fyrir öðrum að við höfum raunverulega séð hinn fræga.

Ljósmyndin gæti þá litið út eitthvað á þessa leið:

Ljósmyndin sem við
gætum hafa tekið.

„Ég sá Brad Pitt í gær,“ myndum við til dæmis segja. Og: „Hann hélt á barni,“ og félagi okkar veit samstundis um hvað málið snýst.