Fiskimaður einn reri til sjós á hverjum morgni. Hann dró björg í bú, seldi síðan það sem eftir var veiðinnar til kaupmannsins í þorpinu. Með þessu móti gat hann framfleytt fjölskyldu sinni og séð til þess að börnin níu yxu úr grasi, glöð, rjóð og pattaraleg.
Þegar hann hafði lokið sjóstörfunum át hann daglega hádegisverð með konu sinni og börnunum níu, glöðum, rjóðum og pattaralegum, en varði síðan því sem eftir lifði dags í að spila á gítarinn, mála fjöll og rölta um nálægar sveitir. Þegar börnin komu heim úr skólanum lék hann við þau myllu og FIFA 2012, en las fyrir þau sögur á kvöldin. Síðustu stundir dagsins voru helgaðar eiginkonu hans, sem hann elskaði heitar en iljarnar á sér.
Næsta morgun vaknaði hann svo aftur snemma, reri til sjós, svoleiðis gekk þetta í hringi.
Dag einn kom kaupmaðurinn í þorpinu að vitja hans. „Þú veiðir besta og feitasta fisk sem ég hef um ævi mína bragðað!“ sagði kaupmaðurinn, sem var feitur og fallegur. „Ef þú seldir mér meiri fisk yrðum við báðir ríkir menn!“
„Ég sel þér allan þann fisk sem ekki fer í að næra mig og fjölskyldu mína,“ sagði fiskimaðurinn og lagði frá sér gítarinn.
„Þá verðurðu að veiða meiri fisk!“ sagði kaupmaðurinn og fylgdist undrandi með fiskimanninum undirbúa myllu við börnin sín, sem voru að koma heim úr skólanum.
„Ég veiði þann fisk sem ég þarf til að geta lifað góðu lífi, en ekki meira en það,“ sagði fiskimaðurinn.
„En þú gætir lifað enn betra lífi ef þú veiddir enn meiri fisk úr sjónum!“ sagði kaupmaðurinn og brosti út að eyrum. „Þú vinnur of lítið, karl minn. Ef þú ynnir meira gætirðu byggt þér stærra hús, keypt þér hljómmeiri gítar og gefið konu þinni tískuflíkur frá París.“
Fiskimaðurinn brosti. Hann vissi að þetta var rétt hjá kaupmanninum, en bandaði samt frá sér hugmyndinni eins og hverri annarri vitleysu.
„Þú gætir líka lagt til hliðar heilmikið fé, sem myndi gera þér fært að lifa öruggu og afslöppuðu lífi á efri árum.“
„Hvernig þá?“
„Ja, þú gætir til dæmis, þegar þú sest í helgan stein, róið til sjós í morgunsárið þér til ánægju, en varið afgangi dagsins í að spila á gítarinn þinn, leika myllu og FIFA 2012 við börnin þín, eytt kvöldunum með konunni þinni...“