16.10.12
Með dálæti á náttborðum
Einar hafði dálæti á náttborðum. Í huga hans endurspeglaði fjöldi náttborða í hverju samfélagi stig velferðarinnar þar. Náttborð voru – í huga Einars – velmegunarborð (en það kallaði hann stundum náttborð í gamni, velmegunarborð) sem enginn þurfti á að halda, en allir gátu þó notið – „og þurftu þá þar með kannski á að halda!“ bætti hann oft við hlæjandi, og hló þá kannski þar til ískraði í lungunum, einhvern veginn svona: „hnjooooí, hnjooooí, hnjooooooí.“ Þegar hann steig inn á nýtt heimili tók hann alltaf fyrst eftir því hvort í húsinu væri náttborð og þá hversu mörg, ef svo var, og síðan laumaðist hann til að kanna áferð hvers náttborðs fyrir sig – hvers velmegunarborðs fyrir sig. Honum fannst gott að handleika náttborðin, þefa af þeim, kyssa þau jafnvel þegar enginn sá. Sjálfur átti hann ekkert náttborð, þótt það stæði allt til bóta.