Mörgum finnst gaman að hlusta á tónlist.
Mér finnst það stundum dálítið skemmtilegt, líka.
En ég hef líka tekið eftir því að síðan ég varð tvítugur hefur tónlistarsmekkur minn ekki breyst neitt. Ég hef ekki heldur uppgötvað neitt nýtt sem mér finnst skemmtilegt að heyra.
Þegar ég skrifa hlusta ég til dæmis annaðhvort á Graceland með Paul Simon eða The Unforgettable Fire með U2 eða Kind of Blue með Miles Davis eða Love Supreme með John Coltrane eða Mozart (platan Mozart for Meditation er þar efst á lista). Allt er þetta dót sem ég uppgötvaði fyrir löngu. Ég hlusta aldrei á neitt annað.
Ef ég reyni fer mér að leiðast.
Ég hef heyrt aðra lýsa sömu reynslu. Eftir tvítugt er vonlaust að uppgötva nýja tónlist.
Af þessu dreg ég þá ályktun að það sé mjög mikilvægt að kynnast sem mestri góðri tónlist fyrir tvítugt.