4.10.12

Hert öryggisgæsla á baðherbergjum Starbucks

Nú er ég nýkominn til Lundúnaborgar, að hitta þar leirkarl.

Sá er mikið gæskunnar gólem, réttsýn og göfuglyndur.

Fljótlega eftir að við leirkarlinn höfðum faðmast „hæ“ þurfti ég að pissa.

Við leirkarlinn leituðum því skjóls frá skarkala stórborgarinnar inni á kaffihúsinu Starbucks, með það fyrir augum að ég gæti nýtt mér þar baðherbergisaðstöðuna.

Ég tók eftir því að hurðin var læst þegar ég rak höfuðið í hana.

Miði á veggnum sagði: „Nú er bannað að fara á klósettið nema maður kaupi sér kaffibolla. Ef þú keypaðir þér kaffibolla máttu ýta á takkann. Njóttu dagsins!“

Ég ýtti á takkann og þá spilaðist örstuttur lagbútur, mjög fjörugur, og ég dillaði mér í takt.

Mjög mjó rödd smaug út um glufu og sagði: „Þrýstu á hurðina... núna.“

„Ha?“

„Þrýstu á hurðina... núna.“

„Ha?“

„ÞRÝSTU Á HURÐINA, SVERRIR... NÚNA!“

Ég þrýsti á hurðina og slapp inn í heilög vé hins öryggisvarða salernis.

Þegar ég sneri aftur, léttur í spori, gladdi leirkarlinn mig með ameríkanó og kexköku.