Ég minnist þess að hafa fyrst séð þessa mynd ungur að árum, tólf eða þrettán ára gamall, ásamt þremur vinkonum mínum uppi í gömlu, brakandi rúmi, síðla haustnætur. Ég æpti langskrækast af öllum áhorfendunum það kvöld og sór (já, einmitt) þess dýran eið að sjá þessa mynd aldrei aftur.
Ég er hins vegar mjög ístöðulaus og nú, rúmum áratug síðar og vonandi einhverri lífsreynslu ríkari, fannst mér Særingamaðurinn mjög góð(ur), en þó engan veginn jafn ógnvekjandi og mig minnti. Myndin er eiginlega fyrst og fremst gott persónudrama, svo ótal margt annað á seyði en hryllingurinn.
Margar sögur hafa spunnist í kringum gerð myndarinnar. Vinsælt er að halda því fram að á framleiðslunni hafi hvílt „bölvun“. Til dæmis kviknaði víst í aðalleikmyndinni, sem þurfti að endurgera hið snarasta. Þá dó einn leikarinn, Jack MacGowran, úr kvefi skömmu eftir að myndin var frumsýnd. En ég veit samt ekki hvort við eigum nokkuð að lesa of mikið í það. Djöfullinn hefur ábyggilega eitthvað annað (og skemmtilegra) að gera en að trufla kvikmyndagerðarmenn.
Max von Sydow er annars flottur sem særingamaðurinn:
Þess má svo geta að nýlega kom út ný mynd eftir leikstjórann, William Friedkin. Sú heitir Dráps-Jói. Mér finnst hún ekki virka eins skemmtileg og Særingamaðurinn.