24.10.12

Staða tannkremsins í nútímasamfélagi

Ef ég les enn eitt greinarkornið um skáldskap/ljóðabók sem hefst á vangaveltum um STÖÐU LJÓÐSINS og það HVORT LJÓÐIÐ SÉ KANNSKI DAUTT, steypi ég mér bugaður í mjög djúpa gjá. Eða: ég steypi mér kannski ekki bugaður í mjög djúpa í gjá, en ég ætla að minnsta kosti ekki að lesa þá grein til enda. Þetta er líka svo ótrúlega kjánalegt, krakkar! Að skrifa grein ber vott um líf. Að eitthvað sé gert að umfjöllunarefni greinar ber vott um að líf sé í umfjöllunarefninu. Að ljóðabækur séu gefnar út ber vott um að menn yrki ljóð og að einhverjir lesi þau jafnvel – sérvitringar, geðsjúklingar, pirraðir ungir menn, einmana konur og fangar.

Svo að við víkkum aðeins út sjónarhornið, þá hugsa ég að fáir myndu til dæmis halda því fram að kvikmyndagerð nútímans sé spruðlandi af lífi sem listform (þótt hún sé markaðsfræðilega enn býsna lífleg). Eða hver lítur svo á að það að fara í bíó jafngildi því að sækja listviðburð?

Enginn!

Hið sama mætti segja um tónlist. Allir sem ég þekki eru tónlistarmenn. Að semja tónlist í dag er vissulega leið til að fá listræna útrás, en voðalega lítið nýtt og merkilegt gerist. Þetta snýst yfirleitt bara um að halda gott partí eða að draga upp mynd af sér sem viðkvæmum og taugaveikluðum.

Myndlist? Einhver?

Mér finnst eiginlega að eina listformið þar sem menn eru enn að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt sé skáldsögugerð. Sem er líka auðvitað það form sem er víðfeðmast og býður upp á flesta möguleika, þar er hægt að spanna allt – eða ætti að vera hægt að spanna allt. Framúrstefnulegar bækur geta jafnvel verið skemmtilegar – stundum.

En framúrstefnuleg tónlist er oftast álíka leiðinleg og framúrstefnulegar bíómyndir – og framúrstefnuleg myndlistarverk gætu drepið sel.

Einu sinni ranghvolfdi mjög drukkin stelpa í sér augunum og spurði mig: „Af hverju í ósköpunum ertu að skrifa ljóð? Ljóð!“ Hún sagði þetta orð – „Ljóð!“ – eins og það væri alveg merkingarlaust, enda verður það frekar merkingarlaust ef við hellum í okkur mörgum lítrum af bjór og endurtökum það svo mjög oft í röð: „Ljóð! Ljóð!“

En hún fattaði þetta bara ekki. Fyrir mér eru ljóð meira lifandi en flest annað, enda eru þau stór hluti af lífi mínu. Og um það snýst þetta að lokum: einstaklinga, ekki fjöldann. En í neyslugeggjuninni trompa sölutölur og sýnileiki allt annað og út frá slíkum viðmiðunum er ljóðið auðvitað álíka dautt og bumbubaninn eða diskó.

Sem þýðir þó ekki að við sem einstaklingar séum einnig dauð og höfum ekki lengur tilfinningar í brjóstinu. Að lesa góð ljóð lætur mér ekki líða eins og ljóðið sé dautt – þvert á móti* lætur það mér líða eins og það sé sprellifandi. Og það sem meira er um vert: góð ljóð eru áminning um að ég – og þú – erum líka sprelllifandi.


* Fróðleiksmoli dagsins: „Þvert á móti“ er vond íslenska, enda sletta úr dönsku: tværtimod.