Mig dreymdi – mér til ólýsanlegrar skelfingar – að ég væri staddur á sviði með hljómsveitinni Metallica.
Ég átti að spila á gítarinn.
Sem var ekki gott vegna þess að ég kann engin Metallica-lög. Ég held að í þessari hljómsveit spili tveir á gítar, en þarna átti ég bara að sjá um þetta allt, einn.
Það tók svona hálftíma fyrir okkur strákana að hrökkva í gang. Á meðan risu áhorfendurnir úr sætum sínum og tjölduðu umhverfis sviðið, þolinmæðin uppmáluð.
Brátt flugu fingur mínir upp og niður hálsinn. Þegar söngvarinn átti að hefja söng sinn stökk hann afsíðis á klósettið, en sneri brátt aftur og rak upp rosalegt öskur.
Skömmu síðar ók strætó upp að sviðinu. Út úr bílnum hentust tveir skjaldsveinar með líkkistu og bókaútgefandi í riddaraklæðum. Skjaldsveinarnir opnuðu líkkistuna og þaðan stökk enn einn riddarinn.
Bókaútgefandinn (taugaóstyrk kona á miðjum aldri) sagði: „Halló! Ég rek bókaútgáfu sem sérhæfir sig í riddarabókmenntum og ég vona að þið skiljið hversu mikið er hér í húfi. En ég taldi að þetta væri gott tækifæri fyrir mig til að kynna útgáfuna og að ég gæti ekki látið mér það úr greipum ganga.“
Allt í kringum sviðið lágu áhorfendur nú í svefnpokum, hálfir út úr tjöldum sínum.
Við spiluðum langt inn í nóttina.