2.10.12

Heyrnartól fortíðar

Á hverjum degi tek ég – líkt og þú – að minnsta kosti eina vonda ákvörðun.

Hin misráðna ákvörðun dagsins í dag (hvað mig varðar) fléttast saman við sögu heyrnartóla lífs míns.

Í áranna rás hef ég átt fáein heyrnartól, misgóð, eins og gengur, sem er mjög áhugavert fyrir þig.

Þau fyrstu sem ég minnist með hlýju voru brynvarin. Einnig prýddi þau mjög öflugur hljóðeinangrandi búnaður, sem lokaði alveg fyrir hávaða heimsins. Þau skemmdi vinur minn, Dóri Geirason, líkt og svo margt annað í lífi mínu. Þetta gerði hann af einskærri illsku sinni, rétt eins og þegar hann ljóstraði upp sögulokunum í kvikmyndinni The Sixth Sense, þrátt fyrir að ég féllist á kné og grátbæði hann um að gera það ekki. „Bruce Willis er dauður allan tímann,“ sagði hann. Ég skil ekki hvernig honum tókst að brjóta brynvörðu heyrnartólin, þar sem hann er afar veikburða; sjálfsagt efldi illskan viljastyrkinn.

Næstu heyrnartólum stal ég frá bróður mínum, Kristjáni ketti, sem stal þeim frá föður okkar, Nonna Noll. Þau voru – líkt og aðrar eigur bróður míns – algjört drasl, en entust mér engu að síður gegnum sært og sútt: útskriftir úr Háskólum, sambandsslit, löng ferðalög, gjaldþrot, sagna- og ljóðaskrif, andvökunætur, leiðinlega fundi og göngutúra í rigningunni.

Þegar þau gáfu upp öndina fyrir um ári síðan neyddist ég til að festa kaup á nýjum. Og áðan – hér kem ég aftur að vondu ákvörðun dagsins – afréð ég að betra væri að ganga en hjóla á kaffihúsið Kooka Boora, þar sem afgreiðslustrákurinn spyr alltaf: „Það sama og venjulega?“ og ég segi alltaf: „Nei.“

Ég gekk sumsé um göturnar með þýða rödd Árna Bergmann(s?) í eyrunum*, þegar snúra heyrnartólanna minna flæktist ALVEG FÁRÁNLEGA KLAUFALEGA utan um lítinn, grænan staur fyrir utan veitingahús eitt. Fólkið sem sat þar úti að snæðingi rak upp öskur, þjónninn þurfti að pumpa aspas upp úr koki ljótustu kerlingar sem ég hef séð og á meðan ég stjáklaði sneyptur burt, rjóður, flissandi móðursýkislega, rann upp fyrir mér hvað ég hafði gert.

Ég hafði drepið heyrnartólin mín. Ég drap þau með gáleysi mínu.

Þeir sem eru viðkvæmir kunna að vilja líta annað:

[hér ætla ég að setja inn ljósmynd af heyrnartólunum, en þá þarf ég líka að taka hana fyrst]

Hin vonda ákvörðun dagsins var með öðrum orðum: að ákveða að ganga á kaffihúsið Kooka Boora með Árna Bergmann í eyrunum í stað þess að hjóla, sem þýðir að nú get ég ekki hlustað á heildar-plötusafn Eltons John, sem ég var að klára að hala niður ólöglega af Internetinu, fyrir svona, eins og, tíu sekúndum, eða eitthvað.

* Mikið eru þættir Árna um Chekhov frá 2010 annars skemmtilegir, fyrir þá sem hafa áhuga á því. (Nú get ég reyndar ekki klárað að hlusta á þá.)