18.10.12

Að safna sæði stórmenna

Seint verður sagt um breska rithöfundinn og orustuflugmanninn Roald Dahl sagt að hann hafi á síðum bóka sinna dregið upp margslungnar og djúpar persónulýsingar. En sögurnar hans eru oft býsna skemmtilegar, alltaf mjög læsilegar, og stundum frekar fyndnar. Þar er Uncle Oswald frá 1979 engin undantekning. Titilpersónan er mesti kvennabósi sem sögur fara af og hefur barnungur sængað með tugum kvenna. Meðan á námsdvöl hans í París stendur finnur hann upp öflugasta frygðarvaka allra tíma og þá eru honum allir vegir færir. Hann selur ástarlyf þetta í töfluformi til efri stéttar Parísarborgar og efnast vel. En hann lætur auðvitað ekki þar við sitja. Síðar fær hann föngulega samstarfskonu sína til að táldraga frægustu menn Evrópu, meðal annars Monet, Stravinsky, Picasso, Freud og Proust, með hjálp ástarlyfsins. Hún lætur þá gæða sér á súkkulaði-trúfflum sem innihalda frygðarvakann og í kjölfarið tryllast þeir og nauðga henni. Þau Oswald hyggjast svo selja sæðið úr stórmennum Evrópu (þau safna sæðinu í smokka) og komast í álnir.

Bókin er svo smekklaus og yfirgengileg að lesandinn lítur fram hjá afbrigðilegheitunum, að vísu dálítið rjóður og trekktur á taugum, og hlær að allri vitleysunni, svo langt er farið yfir strikið. Dahl byggir Oswald frænda lauslega á Ítalanum Giacomo Girolamo Casanova de Seingalt, sem hefur í síðari tíð einkum orðið þekktur fyrir stóðlífi sitt (nafnið Casanova er auðvitað löngu orðið samnefnari fyrir „kvennaflagari“), þótt sjálfur hafi Giacomo einungis litið á kynlífsiðkun sína sem aukagetu. Fyrst og síðast var hann ævintýramaður, heimspekingur og cosmopolite. Hann ritaði á frönsku, með ýmsum ítölskuslettum, stórskemmtilega ævisögu í mörgum bindum, Histoire de ma vie (Saga lífs míns), og sú bók er víst ein gleggsta heimild sem til er um líf og siði efri stétta evrópsks samfélags á átjándu öld. Verkið skrifaði hann hniginn að aldri, hafði þá gerst bókasafnsfræðingur tékkneska greifans Joseph Karl von Waldstein. Í Tékklandi fannst Casanova svo leiðinlegt að vera að hann tók að rifja upp æviminningar sínar.

Sagan segir að Roald Dahl hafi ekki heldur verið við eina fjölina felldur. Hann gegndi til dæmis stöðu bólfaraspæjarara bresku þjóðarinnar í síðari heimsstyrjöldinni – að mér skilst. Einhvers staðar las ég líka að hann hefði þá einkum haft það hlutverk að fleka eiginkonur háttsettra manna í Bandaríkjaher, í von um að geta veitt upp úr dísunum mikilvægar upplýsingar þegar þær gættu ekki að sér á koddanum. Einhverju sinni hafði honum tekist að tæla eina slíka upp í rúm til sín, en guggnaði síðna þegar á hólminn var komið. Hann afsakaði sig, tiplaði fram og hringdi til breskra yfirmanna sinna. „Ég get þetta ekki,“ á hann að hafa sagt. „Ég get þetta ekki núna.“

„Roald! Hugsaðu um velferð þjóðar þinnar og skríddu aftur upp í rúm!“ var sagt á hinni línunni.

Svoleiðis var nú það.

Roald Dahl kunni
ekki síður að meta hunda
en konur.