Hann þjáðist frá unglingsaldri af öfgakenndum svitaköstum, einkum á almannafæri, og gekk því jafnan með höfuðklút til að svitinn streymdi ekki í stríðum straumum niður ennið, í augun o.s.fr.
Á íslensku kallast svona bandana held ég „buff“ og virðast vera mjög í tísku hjá fólki undir fjögurra ára aldri. |
Einnig barðist hann við alvarlegt þunglyndi (eins og mörg skrifa hans bera með sér) og lagðist nokkrum sinnum inn á spítala, þurfti til að mynda að gera hlé á námi sínu við Amherst College oftar en einu sinni til að leita sér lækninga, en þar var hann afburðanemandi, hlaut styrki, dúxaði o.s.fr. Þá stríddi hann við drykkjuvandamál, reykti auk þess maríúana af mikilli samviskusemi frá ungum aldri, en tókst síðar að vinna bug á þeirri fíkn og sótti upp frá því AA-fundi, allt að 5x/viku. Í þekktustu skáldsögu sinni, Infinite Jest, byggir hann mikið á þessari reynslu.
Þegar hann dó (hann hengdi sig árið 2006) hafði hann unnið að þriðju skáldsögu sinni, The Pale King, í heilan áratug. Sú bók fjallaði um leiða (e. boredom.) í margbreytilegri mynd. Ég hugsa undanfarna áratugi hafi dauði fárra bandarískra listamanna snert jafn-marga jafn-djúpt þar í landi (og þá á ég einungis við þá sem urðu raunverulega hryggir), kannski Michael Jackson veiti honum einhverja samkeppni.
Hugsanlegt er að síðasta skáldsaga – sú sem fjallaði um leiðindin – hafi riðið honum að fullu, enda viðfangsefnið ekki sérlega upplífgandi.
Um bjórakrasíu og nútímabrölt manna segir þar meðal annars:
„To function effectively in an environment that precludes everything vital and human is the key to modern life.“
Og:
„If you are immune to boredom there is literally nothing you cannot accomplish.“
Þetta skynjaði ég stundum á eigin skinni þegar ég var að læra lögfræði við Háskóla Íslands.
Þekkasta bók Wallace heitir Infinite Jest og er hvorki meira né minna en 1.200 blaðsíður. Sú kom út árið 1996, minnir mig. Ég nenni svo sem ekki að rekja söguþráðinn, enda til lítils, get þess þó að í söguheiminum er meðal annars til bíómynd sem er svo skemmtileg að fólk vill helst ekki gera neitt annað en að horfa á hana, og deyr að lokum.
Wallace vildi gefa Infinite Jest undirtitilinn „a failed entertainment“, sem útgefendunum fannst af einhverjum ástæðum ekki söluvænlegt. (Auk þess er bókin alls ekki misheppnuð afþreying; hún er mjög skemmtileg.) Wallace hafði áhyggjur af því hversu sólgnir samlandar sínir voru orðnir í innihaldslausa afþreyingu og hafði þá kannski mestar áhyggjur af sjálfum sér, enda var hann dolfallinn sjónvarpsfíkill. „Ef ég á sjónvarpstæki, þýðir það að ég horfi á það öllum stundum,“ sagði hann einu sinni í viðtali. „Þess vegna á ég ekki sjónvarpstæki.“
Hann hélt því fram að meginmarkmið bókmenntanna væri að slá á einmanaleika hvers manns. Ef það gengi eftir, væri einhverju náð. Á sínum yngri árum var hann mjög tilraunaglaður og vitsmunalegur, sem sést glöggt á fyrstu skáldsögunni, The Broom of the System, og smásagnasafninu Girl with Curious Hair, en síðar breytti hann um stefnu, eða þegar hann tók að vinna að Infinite Jest, hætti þá að fíflast með metafiksjón-pælingar í anda fyrri átrúnaðargoða sinna, Thomas Pynchon, John Barth, fleiri, og vildi nú hafa einlægnina að leiðarljósi. Stundum var Infinite Jest jafnvel nefnd í sömu andrá og grugg-tónlistarstefnan, Nirvana og fleiri pínlega einlægir listamenn, og þá kölluð grunge fiction, Wallace(i) til bæði undrunar og kvíða, enda sór hann sig ekki beinlínis inn í þann hóp, þótt hann deildi kannski stundum með þeim vissum einkennum, vissi raunar harla fátt um Kurt Cobain og þá kappa alla.
Þarsíðustu helgi las ég, með nokkurri eftirvæntingu, nýútkomna ævisögu hans, Every Love Story Is a Ghost Story, eftir náunga sem heitir D.T. Max, ólmur í að fletta ofan af bókmenntasnillingnum og átrúnaðargoði hundruða bólugrafinna gleraugnagláma í Bandaríkjunum, velta mér upp úr breyskleika hans og sanna fyrir mér að hann væri einungis mennskur, svona eins og maður gerir. Ævisaga þessi reyndist mjög læsileg og því húrraði ég í gegnum hana, fyrst og síðast þó vegna þess til hversu sterkrar tengingar ég finn við Wallace sjálfan, en ekki vegna þess að höfundurinn hafi heillað mig neitt sérstaklega – ég sá fyrir mér dálítið leiðinlegan, aðeins of þungan, fausk.
Satt að segja hafði ég eiginlega á tilfinningunni að D.T. Ford væri fyrst og síðast umhugað um að enginn gæti staðið hann að ranghermi eða -færslum um líf og störf DFW. Ford leyfir sér sjaldan, ef nokkurn tímann, að kafa undir yfirborðið; með öðrum orðum er engin ljóðræna í textanum, sem minnir stundum á vandaða skólaritgerð. Wallace skrifaði til dæmis 1.200 blaðsíðna bók (Infinite Jest) til að gera upp sakirnar við móður sína – hjá þessum höfundi var sumsé um móðurmorð, ekki föðurmorð, að ræða – en lesandi Every Love Story Is a Ghost Story fær litlar sem engar skýringar á því hvað nákvæmlega hafi hvílt svona þungt á hjarta DFW að þessu leyti; hvers vegna þurfti hann að útkljá málin við móður sína með jafn-drastískum hætti? Eins sængar Wallace með svona fjögur þúsund milljón konum (sem kom mér sannarlega á óvart, þar sem ég hafði séð hann fyrir mér sem e.k. nútíma-Tolstoy, hreinlyndan, göfugan, réttsýnan, sem hann svo sem var á vissan hátt, þótt breytnin hafi ekki alltaf verið í samræmi við lífsreglurnar og hugsunina, eins og gengur...) – getur verið að hann hafi hrökklast kvenna á milli vegna einhverra móðurkomplexa, eða var það vegna þess að hann var hinn dæmigerði þjáði snillingur? Þessu pælir Ford ekkert í, enda er hann leiðindafauskur sem hefur alls ekki nógu djúpan áhuga á kynlífi náungans og sálardjöflum, og dæmir sig þar með úr leik sem góður ævisagnaritari.
Skemmtilegustu brotin eru beinar tilvitnanir í bréf Wallace, en hann skrifaðist í áranna rás á við marga nútímarisa bandarískra bókmennta, s.s. Jonathan Franzen og John DeLillo, auk þess sem oft er vitnað til bréfaskipta hans við aðalritstjóra sinn, Michael Pietsch.
Lokaorð þessarar færslu heyrði ég einu sinni falla af vörum Wallace í sjónvarpsviðtali og greip þau þá strax á lofti:
„Look man, we'd probably most of us agree that these are dark times, and stupid ones, but do we need fiction that does nothing but dramatize how dark and stupid everything is? In dark times, the definition of good art would seem to be art that locates and applies CPR to those elements of what's human and magical that still live and glow despite the times' darkness.“
Loks finnst mér þetta lúkk hans skemmtilega kæruleysislegt: