Einu sinni sat ég tíma í heimspekilegum forspjallsvísindum („fílunni“), sem var skásti kúrsinn sem ég tók í lögfræði, enda fjallaði hann ekki um lögfræði.
Þar hjó ég sérstaklega eftir því þegar einn kennarinn sagði eitthvað á þessa leið:
„... og svo, kæru nemendur mínir, er til kenning sem segir að allir menn séu inn við beinið eigingjarnir og því hljótist öll breytni þeirra af þessari eðlislægu eigingirni þeirra, sem er einkum vinsæl hugmynd meðal ungra manna...“
Ég og vinir mínir hlógum glottuleitir að orðum hins einfalda kennara, sem var greinilega orðinn gamall og meyr. „Auðvitað eru allir menn eigingjarnir!“ hvískruðum við okkar á milli, drungalegum röddum. „Hann er bara bjáni að halda eitthvað annað!“
Rökin fyrir skoðun okkar voru einföld:
a. flestir menn gera það sem þeir vilja á einn eða annan hátt, eða virkar þeim í hag,Enda hef ég líka löngu snúist á sveif með gamla, meyra kennaranum.
b. ef þeir gera eitthvað sem út á við virkar helst gert fyrir aðra, fórna til dæmis eigin lífi til að bjarga limum annarrar manneskju, er það einungis vegna þess að þeir gætu ekki lifað með því að hafa ekki aðhafst neitt. Þar með er þetta það sem þeir vilja, etc.
c. Svona mætti áfram spinna listilegar, mjög margslungnar og sannfærandi rökfléttur, en ég nenni því ekki.
Ég held að nútímasamfélag manna geri hins vegar mikið til að telja okkur trú um hið gagnstæða: þ.e. að allir menn séu eigingjarnir. Frá því að við komumst til vits og ára er hamrað inn í okkur að við séum naflar alheimsins og allt gert til að auka einstaklingsvitund okkar, jagast á fráleitum hugmyndum eins og „ást við fyrstu sýn“, „snilligáfu“, „öskubusku-sögum“, við tökum öll sömu prófin* til að gá hvert okkar sá gáfaðast, það er meira að segja til eitthvað sem heitir einstaklingshyggja (individualismus – mjög fyndið orð), kenning sem orkar einkum sterkt á þá sem halda að þeir séu merkilegri en þeir eru í raun og sannleika. Síauknar kröfur auglýsingabransans/ háskólasamfélagsins/skemmtanaiðnaðarins (sem er í raun allt sama batterýið) um „velgengni“, „frægð“, „viðurkenningu“, „flottan starfsferil“ o.s.frv., ýta svo enn undir þá heimskulegu hugmynd að hamingjan felist í „velgengni“, „frægð“, „viðurkenningu“, „flottum starfsferli“ o.s.frv., og gera okkur þar með enn óhamingjusamari, enda stöndum við okkur aldrei jafn vel og við gætum staðið okkur. Það er frekar ótrúlegt að hugsa til þess – og við skiljum það sjálfsagt ekki, þótt ég sé að skrifa það nú og þú að lesa það – að enn eru til á jörðinni samfélög með engu öngþveiti, engu ritmál, engri reikningsfræði, engum nöfnum yfir valdhafa og stjórnendur; engum skuldum, reikningum, betlurum, þrotabúum, dánarbúum (þ.e. engum peningum!); og svo framvegis. Í riti frá 16. öld segir Erasmus frá Rotterdam frá hollenskum hópi fólks – sjálfsagt fjölskyldu – sem hírðist í þröngu sambýli, drakk úr sömu súpuskál, kleip af sama brauðhleif, kannski fimmtán manns sem hegðuðu sér næstum eins og ein vera (baðstofan í torfbæjunum íslensku kemst sjálfsagt nálægt þessu), en í dag eru til miðaldra menn (og voru auðvitað líka til þá í einhverri mynd) sem eiga 800 fermetra einbýlishús þrátt fyrir að þeir hafi kannski aldrei gert neitt sérstaklega merkilegt (ég er með nöfn í huga), og búa þar ásamt fallegri, ungri eiginkonu sinni sem þykist elska þá, en er í rauninni að sofa hjá mér.
En þarna hljóp ég aðeins fram úr sjálfum mér...
Það sem ég vildi sagt hafa!
Er sumsé:
Að ég held ekki lengur að allir menn séu eigingjarnir.
En þá vaknar önnur spurning:
Er ég þar með orðinn „gamall og meyr“?
* Skólastofnanir hafa verið til í vel rúmlega tvö þúsund ár, en mig minnir að einkunnakerfið (í sinni fyrstu mynd) sé ekki nema rúmlega tvö hundruð ára – ég gæti gúglað það, en til þess er ég of latur. Sjálfsagt hafa gáfnaljós byrjað að stimpla nemendur með tölustöfum í kjölfar þess að hugmyndir um „höfundinn“ tóku að mótast og menn verða dálítið ástfangnari af sjálfum sér, með auknum frítíma, frekari lífsgæðum, etc. Í dag má ekki einu sinni stela lagstúfi frá poppsöngvara án þess að hann hafi af manni aleiguna í málaferlum, en á 16. öld kippti Montaigne til dæmis heilu klausunum orðréttum eða lítillega breyttum úr skrifum eftirlætis grísku höfundanna sinna og setti inn í eigin ritsmíðar og það taldist til fyrirmyndar-vinnubragða. Nú er þetta hins vegar orðið þannig að höfundar halda sjálfir úti „aðdáendasíðum“ fyrir aðdáendur sína; til dæmis rambaði ég í eymd minni um daginn inn á síðu Stefáns Mána á FB og sá að þar hafði kona ein ritað að einhver bók eftir hann væri mjög góð bók og að hún hefði notið þess að lesa hana. Sú athugasemd konunnar hafði fengið eitt „læk“ – frá Stefáni Mána.