4.10.12

Stuð í stórborginni

Það er gott að vera kominn aftur til Lundúna.

Hér þekkir mig hver kjaftur.

Hver kjaftur.

Til dæmis tók glaðbeitti (hýri) kaffiþjóninn á The Café í Foyles bakföll af gleði þegar hann sá mig.

„Hæææh!“

Vömbin dúaði glaðhlakkalega upp og niður, upp og niður, upp og niður.

„Halló,“ sagði ég.

„Flottur bolur!“

Bolurinn.


„Takk.“

„Ertu að reyna að heilla mig með þessum flotta bol?“

„Já, ég meina, nei. Já.“

„Heyrðu nú mig! Það þýðir ekkert að borga mér með Evrum!“

„Æ, sorrí. Ég er svo mikill heimsborgari...“

„He, he, he. Þú ert nú enginn heimsborgari.“

„(...)“

„Gott að sjá þig!“

„Sömó.“

Eins grét ungverska stúlkan í The London Review Bookstore fögrum tárum þegar hún sá mig og kreisti næstum því úr mér líftóruna. Síðan spurði hún hvað drifið hefði á daga mína undanfarna mánuði.

„Ekkert.“

„Það er frábært!“

Pítsusalarnir í Ecco hafa notað peningana sem ég og blaðamannastjarnan Heiðar Lind Hansson ókum til þeirra í hjólbörum á sínum tíma til að endurinnrétta veitingastaðinn. Ítalska stúlkan brosti allan hringinn og spurði hvort ekki mætti bjóða mér San Pellegrino-svaladrykk til að skola niður öllu hveitinu.

„Með sítrónubragði, takk.“

Í kvöld hyggst ég svo kjassa vini mína í Camden, tannlausa rónann og afríska kássumanninn á markaðnum.

Kássan.