16.10.12

Frönskunám. Þriðji kafli

Þá hef ég formlega hafið frönskunám í Svartaskóla og tengist þar með Sæmundi fróða órjúfanlegum menntaböndum sem ganga í gegnum aldirnar.

Með mér í tímum eru nokkrir kynlegir kvistir, og ýmissa þjóða kykvendi.

Nánar tiltekið sækja sér þarna frönskuþekkingu fulltrúar eftirfarandi þjóða:
- Litháens (ofmeikuð móðir og geðsýkislegur sonur hennar)
- Venezúela (einn feitur og feiminn)
- Svíþjóðar (tvær gellur, önnur með svínslegt nef)
- Taívans (fuglsleg og hlédræg)
- Nígeríu (mjög hláturmild)
- Rússlands (hún brosir stundum til mín eins og hún ætli sér að drepa mig)
- Bandaríkjanna (hún er svo stressuð að einu sinni kleip hún mig mjög fast í handlegginn og hló mjög hvellt inn í eyrað á mér)
- Kína (þegar hún talar koma engin hljóð – engin)
- Grikklands (hann svarar ÖLLUM spurningum kennarans, og mjög hratt til að vera fyrstur, og mjög hátt til að það heyrist snjallast í honum, og ALLTAF vitlaust)

Þetta er ágætt.

Í fyrsta tímanum kynnti sig allir og endurtóku nöfn hinna, eins og gert er í leikskóla.

Líkt og útlendinga er siður hlógu allir hátt og dátt að mínu nafni og ranghvolfdu augunum.

Síðan skrifaði kennarinn það á töfluna:
SVERRIR 

og allir voru látnir endurtaka það til að æfa sig: „SVERRIR! SVERRIR! SVERRIR!“

nema bara að það hljómaði einhvern veginn svona: “SEJRLESAJR! POSEAOFJ! LKEFLJEL!“